20 ár í dag: Sjóðheitt, tyrkneskt sigurlag, belgískt bulllag og rússenskur stormur í vatnsglasi


Lokakvöld Eurovision árið 2003 fór fram í Skonto Hall í Riga í Lettlandi 24. maí 2003 eða fyrir akkúrat 20 árum síðan. Alls tóku 26 þjóðir þátt og var því enn á ný sett þátttökumet. Úkraína var með í fyrsta skiptið þegar Oleksandr flutti lagið Hasta la vista. Allir keppendur voru að taka þátt í fyrsta sinn, það var enginn sem snéri aftur (returning artist) sem er óvenjulegt og hafði það bara gerst áður fyrsta árið, 1956 og svo 1970. Kynnar kvöldsins voru Eurovisionstjörnurnar Marie N og Renars Kaupers. Þau byrjuðu keppnina á að hringja myndsímtal í fyrsta Eurovisionsigurvegarann, Lys Assia og hringdu svo líka í söngvarann Elton John. Þess má til gamans geta að Elton var höfundur lagsins I Can´t Go On Living Without You sem keppti í A Song For Europe, forkeppni Breta fyrir Eurovision árið 1969. Lagið varð í sjötta og síðasta sæti.  Eurovisionlag númer 900 er í þessari keppni Feeling Alive með Stelios Konstantas fyrir Kýpur. Íslendingar náðu inn á topp tíu í fjórða sinn þegar Birgitta Haukdal söng Open Your Heart og deildi 8. – 9. sæti með hinni spænsku Beth.

Þessi keppni var æsispennandi allt til enda og í raun sú síðasta sem var þannig þar til stigagjöfinni var breytt árið 2016. Slóvenía var síðust til að gefa stig og þegar röðin kom að þeim gátu Tyrkir, Belgar og Rússar unnið. Slóvenski kynnirinn, Peter Poles, sem hefur nokkrum sinnum verið stigakynnir, hafði sem betur fer húmor og dró þetta aðeins á langinn. En stórtíðindin voru kannski að Bretar gengu í núllstigaklúbbinn með lagið Cry Baby sem dúettinn Genemies flutti. Úrslitin voru líka öfug miðað við árið áður. Þá voru Lettland, Malta og Bretland í þremur efstu sætunum, en þessi lönd voru í þremur neðstu sætunum þetta árið.

Sænska dúóið Fame varð í fimmta sæti með lagið Give Me Your Love. Dúettinn skipa Jessica Andersson og Magnus Bäcklund. Þau höfðu unnið ekki minni stjörnur en Jan Johansen, Jill Johnson og Afro-Dite í Melodifestivalen til að komast í stóru keppnina. Þau kepptu svo aftur í Melodifestivalen ári síðar með magið Vindarna vänder oss. Samstarfið varði árin 2002-2006 og Magnus tók aftur þátt í Melodifestivalen árið 2006 og Jessica tók þátt alls sex sinnum aftur árin 2006-2021, síðast með lagið Horizon.

Vinsælasta lagið hjá okkur Íslendingum er norska lagið I´m Not Afraid To Move On, flutt af Jostein Hasselgard, sem varð í fjórða sæti í keppninni. Lag og texti eru eftir Arve Furset og VJ Strøm. Jostein byrjaði að læra á píanó þegar hann var sex ára og nam síðar hjá norsku tónlistarakademíunni. Jostein hefur verið leikskólakennari að aðalstarfi en syngur líka tenór í sönghópnum Pust.

Fyrir Rússland keppti dúettinn t.A.T.u. (sem þýðir þessi elskar hina) sem þóttust vera lesbískt par sem ætlaði að gera eitthvað agalegt á sviðinu, en gerðu svo ekki neitt. Dúettinn skipuðu þær Lena Katin og Julia Volkova og fluttu þær lagið Ne ver´ne boysia eða Ekki trúa, ekki hræðast og ekki spyrja. Urðu þær í þriðja sæti. Það er líka athyglisvert að lagið var gefið út aðeins fimm dögum fyrir keppnina, eða þann 19. maí.  t. A.T.u. voru orðnar ansi þekktar áður, meðal annar fyrir lagið All The Things She Said.

Belgar urðu öðru sæti. Hópurinn kallaði sig Urban Trad og flutti lagið Sanomi. Talsverðar mannabreytingar hafa verið í hópnum sem hefur verið starfandi lengi, en söngkonurnar sem kepptu í Eurovision eru Soetkin Collier og Veronica Codesal. Lagið er sungið á ímynduðu tungumáli og var það fyrsta til þess í Eurovision. Tvö önnur lög í Eurovision eru líka þannig. Belgíska lagið O Julissi frá 2008 og Hollenska lagið frá 2006, Amambanda, er það að hluta til.

Sigurvegarinn varð Sertab Erener frá Tyrklandi með lagið Every Way That I Can. Þetta var fyrsti og hingað til eini sigur Tyrkja í Eurovision. Og ekki breytist það meðan þeir eru ekki með, en það voru þeir síðast árið 2012. Það þótti líka merkilegt að lag svona snemma í keppninni, strax númer fjögur, ynni og enn er þetta eina lagið númer fjögur sem hefur unnið. Lagið er eftir Demir Demirkan. Unnu Demir og Sertab talsvert saman í tónlistinni á árunum i kringum 2003. Sertab hefur hins vegar grunn í klassískri tónlist. Every Way That I Can varð ansi vinsælt og náði fyrsta sæti á vinsældarlistum í Grikklandi, Svíþjóð og Tyrklandi og auk þess inn á topp tíu í Austurríki, Belgíu, Hollandi, Rúmeníu og Spáni.

Haustið 2003 fór í gang svokölluð World Idol keppni. Söngvakeppnin Idol hafði náð miklum vinsældum víða um heim og hefur verið haldin í mörgum löndum. Þar syngja keppendur þó yfirleitt áður útgefin lög. Keppnin var og er nú aftur haldin á Íslandi og á þessum tíma komu einnig fram fleiri hæfileikakeppnir í framhaldinu eins og X-Factor og Voice. Fjölmargir Eurovisonkeppendur hafa tekið þátt í öllum þessum hæfileikakeppnum. En í þessari World Idol keppni kepptu aðilar sem höfðu unnið Idol keppni í sínu heimalandi og voru fulltrúar landsins síns. Þetta líktist því svolítið Eurovision, nema hér kepptu keppendur bæði innan og utan Evrópu og tóku reyndar lög sem höfðu komið út áður. Tólf einstaklingar kepptu um titilinn World Idol. Fyrir Ísland keppti Karl Bjarni Guðmundsson. Sigurvegarinn var Norðmaðurinn Kurt Nielsen en hann flutti lag eftir írsku hljómsveitina U2. Þess má geta að fyrir Ástralíu keppti Guy Sebastian, sem var líka fyrsti keppandi Ástralíu í Eurovision. Þetta er ein af fáum keppnum sem má segja að séu eitthvað í líkingu við Eurovision og mögulega í samkeppni við hana. En World Idol var þó aðeins haldin í þetta eina skipti, annað en OTI Festival sem áður var fjallað um á FÁSES.IS.