Danir biðja okkur að segja bara “Já!”


Það þýðir ekkert að leggja árar í bát þó Eurovision 2020 hafi verið blásin af EBU með tilkynningu í liðinni viku. Nú er ljóst að EBU mun heiðra þau lög sem valin höfðu verið til þátttöku í Rotterdam í maí með einhvers konar dagskrárgerð. Því þýðir ekkert annað en fyrir ritstjórn FÁSES að halda áfram að matreiða Eurovisionframlögin ofan í ykkur, allt samkvæmt velútfærðri áætlun.

DMGP eða Dansk Melodi Grand Prix var svo sannarlega með öðru sniði en áður þegar úrslitakvöldið fór fram í Royal Arena í Kaupmannahöfn þann 7. mars sl. Þar sem dönsk stjórnvöld höfðu þegar sett bann á samkomur sem töldu fleiri en 100 manns, fór úrslitakeppnin fram fyrir tómum sal en kynnarnir Rasmus Bjerg og Hella Joof, ásamt lifandi hljómsveit, flottum dönsurum og svo auðvitað keppendum sjálfum, stóðu sig frábærlega í undarlegum aðstæðum, og DMGP varð hin mesta skemmtun þrátt fyrir skort á áhorfendum í sal.

Tíu lög kepptu til úrslita í DMGP 2020 og eftir að öll lögin höfðu verið flutt með bravúr í Royal Arena, fór fram kosning sem byggðist á helmingsvægi dómnefndar og helmingsvægi almennings. Þar voru þrjú lög kosin áfram í svokallað ofureinvígi, og voru það söngvararnir Emil með lagið “Ville onske jeg havde kendt dig”, Sander Sanchez með lagið “Screens” og svo dúettinn Ben&Tan með “Yes”. Þá tók við hrein símakosning áhorfenda, sem réði endanlegum úrslitum.

Í fyrra komust Danir upp úr forkeppninni í Tel Aviv og máttu vel við una í aðalkeppninni, þegar ljúflingurinn Leonora söng sig í 12. sæti með ofurdanska krúttsmellinum “Love is Forever”. Í ár var danska þjóðin greinilega ennþá á krúttvagninum því Ben&Tan unnu með yfirburðum og voru með 61% greiddra atkvæða.

Ben&Tan dúettinn samanstendur af vinunum Benjamin Rosenbohm og Tanne Balcells en þau kynntust þegar þau kepptu bæði í 2019 seríunni af The X-Factor. Þar endaði Benjamin í öðru sæti en Tanne, sem var partur af stelpnagrúppunni Echo, var send heim í undanúrslitunum. Þeim varð þó sérdeilis vel til vina og stofnðu því dúettinn Ben&Tan eftir að keppni lauk og ákváðu að taka þátt í DMGP með lagið “Yes”. Lagið er samið er af þeim Emil Rosendal Lei, Jimmy Janson og Linneu Deb, en þau tvö síðarnefndu ættu að vera Eurovision aðdáendum vel kunn enda heilarnir á bakvið mörg af flottari lögum seinustu ár. Jimmy er t.a.m heilinn á bakvið tyggjókúlusprengjuna “Hello Hi”, sem Dolly Style kepptu með í Melodifestivalen 2015. Linnea, ásamt fyrrum eiginmanni sínum Joy Deb, samdi t.d “You” sem var framlag Svia árið 2013 og svo auðvitað “Heroes” sem Måns Zelmerlöw söng til sigurs 2015.

Eins og áður sagði er “Yes” algjörlega þvottekta og skotheld dönsk krúttballaða með nettum sænskum áhrifum, sem ætti að falla vel í kramið hjá áhorfendum víða um heim og hefði örugglega halað inn eitthvað af stigum frá Íslendingum í Rotterdam, enda einstaklega áheyrileg og vel sungin.