Pasha Parfeny snýr aftur fyrir Moldóvu með ástaróð


Úrslit Etapa națională 2023, söngvakeppni Moldóvu fyrir Eurovision, fór fram laugardagskvöldið 4. mars síðastliðinn í Chișinău. Áður hafði farið fram forval, en það var laugardagskvöldið 28. janúar. Þrjátíu lög tóku þátt í forvalinu en það voru svo tíu lög sem tóku þátt í lokakeppninni. Úrslit réðust til helminga með netkosningu almennings og fimm manna fagdómnefnd.

Kynnar voru Doina Stimpovschi, Ion Jalbă og Daniela Crudu. Á lokakvöldinu komu fram lettneska hljómsveitin Sudden Lights sem keppir í Liverpool í maí, Theodor Andrei sem keppir fyrir Rúmeníu og að sjálfsögðu Zdob și Zdub sem slógu í gegn í Tórínó í fyrra og enduðu þar í sjöunda sæti.

Meðal keppanda í ár voru Aliona Moon sem keppti fyrir tíu árum með lagið O mie og SunStroke Project sem kepptu bæði 2010 og 2017 þegar þeir náðu besta árangri Moldóvu í keppninni, 3ja sæti. En sigurvegarinn er líka gömul júrókempa, Pasha Parfeny sem keppti áður árið 2012 með lagið Lăutar og varð þá í ellefta sæti.  Pasha tengist einnig áðurnefndu tveimur keppendum. Hann var einn af söngvurum Sunstroke Project árin 2008 og 2009. Árið 2009 söng hann og samdi lagið No Crime sem keppti í undankeppni Eurovision undir merkjum Sunstroke Project. Ári síðar keppti hann svo aftur í undankeppninni, þá ásamt Oliu Tiru sem einmitt gekk svo til liðs við Sunstroke Project fyrir Eurovision. Hann er svo einn af höfundum O Mie, framlagsins 2013. Hér er því ansi vanur maður á ferð!

Lagið sem hann flytur í ár heitir Soarele și luna eða Sólin og tunglið.  Lagið er eftir Pavel Parfeni, Andrei VulpeIu og liana Parfeni. Lagið vann öruggan sigur í netkosningu og vann líka dómnefndaratkvæðin, þótt það væri ekki eins afgerandi. Lagið er ástarlag og syngur Pasha um brúði sína í laginu. Lagið er ansi frumlegt og þjóðlegt. Hér að ofan er samsett mynd, frá vinstri talið; Pasha Parfeny, þeir nafnar Sergey og Sergei úr Sunstroke Project og Aliona Moon.

Lagið um sólina og tunglið er átjánda framlag Moldóvu í Eurovisionkeppninni en þeir tóku fyrst þátt árið 2005. Eins og áður sagði er besti árangurinn lagið Hey Mamma frá 2017, en fjórum sinnum hefur Moldavía endað á topp tíu. Og eins og áður segir, það gekk vel í fyrra og nú er að sjá hvernig gengur í ár.