Senhit snýr aftur fyrir hönd San Marino og ætlar að vera “Freaky!”.


Við dýrkum endurkomur í Eurovision og elsku litla San Marino hefur sko aldeilis verið duglegt að endurvinna söngvarana sína. Valentina Monetta hefur komið aftur nokkrum sinnum og öllum til mikillar gleði í fyrra, snéri töffarinn og dásemdin Serhat aftur og fann ekki aðeins upp nýja tóntegund, heldur náði besta árangri San Marino frá upphafi. En núna er það ítalska söngkonan og partýpinninn Senhit, sem keppti árið 2011 í Düsseldorf með fremur óeftirminnilegt lag en hafði aftur á móti einstaklega eftirminnilega og skemmtilega nærveru, sem ætlar að taka tvö fyrir hönd San Marino og mun flytja lagið “Freaky!”.

SMRTV sem er ríkismiðillinn í San Marino, tilkynnti þann 6. mars sl. að þeir hefðu valið Senhit innbyrðis og sett yrði af stað keppni á netinu um hvaða lag hún skyldi flytja í Rotterdam. Netverjar fengu fimm lög til að velja um, en eitt þeirra, “Cleopatra” var síðar dregið til baka þar sem höfundarnir vildu frekar senda það til Azerbaijan. Lagið “Obsessed” var smellt inn í staðinn, og þegar uppi var staðið, stóð valið á milli þess og “Freaky”, sem upphaflega hét “Freaky, freaky, freaky”. Titillinn var skiljanlega örlítið styttur. Það var mjótt á munum milli laganna, en á endanum var það “Freaky!” sem varð fyrir valinu með tæp 52% atkvæða, en “Obsessed” var með rétt rúm 48% atkvæða.

Eins og áður sagði er Senhit alls ekkert ókunnug júróbúbblunni því þetta er í annað skipti sem hún tekur þátt. Hún heitir réttu nafni Senhit Zadik Zadik og er fædd í Bologna árið 1979. Foreldrar hennar eru innflytjendur frá Eritreu og hefur Senhit alltaf verið mjög stolt af uppruna sínum þrátt fyrir að stíla meira inn á ítalskan markað þegar kemur að tónlist. “Freaky!” er í anda Serhat og er diskóvænn smellur sem fjallar um það að vera alltaf trúr sjálfum sér og njóta lífsins, í hvaða mynd sem það kann að vera. Myndbandið við lagið er einstaklega hresst og skemmtilegt og vilja margir meina að það gefi í skyn að Senhit sé tvíkynhneigð og sé einfaldlega að fagna fjölbreytileikanum. Hún hefur sjálf lítið gefið út um kynhneigð sína (enda skiptir hún ekki máli) en er mikil stuðningsmanneskja fyrir réttindum LGBT+ fólks í heiminum öllum. “Freaky!” er svo sannarlega velkomin viðbót í flóruna hvernig sem fólk kýs að túlka lag og texta.

Það hefði því verið þvottekta san marínesk diskósprengja sem hefði keppt við Daða okkar þann 14. maí í Ahoy-höllinni í Rotterdam og hver veit ,kannski hefðum við fengið að sjá okkar heittelskaða San Marino aftur í úrslitum. En það þýðir víst lítið að spá í það núna þegar Eurovision hefur verið aflýst. Í öllu falli er er nauðsynlegt að vera pínu “freaky” öðru hverju!