Hin áströlsku Voyager lofa öllu fögru í Liverpool


Góðvinir okkar í Ástralíu halda áfram að dýrka og dá Eurovision og eftir að hafa fengið að vera með óslitið frá árinu 2015, mörgum til mikillar gleði, hafa þeir nú bætt níunda framlaginu í sístækkandi lagasafn sitt fyrir Eurovision. Það er rokksveitin Voyager sem ætlar að trylla lýðinn og tæta í Liverpool með lagið “Promise”.

Glöggir muna svo sannarlega eftir Voyager og laginu “Dreamer” úr Australia Decides í fyrra þegar þau rétt svo misstu af miðanum til Tórínó eftir æsispennandi einvígi við Sheldon Riley, sem vann naumlega með einungis þriggja stiga mun. Mörgum fannst miður að Voyager hafi farið á mis við keppnina og grétu fögrum tárum. Ástralski ríkismiðillinn SBS var greinilega á sama máli því þau kusu í ár að sleppa forkeppni og velja þessa viðkunnalegu sveit innbyrðis í staðinn. Og mikið sem aðdáendur hafa fagnað þeirri ákvörðun!

Voyager er stofnuð í Perth árið 1999 og er titluð sem progressive metalband. Þau hafa nú ekkert verið að læðast með veggjum í gegnum tíðina og hafa t.a.m. spilað mikið með norrænum metalböndum eins og Nightwish, Children of Bodom og Deathstars, ásamt því að hafa hitað upp fyrir hollensku sveitina Epica, en allar þessar sveitir eru vel þekktar og vinsælar innan metalsenunnar á heimsvísu. Nokkrar mannabreytingar hafa orðið á bandinu í gegnum tíðina en söngvarinn Danny Estrin er einn eftir af stofnmeðlimunum. Meðfram tónlistinni starfar hann sem lögfræðingur í heimaborginni Perth og sérhæfir sig í málefnum innflytjenda. Klassagæi.

Að sögn Danny er sveitin í skýjunum yfir að vera loksins á leiðinni í Eurovision. Þau hafa aldrei farið í felur með draum sinn um að fara fyrir hönd Ástralíu í keppnina, enda hafa þau sent inn lag til SBS á hverju ári síðan 2015 og nú hefur draumurinn ræst. “Fyrir okkur sem eilífðaraðdáendur Eurovision, er þetta hápunkturinn – Voyager fær að troða upp á besta sviði á öllu jarðríkinu!” segir hann í yfirlýsingu frá hljómsveitinni eftir að það var gert opinbert að þau yrðu fulltrúar Ástrala. Og komi þau bara fagnandi, þessar elskur.

Það ríkir því miður smá óvissa um framtíð Ástralíu í Eurovision en landið fékk í fyrsta skipti að taka þátt árið 2015 og þá sem gestir í tilefni 60 ára afmælis keppninnar. Vegna mikillar velgengni Guy Sebastian það ár, sem og mikils áhuga heima fyrir, ákvað EBU og SBS að Ástralía fengi að taka þátt óslitið til ársins 2023. Hvað verður svo eftir keppnina í vor veit enginn en flestir krossa fingur um að Ástralir fái að vera með okkur áfram því fáar þjóðir (nema kannski við Íslendingar og Maltverjar) elska keppnina og virða meira en einmitt Ástralir.

Þetta kemur allt í ljós með tímanum en þangað til skulum við bara slamma eins og engin sé morgundagurinn í takt við Voyager sem lofa í orði og á borði að það verði sprengja í seinni forkeppninni þann 11. maí nk., en Ástralía er einmitt í sömu forkeppni og við Íslendingar.