Nútímaleg tilvistarkreppa í boði Hollendinga


Þegar sólin er lágt á lofti hér á Íslandi fær maður oft skerandi dagsbirtuna í augun og getur þá verið erfitt að aka bíl. Það er aftur ekki það sem hollenska framlagið í ár, Burning Daylight, er um heldur miklu fremur um að átta sig á að þegar dagarnir líða hjá á hamstrahjólinu er oft gott að segja skilið við gamla lífð, stíga út úr þægindarammanum, velja eitthvað betra og halda áfram.

Eins og svo oft áður valdi hollenska ríkissjónvarpið AVROTROS að halda ekki undankeppni heldur valdi innbyrðis Eurovision framlag þeirra í ár. Urðu Mia Nicolai og Dion Cooper fyrir valinu en þau eru svo til óþekkt í heimalandinu. Reyndar hefur Dion þessi keppt í The Voice of Holland þar sem hann vingaðist við engann annan Duncan Lawrence, Eurovision sigurvegara Hollands 2019. Dion var meira að segja upphitunaratriði Duncans á tónleikum á síðasta ári. Mia Nicolai er hollensk söngkona og lagahöfundur sem er búsett í Bandaríkjunum. Hún kynntist unnusta Duncan, Jordan Garfield, í gegnum lagasmíðarnar. Eftir að Duncan heyrði raddir Mio og Dion saman stakk hann upp á þau myndu hljóðrita Burning Daylight sem dúett. Voilá nýjasta hollenska júródúóið varð til en við vitum að þau hafa verið lukkuleg í Eurovision í gegnum tíðina, sbr. Common Linnets í Kaupmannahöfn 2014.

Lagið Burning Daylight er eftir þau Miu og Dion og Duncan Lawrence, Jordan Garfield og Loek van der Grinten. Lagið fjallar um hæðir og lægðir hversdagslífsins þar sem við mistígum okkur annað slagið en stöndum aftur upp og sigrum lífið þess á milli. Mia og Dion lýsa laginu á eftirfarandi hátt: „Við erum öll manneskjur með okkar einstöku vandamál og áskoranir, mörg þeirra eigum við sameiginleg; samband sem endar, ástvinamissir, erum föst í röngu starfi, stress eða einfaldlega líður okkur eins og við séu pínulítið í ruglinu. Stundum líður okkur eins og við séum komin á endastöð og dagarnir líða hjá í algjöru tilgangsleysi. En það er akkúrat þegar gömlu dagarnir eru ekki að virka og þú ert með bakið upp við vegg að þú hefur tækifæri fyrir þroska, fyrir eitthvað nýtt. Segja skilið við gamla lífið sem þér líður ekki vel með – bless, gamla líf.“

Mia og Dion keppa í fyrri undankeppninni þann 9. maí nk. sem er farin að líta út fyrir að vera æsilegasta undankeppni síðari ára. Við verðum að bíða og sjá til hvernig Miu og Dion gengur í því blóðbaði.