Djúpar pælingar í Austurríki – Hver í andskotanum er eiginlega Edgar?!


Liebe Österreich. Sem finnur stundum rétta tóninn en spilar þó oftar fyrir daufum eyrum kjósenda í Eurovision og hefur (oft óverðskuldað) hangið hægra megin á stigatöflunni eða bara setið eftir í undanúrslitum. En aldrei gefast þeir upp þótt móti blási, þessar elskur og eru sjaldan óhræddir við að prófa einhverja nýja nálgun í hvert skipti. Í fyrra var það harðspjalda EDM, sem ekki hlaut náð fyrir augum Evrópubúa og Ástrala og nú á sko aldeilis að krefja fólk svara, því vinkonurnar Teya og Salena eru mættar á svæðið og þær hafa bara eina spurningu. „Who the hell is Edgar?“

Þær Teya og Salena eru ekki allsendis ókunnugar júróbúbblunni, en þær hafa hvor um sig áður reynt að fara fyrir hönd Austurríkis og Serbíu í keppnina. Teya, sem heitir réttu nafni Teodora Spiric keppti bæði í heimalandinu Serbíu árið 2020 með lagið „Sudnjin Dan“ en lenti í 10. sæti því Hurricane átti sviðið þá, og reyndi svo að koma sama lagi að í Austurríki undir enska heitinu „Judgement Day“, en hafði ekki erindi sem erfiði. Salena aftur á móti (rétt nafn hennar er Selina-Maria Edbauer) reyndi fyrir sér 2019 með lagið „Behind the Waterfall“ en laut í lægra haldi fyrir Pændu. En nú hafa þær stöllur sameinað krafta sína og ORF var bara alveg að kaupa það sem þær höfðu fram að færa, því þann 31. janúar sl. var tilkynnt að þær myndu freista þess að koma Austurríkismönnum aftur í aðalkeppnina með glettnisslagaranum „Who the hell is Edgar“, sem verður eflaust fluttur með brosi út í annað en þó má greina ádeilu undir niðri.

Að vera tónlistarkona og kvenkyns lagahöfundur er ekki auðvelt. Ef þið trúið því ekki, þá getið þið bara spurt, ó, ég veit ekki, kvenkyns lagahöfunda og tónlistarkonur! Og Teya og Salena hafa svo sannarlega oft þurft að ströggla því það hefur ekki alltaf verið tekið mark á þeim sem alvöru listamönnum, einfaldlega af því að þeim varð það á að vera fæddar með leg. En þær leggja svo sannarlega ekki árar í bát og hafa sem betur fer ekki tapað kímnigáfunni heldur, því „Who the hell is Edgar“ er stútfullt af húmor og skemmtilegheitum en bendir í leiðinni á ákveðna vankanta í tónlistarbransanum í dag.

„Þetta lag sýnir fyrst og fremst hversu ofboðslega gaman var daginn sem við sömdum það. Og til að byrja með vildum við bara tjá hvernig tilfinningin er þegar gott lag er samið. Stundum heltekur sköpunargáfan þig alveg. Hreinlega eins og þú sért andsetin. En við vildum líka svo líka gefa innsýn í reynslu okkar sem lagahöfundar. Oft er það nefnilega eins og þú þurfir endalaust að vera að sanna þig. Aftur og aftur. Bara til að vera tekin alvarlega. Með því að segja Edgar Allan Poe vera aðalhöfund lagsins, vildum við vekja athygli á þessum ótrúlega pirrandi hluta tónlistarbransans. Þetta er í raun satíra“ segja þær Teya og Salena um tilurð lagsins.

Lagið sömdu þær sjálfar ásamt lagahöfundunum Ronald Janecec og Pele Loriano í höfundabúðum í Tékklandi og ef marka má myndbandið og hvernig þetta bráðskemmtilega tvíeyki kemur fyrir í viðtölum og öðru, er óhætt að lofa geysilegu stuði og stemmningu þann 11. maí, en Teya og Salena munu stíga á svið í seinni undanúrslitunum, líkt og Diljá okkar. Við skulum vona að Edgar blessaður hringsnúist ekki í gröfinni eins og stakur sokkur í þurrkara, heldur spotti bara grínið og haldi verndarhendi yfir stelpunum.