Júró Gróa vol. 1 – Lent í Liverpool.


Good evening og Доброго вечора! Þá er elskuleg Gróan ykkar loksins mætt til Liverpool eftir alveg skelfilegt ferðalag. Blessaðir Bretarnir eru ekkert að grínast með þetta Brexit-dæmi, því Gróan lenti bara í sjö gráðu yfirheyrslu á John Lennon flugvelli vegna þess að fyrir um þremur árum varð henni það á að þiggja rausnarlegt heimboð í kampavíns og kavíar morgunverð hjá Filip Kirkorov í Moskvu. Gróft dómgreindarleysi af hennar hálfu, en hvernig í ósköpunum átti Gróan að vita hvað framtíðin bæri í skauti sér og hversu óvinsælir Rússar yrðu allstaðar? En jæja, þessir landamæraverðir eru víst bara að vinna vinnuna sína, en Gróunni finnst nú helvíti hart að þurfa að þola svona óhugnalega nákvæma líkamsleit. Kona á hennar aldri! Fyrir hádegi!! En hún er nú loksins laus af flugvellinum, komin heim til Paul BFF Hollywood og búin að láta renna í bubblubað, tilbúin að takast á við nýjasta nýtt úr Júrólandi og alla malla. Þessir pistlar skrifa sig nánast sjálfir!

Fyrst ber auðvitað að nefna að Diljá okkar negldi algjörlega fyrstu æfinguna, enda ekki við öðru að búast, því stelpan er svo sannarlega algjör sprengja. Ef lesendur hafa fylgst með TikTok, þá er greinilegt að keppendur eru í skýjunum yfir sviðinu, tæknimönnum, pródúserunum og bara fagmennskunni almennt. Þó ráku margir, og þ.á m. Gróan upp frekar stór augu þegar kom að stiklunni frá fyrstu æfingu hjá Loreen stórvinkonu okkar. Stiklan sú þótti fremur snubbótt og ópersónuleg og öfugt við alla aðra keppendur, tjáði sænski söngfuglinn sig ekki í lok æfingarinnar. Uppi eru kenningar, og þetta eru bara KENNINGAR um að fyrsta æfing Loreen hafi ekki hugnast henni og SVT og að það hafi ríkt einhver smá óánægja með utanumhald. Hvað svo sem því líður, þá situr hún Lolla sem fastast í efsta sæti veðbankanna í augnablikinu, en grænklæddi gúrmesnúðurinn hann Käärijä frá Finnlandi fylgir fast á eftir.

Og talandi um þennan nýjasta ástmögur Evrópu og Ástralíu. Hann þykir einstaklega vel gerður og skemmtilegur ungur maður (Gróan getur sko vottað að það er satt!) og auðvitað laðar hann fólk að sér hvar sem hann kemur. En hann virðist vera að laða suma meira að sér en aðra, því sést hefur til hans og dásemdardrengsins Bojan, sem leiðir slóvensku hljómsveitina Joker Out, á götum Liverpool, þar sem þeir gantast, grínast, borða, hlæja og njóta þess að vera í júróbúbblunni. Þeir hafa farið mikinn bæði á TikTok og Twitter og gott ef Gróan fær ekki bara pínu tár í augun yfir þessu nýtilkomna bræðralagi milli tveggja hæfileikaríkra söngvara, sem leggja allt keppnisskap til hliðar og einbeita sér bara að vináttunni. Ungmennafélagsandinn, krakkar mínir. Hann ávallt blívur –  #kääjan #bojirjä!

En því miður svífur sá andi ekki alltaf yfir vötnum. Gróan og fleiri urðu vör við ákveðna úlfúð í garð hollensku keppendanna í aðdraganda Eurovisio. Þau Mia og Dion þóttu engan veginn samstillt í fyrirpartýjunum og eiginlega bara léleg. Í ljós kom að áður en þau mættu á svið í forpartýinu í Madrid höfðu þau ALDREI verið í sama herbergi, hvað þá sungið saman, svo skiljanlega voru þau ekki alveg tilbúin. Ó, það særir Gróuna að þurfa að rifja þetta upp, því henni er einstaklega hlýtt til þessara krakka, sem voru svo til algjörlega óþekkt þegar veganpésinn og sigurvegarinn Duncan Laurence fékk þau til að flytja lagasmíðina sína fyrir Eurovision (og hefði nú mátt halda aðeins betur utan um þau). Þau hafa nefnilega alls ekki átt sjö dagana sæla, því eineltið og vibbinn sem þau hafa þurft að þola í vetur er fyrir neðan allar hellur! Skammist ykkar bara og þeir taki það til sín sem eiga! En til Liverpool eru krakkarnir samt mætt og það gekk bara svona glimrandi vel á fyrstu æfingunni hjá þeim og þau voru ægilega sátt með lífið þessar elskur og greinilega búin að samstilla sig betur og “væba tóts mikið saman”, eins og Dion tjáði Gróu. Hún veit ekki alveg hvað það þýðir þar sem hún er ekki nógu vel að sér í GenZ slangrinu en þetta hlýtur að þýða eitthvað gott.  En allavega… gangi þeim bara allt í haginn hér eftir, poj poj.

En nú er ekki meira á dagskrá frá Júrólandi að sinni. Bubblurnar eru nánast horfnar úr baðinu og bjórinn að verða búinn. Gróan kveður því í bili og lofar því að vera ekki alveg svona frústreruð næst, en það skrifast bara á landamæravörðinn sem fór fulllangt inn fyrir þægindasvið Gróunnar. Yfir og út, elskurnar.