Júró-Gróa vol. II – Hjálpartæki ástarlífsins og Waterloo


Gróan heilsar frá rigningarsuddanum í Liverpool en það gerir ekkert til – það er eingöngu sól í hjörtu allra Eurovisionfara! Og maður minn stemningin í Liverpool er að ná hæstu hæðum, allt er skreytt í gulu og bláu og Eurovision merkingar ÚT UM ALLT svo ekki fer fram hjá neinum að hann er staddur í Júrólandi.

Eins og aðdáendur Gróunnar vita einkennist aðsókn Eurovision af samkynhneigðum karlmönnum á aldrinum 20-55 ára. Gróan nýtur þess í botn að vera ein af fáu konunum á staðnum og þurfa ekki að bíða í löngum klósettröðum. Talandi um klósett. Mikið hefur rætt um að innvolsið í Liverpool höllinni líkist vatnssalerni. Talandi um holdgera Waterloo – dæmi hver fyrir sig um líkindin en Gróan þakkar Gísla Marteini Baldurssyni kærlega fyrir meðfylgjandi mynd.

En snúum okkur í hring og vindum okkur í annars konar neðanbeltisinnvols. Sviðið í ár þykir grunsamlega líkt tilteknu hjálpartæki ástarlífsins sem aðdáendur Eurovision hafa hlegið að í nokkra mánuði. Gróan telur að sjálfsögðu að Gerður í Blush hafi hér átt hlut að máli og að þetta sé allt eins stór auglýsing fyrir stærstu kynlífstækjaverslun á Íslandi. God bless! Gróan er ekki búin að ákveða hvort sviðið verði kalla innipúki, suðurpóllinn eða undirtyllan. Bíðum eftir að heyra frekari fregna frá vinkonu okkar Gerði.

Nú líður senn að því að Gróan reimi á sig dansskóna og að alvöru partýstemning myndist í Liverpool. Gróan heyrði að lettneska bandið Sudden Lights hefði fengið ákaflega góð ráð frá Brainstorm (Eurovision 2000). Bandið það ku hafa haldið partý í Stokkhólmi þar sem gestir klæddust eingöngu höttum! Nú er aldrei að vita nema Sudden Lights leiki þetta eftir og sameini hefðir heimamanna í Bretlandi og berrassaðra Eystrasaltsþjóða. Maður minn hvað Gróan er tilbúin í þetta partý! Hún er búin að fá gefins hatt frá Gustaph frá Belgíu og allt!

Á aðeins öðrum nótum tekur Gróan eftir því að TikTok hefur svo til tekið yfir Eurovision og var eingöngu í boði að sjá brot úr fyrstu æfingum landanna á þeim samfélagsmiðli. Einnig verða blaðamannafundir þátttökuþjóða haldnir á TikTok eftir aðrar æfingar á sviði. Það er áhugaverð þróun í ljósi þess að nú hafa velflest nágrannalönd bannað opinberum starfsmönnum að nota TikTok þar sem óttast er að kínversk stjórnvöld njósni um símtæki þessara starfsmanna. Eurovision hefur einnig tekið upp á því að loka seinni æfingum landanna á sviðinu í Liverpool og mega bara miðlar ESC bera góssið á borð fyrir aðdáendur keppninnar. Gróan hefur blendnar tilfinningar í garð þessara breytinga. Það þarf að gæta að því að flytjendur hafi nægan frið til að æfa á sviðinu í Liverpool en líka veita þeim sem vilja, kost á að koma framlagi sínu á framfæri við blaðamenn, aðdáendur og aðra. Nú hafa átta sendinefndir kvartað yfir þessum takmörkunum og Gróan vonar að það sjóði ekki upp úr! Steininn tók þó úr þegar starfsfólk ESC hreikti sér af því á samfélagsmiðlum hversu mikið umferðin um ESC miðlana hefur aukist. Döhh – það er út af því að enginn annar má miðla þessum upplýsingum! Talandi um að núa salti í sárin!

Á lokum verður Gróan að alvarlegri nótum, serbneska sendinefndin er með böggum hildar og íhugar að fara heim. Tvær alvarlegar skotárásir áttu sér stað í Serbíu fyrir örfáum dögum þar sem fjöldi manns féll og andrúmsloft fyrir Eurovision gamani er ekki í hæstu hæðum. Gróan er búin að senda blóm og góðar kveðjur til Luke Black og serbnesku sendinefndarinnar og vonar að þau fari vel með sig næstu daga. Vonandi kemur ekki til þess að þau hætti við þátttöku í ár.