Færeyingurinn Reiley sigraði hjörtu Dana


Síðastliðið laugardagskvöld, þann 11. febrúar, var Melodi Grand Prix haldin í Danmörku, þar sem Danir völdu sinn fulltrúa fyrir Eurovision í ár. Keppnin var haldin í Arena Næstved og voru kynnar kvöldsins þau Tina Muller og Heino Hansen.

Það var svo enginn annar en Færeyingurinn og Tiktok stjarnan Reiley sem krýndur var sigurvegari með lagið sitt “Breaking My Heart”. Það er gaman að segja frá því að þetta er í fyrsta skipti frá upphafi sem Færeyingur fer í Eurovision fyrir hönd Danmerkur. 

Átta lög voru gefin út þann 19. janúar og þrjú þeirra voru fyrst valin í svokallað Superfinal með kosningu landsmanna. Kosningin stóð yfir á úrslitakvöldinu sjálfu og einnig í vikunni fyrir keppnina í gegnum Melodi Grand Prix appið. Hinir tveir flytjendurnir sem komust áfram í superfinal voru Micky Skeel með lagið Glansbillede og Nicklas Sonne með lagið Freedom. Flytjendurnir þrír fluttu svo atriðin sín aftur og að lokum voru það bæði dómnefnd og almenningur sem höfðu úrslitavaldið, þar sem atkvæðin gildu 50/50. 

Um tíma var tvísýnt hvort Reiley fengi yfir höfuð að taka þátt í Melodi Grand Prix þar sem í ljós kom að hann hafði nú þegar flutt lagið á “Slow Life Festival” í október 2022. Þá hafði lagið að vísu annan texta og annan titil. Reglurnar í Eurovision kveða á um að lögin megi ekki hafa verið flutt fyrir 1. september ár hvert, svo það var augljóst að hann myndi sleppa þar í gegn. En reglurnar í Melodi Grand Prix eru aðeins strangari. DR komst að þeirri niðurstöðu að þessi flutningur á laginu á hátíðinni í október hefði engin áhrif á árangur hans í keppninni og Reiley fékk að vera með og gerði sér lítið fyrir og vann! 

Reiley, sem heitir fullu nafni Rani Petersen, er tvítugur að aldri, fæddur og uppalin í Færeyjum. Upp á síðkastið hefur hann haldið til í Suður Kóreu þar sem hann hefur verið að gera það gott í hinum sívinsæla K-popp heim. Þar hefur hann bæði flutt og tekið upp tónlist með stærstu K-popp hljómsveitunum þar í landi. Reiley er líka frægur TikTok-ari þar sem hann er með um 10 milljón fylgjendur. Lagið “Breaking My Heart” fjallar um eitrað ástarsamband, þar sem þú elskar einhvern þrátt fyrir að vita að sambandið sé ekki gott fyrir þig. Texti sem langflestir geta tengt við að einhverju leyti. 

Við óskum Reiley innilega til hamingju með sigurinn og hlökkum til að sjá hann á Eurovision sviðinu í maí!