Mölbrotið hjarta týnda sonar Kýpur


Í viðleitni sinni til að lækka kyndingarkostnað í Liverpool Arena hafa Kýpverjar kallað til týnda soninn Andrew Lambrou, alla leið frá Ástralíu. Mun hann syngja lagið Break a Broken Heart.

Sem aðfluttur Kýpverji í Ástralíu er hinn 24 ára Lambrou alinn upp við Eurovision-áhorf með fjölskyldunni og segist hann hafa dreymt um að fá að taka þátt sjálfur. Hæfileikar hans uppgötvuðust þegar hann hóf að deila myndböndum af söng sínum á Youtube aðeins 15 ára gamall en skömmu síðar lá leiðin í X-Factor Australia. Árið 2022 gerði hann svo tilraun til þess að verða fulltrúi Ástralíu í Eurovision með laginu Electrify. Hann hafði ekki árangur sem erfiði í það skipti, en tilraunin setti þó í gang atburðarrás sem leiddi til þátttöku hans nú.

Lagið Break a Broken Heart er þó hvorki ástralskt né kýpverskt heldur sænskt og danskt en höfundarnir eru á meðal stórvirkustu höfunda í Melodifestivalen í Svíþjóð. Samanlagt eiga þeir aðild að alls 11 lögum í Melodifestivalen í ár og tveir þeirra, Jimmy Jansson og Jimmy „Joker“ Thörnfeldt, eru á meðal höfunda lagsins Tattoo sem Loreen flytur. Þeir nafnarnir áttu einnig heiður að laginu El Diablo sem Kýpverjar sendu árið 2021. Sem oft áður var framlag Kýpur valið innanbúðar af kýpverska ríkissjónvarpinu.

Andrew Lambrou þekkir styrkleika sína vel og brestur því ósjaldan í falsettu og er iðulega í hlýrabol. Lagið er dramatískt popplag í meðalhröðum takti sem byrjar lágstemmt og safnar í sig krafti sem springur út í viðlögunum.

Fyrstu viðbrögð veðbanka benda þó til þess að meira þurfi til ef hann ætlar að færa fórsturlandinu fyrsta sigurinn í Eurovision í 39. tilraun. Besti árangur Kýpverja var árið 2018 þegar Elena Foureira lenti í öðru sæti með lagið Fuego.