“Mamma keypti traktor” – króatísk stríðsádeila á sviðið í Liverpool


Króatar tóku fyrst þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1993 og gekk ansi vel fyrstu árin, lentu í 4. sæti árið 1996 og 1999 þá með hið stórkostlega lag Marija Magdalena og voru yfirleitt meðal efstu 10 þjóða þennan fyrsta áratug. Þau gullaldarár eru þó að baki og hefur Króatía ekki komist í úrslit síðan 2017, hafa reyndar aðeins komist í úrslit fjórum sinnum síðan 2007. Það má því segja að króatíska þjóðin sé orðin ansi langeyg eftir góðum árangri í Eurovision. 

Keppandinn í ár var sem fyrr valinn í söngvakeppninni Dora sem nú var haldin í 24. skiptið. Níu manna dómnefnd valdi 18 lög og flytjendur úr tæplega 200 laga potti og meðal þeirra var Damir Kedžo sem árið 2020 átti að keppa fyrir hönd Króatíu í Rotterdam en eins og við Íslendingar vitum alltof vel var þeirri keppni slaufað. 

Um leið og keppendur í Dora 2023 voru tilkynntir snerist öll umræða um eina hljómsveit, tónlistargjörningahópinn Let 3. Hljómsveitin Let 3 var formlega stofnuð í Rijeka árið 1987 þó svo að fram að því hefðu stofnendur hennar spilað saman í ýmsum hljómsveitum þ.á m. Let 2. Frá upphafi hafa meðlimir Let 3 notað tónlistina til að ráðast að afturhaldssömum öflum í þjóðfélaginu og stutt meðal annars við réttindi kvenna og hinsegin fólks. Textar hljómsveitarinnar snúast yfirleitt um þjóðfélagslegar og pólitískar ádeilur og tónleikar eru ögrandi og til þess gerðir að hneyksla áhorfendur og fá þá til að hugsa. Hljómsveitarmeðlimir eru miklir sviðslistamenn og þekktir fyrir að nota búninga til að koma áherslum sínum á framfæri jafnvel þó það þýði eingöngu mjóan leðurþveng eða rós í afturendann. 

Það kom því fáum á óvart þegar Let 3 vann Dora 2023 með laginu Mama ŠČ! með miklum yfirburðum. Sveitin fékk 105 stig frá 10 svæðisbundnum dómnefndum og 174 stig í símakosningu, samtals 279 eða nær tvöfalt fleiri atkvæði en þjóðlagapoppsveitin Harmonija Disonance sem lenti í 2. sæti með 155 stig. Let 3 er þó alls ekki ókunnug Eurovision, meðal annars voru þeir með Severinu í myndbandinu við Moja štikla, framlagi Króata til Eurovision 2006.

Lagið Mama ŠČ! er hápólitísk ádeila á stríðsrekstur brjálaðra síkópata án þess að nefna nein nöfn þó það fari vart framhjá neinum þegar textinn fjallar um dráttarvélagjöf, litla síkópata og stríð. Síðastliðinn október gaf Alexander Lúkasjenkó, forseti Belarús, Vladimir Pútin, forseta Rússlands, dráttarvél í tilefni af sjötugsafmæli þess síðarnefnda. Á samfélagsmiðlum var þó bent á þá kaldhæðni að það voru einmitt dráttarvélar sem urðu tákn um mótspyrnu Úkraínumanna þegar bændur notuðu dráttarvélar til að draga burt yfigefna skriðdreka og önnur hernaðarfarartæki sem rússneskir hermenn höfðu yfirgefið. 

Það er ekki laust við að íslenskir Eurovision aðdáendur fái örlítinn Hatara fíling við lýsingar á þessum króatíska gjörningahópi og víst að forsvarsmenn Eurovision munu þurfa að hafa sig alla við enda Let 3 líkt og Hatari þekktir fyrir að vera gjörsamlega ófyrirsjáanlegir og tilbúnir til að leggja ýmislegt á sig til að koma boðskap sínum á framfæri.