Ástaróður Mimicat er fulltrúi Portúgals


„Ó, hjarta” syngur hin portúgalska Marisa Mena, sem kallar sig Mimicat. Hún vann portúgölsku undankeppnina Festival da Canção, sem var haldin í 57. skipti á árinu.

Portúgalska sjónvarpsstöðin RTP bauð 15 lagahöfundum að taka þátt í keppninni og fimm voru valdir úr 667 lögum sem voru send inn þar að auki. Meðal þeirra lagahöfunda sem var boðið að taka þátt var Cláudia Pascoal, sem keppti fyrir hönd Portúgals á heimavelli árið 2018, með laginu O Jardim.

Tvær undankeppnir voru haldnar fyrir Festival da Canção með tíu lögum hvor, þar sem sex þeirra komust áfram í úrslitakeppnina. Fyrstu fimm lögin úr hvorri keppni voru ákveðin með dómnefnd og símakosningu, sem giltu til jafns, þar sem bæði gáfu stig að „Eurovision-sið”, þ.e. 1-8, 10 og 12. Sjötta lagið var svo valið úr þeim fimm sem eftir voru með hreinni símakosningu. Vegna tæknimistaka í símakosningu sem uppgötvuðust í fyrri undankeppninni var einu lagi í viðbót hleypt úr þeirri keppni í úrslitin og voru því 13 lög í úrslitunum.

Sigurvegarinn var valinn með helmingsatkvæðum sjö dómnefnda, dreifðum um landið og helmingsatkvæðum úr símakosningu. Mimicat, sem var ein þeirra sem sendi inn lag en hafði ekki verið boðið af sjónvarpsstöðinni til að taka þátt, kom sá og sigraði og fékk hámarksfjölda stiga frá dómnefndum og úr símakosningu með lagið Ai Coração.

Mimicat tók áður þátt í Festival da Canção árið 2001 undir listamannsnafninu Izamena en komst ekki upp úr undankeppni í það skipti. Hún er 38 ára gömul og kemur frá Coimbra. Hún hefur sungið frá níu ára aldri, gefið út tvær breiðskífur og komið fram á fjölda tónlistarhátíða í Portúgal og Brasilíu.

Ai Coração verður fimmta lagið á svið í fyrri undankeppninni, sem fer fram 9. maí.