The Busker fara dansandi frá Möltu til Liverpool


Maltverjar voru ein af þeim þjóðum sem völdu lagið sitt fyrir Eurovisionkeppnina 2023 ofur-laugardagskvöldið 11. febrúar síðastliðinn. Meðal FÁSES-Jóninn verður trúlega alla vikuna að jafna sig eftir þennan fjölda úrslitakeppna sama kvöldið. Fjórðungsúrslit Malta Eurovision Song Contest 2023 eða MESC23 höfðu farið fram þrjá föstudaga í janúar þar sem alls 40 lög kepptu. Tuttugu og fjögur efstu lögin kepptu svo í forkeppni fimmtudaginn 9. febrúar síðastliðinn og þaðan fóru 16 í úrslitaþáttinn. Í þessum stóra hópi voru gamlir Eurovision þátttakendur. Má þar nefna Jessiku sem keppti fyrir San Marínó 2018 og hinn eina sanna Fabrizio Faniello sem keppti 2001 og 2006. Annars gekk þetta nokkuð snuðrulaust fyrir sig. Einum keppanda var þú vísað á dyr í miðri keppni fyrir að hafa ekki farið eftir reglunum. En hvað er Euro án smá drama!

Úrslitin fóru fram eins og áður segir 11. febrúar og voru kynnar kvöldsins gamlar Eurokempur, Glen Vella sem keppti 2011 og Amber sem keppti 2015. Fyrirkomulagið var nokkuð dæmigert. Fimm manna dómnefnd hafði helmings vægi á móti símakosningu. Í þriðja sæti endaði Matt Blxck með lagið Up. Í öðru sæti varð Ryan Hili með lagið In the Silence. En nokkuð öruggir sigurvegarar var bandið The Busker með lagið Dance (Our Own Party). Up vann dómnefndaratkvæðin naumlega en Dance (Our Own Party) rústaði símakosningunni og fékk nærri helmingi fleiri atkvæði en næsta lag.

Indípopp bandið The Busker var stofnað árið 2012. Meðlimir eru David Grech sem syngur, spilar á bassa og hljómborð, trommuleikarinn Jean Paul Borg og saxafónleikarinn Sean Meachen. Lagið sömdu þeir félagar ásamt Matthew James Borg og Michael Joe Cini. Saxafónninn er einmitt áberandi í þessu fjöruga og skemmtilega dansnúmeri þar sem mönnum líður betur peysuklæddum, en geta þó líka verið glimmerklæddir ef sá dællinn er á þeim. Pappamyndirnar af gömlum Eurostjörnum sem voru á sviðinu fá tólf stig frá pistlahöfundi! The Busker er undir áhrifum banda frá sjöunda áratug síðustu aldar, eins og Bítlunum og the Beach Boys. Fyrir áhugasama er hér líka annað lag með þeim sem heitir Miracle.

Malta tók fyrst þátt í Eurovision árið 1971, en tók gott hlé milli 1975 og 1991. Lagið í ár er framlag númer 35. Þeir hafa tvisvar endað í öðru sæti og einu sinni unnið forkeppni. Hljómar kannski kunnuglega, en það er einmitt eins fyrir komið hjá annarri fámennri eyþjóð örlítið norðar á jarðkringlunni. Þeir hafa hins vegar þrisvar endað í þriðja sæti. Maltverjar náðu ekkí í úrslitin í fyrra þrátt fyrir að hafa skipt um lag rétt fyrir skilafrest. Það er kannski ekki útilokað að það sama gerist í ár og því verður fréttin mögulega uppfærð.