Þá hafa hinir gestgjafar Eurovision neglt lagi í hús, en í seinustu viku kynntu Bretar hina 25 ára gömlu söngkonu Holly Mae Muller, (sem kýs þó að sleppa Holly og er betur þekkt sem einfaldlega Mae Muller) til leiks með lagið „I wrote a song“ og mun hún feta í risastór fótspor Sam Ryder og vera fulltrúi síns heimaliðs í Liverpool.
Framan af hvíldi mikil leynd yfir öllu framlagsstússi sem BBC var að bardúsa á bakvið tjöldin og Gróusögurnar og samsæriskenningarnar voru daglegir gestir inn á öllum Eurovision síðum í heiminum! Til að mynda voru margir sem töldu næsta víst að söngkonurnar Freya Ridings og Rina Sawayama væru allra líklegustu kandídatarnir en þær hins vegar frábáðu sér allar svoleiðis pælingar þegar leitað var eftir svörum. Sérstaklega var Rina sterklega orðuð við keppnina þar sem hún gaf út klúbbslagarann „Frankenstein“ innan júrótímamarkanna og var með dularfulla eyðu í annars þéttskipaðri dagskrá sinni akkúrat í kringum keppnina í Liverpool. En ó nei, ó nei. Ekki voru spekúlantarnir sannspáir í þessum efnum og þann 9. mars síðastliðinn var Mae Muller tilkynnt með pompi og prakt sem fulltrúi Breta í Eurovision 2023. Amen og takk fyrir.
Mae Muller er kannski ekki stærsta nafnið í bransanum en hún hefur þó verið glettilega lengi að dútla við tónlist og hefur m.a. hitað upp fyrir ekki ómerkari sveitir en Little Mix. Þeir allra glöggustu þekkja hana kannski úr myndbandinu við hið geysivinsæla lag Mika, „Grace Kelly“, sem litlu stelpuna í bláa kjólnum sem „talar“‘ við Mika í byrjun lagsins og endar svo lagið á áhrínisorðunum „Humphrey! We´re leaving!“
Það var hinsvegar ekki fyrr en í kringum tvítugt, þegar hún var að vinna í fataverslun og á pöbb í London, sem hún fór fyrir alvöru að fikta við að semja og syngja. Reyndar segist hún hafa mútað góðum vini með vínflösku til að taka upp og pródúsera nokkur af lögunum hennar. Viðkomandi kunni að nota forritið Logic, sem er nokkurskonar tónlistarstúdíó á netinu, og henda þeim inn á SoundCloud. Því næst fór hún að flytja lögin sín inni á Instagram og var í kjölfarið uppgötvuð af umboðsmanni og landaði í framhaldinu samningi við Capitol Records UK árið 2019.
Mae segir Florence and the Machine, Gwen Stefani og Lily Allen vera sína helstu áhrifavalda í tónlist. Hún nefnir sérstaklega þá síðastnefndu í því samhengi og að það hafi markað þáttaskil hjá sér þegar hún heyrði plötuna Alright Still sem Lily Allen gaf út fyrir nokkrum árum. Ekki slæmir áhrifavaldar þar á ferð, enda má klárlega merkja sterk áhrif frá þeim öllum í tónlist hennar og ekki síst í laginu „I wrote a song“ sem samið er af henni sjálfri ásamt Karen Poole og Lewis Thompson. Lagið er, svo við slettum nú, algjört disstrack en þar óskar Mae einhverjum vesalings lúða norður og niður með því að semja bara lag um aumingjaskapinn í honum í stað þess að velta sér upp úr volæði og vesaldómi þegar hann fer frá henni. Þetta er bara algjörlega í takt við þema ársins, sem er kvenlegur kraftur og að standa keik hvað sem á dynur.
Hún Mae verður sjálfsagt engin eftirbátur Sam Ryder í maí og má reyndar sannarlega vel við una því hún situr í 7. sæti hjá veðbönkum sem stendur yfir líklega sigurvegara og það verður þvottekta breskt glamúrpartý á sviðinu þann 13. maí næstkomandi.