Svaraðu mér með tárum frá Sviss


Frá 2011 til 2018 var haldin undankeppni í Sviss. Eins og í fyrra var lag og flytjandi valinn af 100 manna dómnefnd almennings og 20 manna alþjóðlegri dómnefnd. Gjon Muharremaj, sem gengur undir listamannsnafninu Gjon’s Tears, varð fyrir valinu í ár. Nafnið, tár Gjons, kemur til vegna þess að níu ára gamall grætti hann afa sinn við að syngja Presley-slagarann „Can’t help falling in love”. Hann er 21 árs söngvari og lagahöfundur fæddur í Sviss. Faðir hans er Kósóvó-Albani og móðir hans Albani. Gjon er alvanur þátttöku í hæfileikakeppnum, hefur tekið þátt í þeim í þremur mismunandi löndum; 12 ára lenti hann í þriðja sæti í fyrstu þáttaröð Albanians Got Talent en það var einmitt grátandi afinn sem skráði hann í keppnina. Ári seinna komst hann í undanúrslit svissnesku útgáfunnar, Die grössten Schweizer Talente og í fyrra komst hann í undanúrslit í franska The Voice en leiðbeinandi hans þar var söngvarinn og lagahöfundurinn Mika.

Lagið sem Gjon hefði flutt í Eurovision í ár heitir Répondez-moi, eða svaraðu mér og er samið af Gjon sjálfum, Xavier Michel, Alizé Oswald og Jeroen Swinne í svissneskum búðum fyrir lagahöfunda þar sem ætlunin var að semja lag fyrir Eurovision. Þetta er ballaða sungin á frönsku, en Svisslendingar sungu seinast á frönsku árið 2010, hafa síðan þá haldið sig við ensku. Gjon vinnur með sögu sína í texta lagsins, sem fjallar um uppruna og sjálfsefa, hvaðan við komum og hvert við stefnum.
Þegar Eurovision var blásin af var Gjon á topp fimm í veðbönkum, sem hefur án efa haft áhrif á það að búið er að gefa út að hann verður fulltrúi Sviss í Eurovision á næsta ári.

Sviss vann fyrstu Eurovision-keppnina sem var haldin árið 1956 og Celine Dion vann fyrir Sviss árið 1988. Þeim hefur hins vegar gengið bölvanlega að komast upp úr undankeppnum, aðeins fimm sinnum komist í úrslit (af 16 tilraunum). Luca Hänni lenti svo í fjórða sæti í fyrra með lagið She Got Me en það er aðeins í annað skiptið á 21. öld sem Sviss komst í topp 10, eistneska stúlknabandið Vanilla Ninja var í 8. sæti árið 2005 fyrir hönd Sviss með lagið Cool Vibes.