Achtung! Lord of the Lost trylla lýðinn fyrir hönd Þýskalands


Ritstjórn FÁSES er búin að þurrka stírurnar úr augunum og skola seinastu svitadropana af sér eftir epíska Söngvakeppnishelgi og nú höldum við áfram að fjalla um keppinauta Diljár í Liverpool . Að þessu sinni kíkjum við í heimsókn til hins ægifagra Deutchland en þar skildi goth metal sveitin Lord of the Lost eftir sig glitrandi blóðslóð og mun rokka þakið af Liverpool Arena með laginu “Blood and Glitter”. Sehr gut segjum við nú bara.

Átta lög hófu leik í janúar eftir heillangt ferli sem hófst strax í nóvember þegar farið var að vinsa úr þeim 548 lögum sem bárust. Það var gert í gegnum þrjú forvöl sem fóru fram bak við luktar dyr þar sem alþjóðleg dómnefnd og innanbúðarfólk innan þýsku ríkisstöðvarinnar ARD, meðlimir síðunnar eurovision.de og Bildegarten sem framleiðir allt heila klabbið höfðu hönd í bagga með valið. Í ofan á lag var haldin var sérstök TikTok kosning þar sem Eitt Lag Enn var valið áfram.

Unser Lied für Liverpool fór loksins fram á föstudagskvöldið síðasta í Köln og kepptu þar níu lög um athygli þýsks almennings, sem og alþjóðlegrar dómnefndar, en það voru hin alkunna 50/50 kosning sem réði úrslitum. Fyrir þá sem náðu að horfa á keppnina, var sannkölluð júróveisla þegar stigakynnar landanna kynntu dómnefndarniðurstöður en þar voru á ferð Gjon´s Tears, SuRie, Vaidotas úr ROOP, Jamala, Cesár Sampson, Joel Hokka úr Blind Channel og Barei. Heldur betur stjörnufans þar!

Lord of the Lost hafði verið spáð sigri nánast allt frá því að þeir tilkynntu um þátttöku sína, en fast á hæla þeirra fylgdu hljómsveitirnar Frida Gold og svo sigurvegarar TikTok kosningarinnar, Ikke Hüftgold. En því miður neyddust Frida Gold að draga sig úr keppni daginn fyrir stóra daginn vegna veikinda aðalsöngkonunnar Alinu Süggeler og höfðu þá þegar misst úr nokkrar mikilvægar æfingar vegna þess. Súrt að þurfa að hætta við á seinustu metrunum.

Kosning almennings hófst á netinu þann 24. febrúar en keppendur héldu að sjálfsögðu þeim atkvæðum auk þeirra atkvæða sem bárust í gegnum síma og SMS á keppniskvöldinu sjálfu. Það var strax morgunljóst að þýskur almenningur var búinn að taka algjöru ástfóstri við Lord of the Lost og Ikke Hüftgold því þau komu sér þægilega fyrir í efstu tveim sætunum og hreyfðu sig varla allt kvöldið. Dómnefndin var hinsvegar ekki á sama vagni, en hún setti Lord of the Lost í 4. sætið og Ikke Hüftgold í allra allra seinasta sætið. Það var reyndar bara Joel Hokka (eðlilega!) sem setti Lord of the Lost í efsta sætið, en hann spanderaði 12 stigum. En allt kom fyrir ekki og í lok kvöldsins hafði “Blood and Glitter” gjörsamlega rústað keppinautum sínum með heil 189 stig á meðan Ikke Hüftgold lónaði í 2. sæti með 111 stig. Gotneskur iðnaðarmetall með dassi af meiköppi var það heillin.

Lord of the Lost var stofnuð í Hamborg árið 2007 og hefur starfað samfleytt síðan,með svolitlum mannabreytingum inn á milli. Forsöngvari og stofnandi sveitarinnar, Chris Harms, hefur þó alltaf verið við stýrið. Meðlimir LOTL eru greinilega alltaf til í smá stuð og skringilegheit, en þeir ganga nánast undantekningarlaust undir einhverskonar dulnefnum/gælunöfnum á sviðinu. T.a.m er Chris auðvitað The Lord. Hann stofnaði reyndar LOTL upphaflega sem sóló verkefni en eftir fáránlega góðar viðtökur á samfélagsmiðlinum sáluga, Myspace, sá hann fram á að það væri nauðsynlegt að vera með gott band til að spila tónlistina og smalaði því saman góðu fólki til að spila með sér.

Sveitin hefur alltaf haldið sig við goth metal senuna en eru kannski aðeins léttari en margar aðrar sveitir í þeirri kreðsu. Þeir eru mikið í glamúr, glimmer, búningum og allskyns skemmtilegheitum og það er óhætt að lofa svaka sýningu í Liverpool þann 13.maí, en vonandi afla þeir Þýskalandi aðeins fleiri stiga en elskan hann Malik Harris gerði í fyrra. Blóð og glimmer með engu súrkáli, danke schön.