Stóra Söngvakeppnishelgin – FÁSES viðburðir


Á meðan Bragi, Diljá, Sigga Ózk, Langi Seli og Skuggarnir og Celebs undirbúa sig fyrir úrslit Söngvakeppninnar 4. mars næstkomandi undirbúa FÁSES-liðar sig fyrir eitt mesta partý ársins. Söngvakeppnishelgin er nefnilega ekki nein venjuleg helgi og stendur hörðustu Eurovision aðdáendum til boða að leggja nokkra daga alveg undir júródýrðina.

Eurovision karaoke 3. mars

FÁSES startar úrslitahelgi Söngvakeppninnar með Eurovision karaoke á Gauknum föstudagskvöldið 3. mars. Við tjúnum upp í græjunum og hleypum okkar innri Eurovision karaoke-stjörnu út í eins og eina kvöldstund. Hið eina sanna Eurovision karaoke FÁSES verður tekið til handagagns og við treystum á að þið takið öll eins og eitt lag! Vindvélin Eyvindur verður á staðnum (sjá mynd). Öll velkomin og frítt inn!

Eurovision Zumba 4. mars
Okkar eini sanni Flosi Jón ætlar að vera með Eurovision Zumba laugardaginn 4. mars kl. 11.15 í Reebok Fitness Lambhaga. Það er ekki til betri leið til að hita upp fyrir úrslit Söngvakeppninnar. FÁSES-liðar hafa fengið sendar upplýsingar um hvernig þeir skrá sig. Hér má sjá eina af vinsælustu Eurovision rútinum Flosa:

Fyrirpartý FÁSES fyrir úrslit Söngvakeppninnar: Júrókrús
Júrókrúsið er fyrirpartý í formi Eurovision bátsferðar frá Reykjavíkurhöfn kl. 17 þar sem siglt verður yfir í Söngvakeppnishöllina í Gufunesi í tæka tíð fyrir úrslitin. Hera Björk kemur gestum í gírinn og að sjálfsögðu verður Eurovision tónlist að hætti hússins. Varaplan er að sjálfsögðu til staðar ef ekki verður hægt að sigla yfir í Gufunes vegna veðurs. Þau sem eiga miða á úrslit Söngvakeppninnar verður hleypt í land á Gufunesbryggju en önnur geta farið með bátnum til baka í Reykjavíkurhöfn.

Júróklúbburinn: Norðurljós og nætur trylla mig!
FÁSES, RÚV, Pink Iceland og Saga Events kynna Euroklúbbinn 2023 í Iðnó 4. mars. Við sækjum DJ kvöldsins lóðbeint inn í Eurovision fjölskylduna því Hulda úr Gagnamagninu, betur þekkt sem DJ Hulda Luv, hefur tekið við lagabanka FÁSES og mun trylla lýðinn með vel völdum Eurovision slögurum, sérvöldu efni úr hinum ýmsu undankeppnum og að sjálfsögðu ekta svensk schlager! Sérstakir gestir verða Eyfi, Sigga Beinteins og Hafsteinn Þórólfsson því auðvitað eiga allar Söngvakeppnisdívurnar að fá að njóta sín. Dragdrottning Íslands 2022, Lady Zadude, mun síðan halda dívustælunum við rétt hitastig. Að venju verður open mic fyrir keppendur Söngvakeppninnar 2023 að stíga á stokk.

 

MIÐASALA Á JÚRÓKRÚS OG JÚRÓKLÚBBINN 2023