Lettar hafa valið rokk vögguvísu


Lettneska úrslitakeppnin Supernova var haldin um helgina í Riga. Lettar hafa þann heiður að eiga besta árangur í Eurovision þeirra landa sem taka þátt í fyrsta sinn en Lettland endaði í fjórða sæti árið 2000 með hljómsveitinni Brainstorm sem söng My star. Síðan þá hefur gengið misvel og ríkti þurrkatíð hjá þeim 2009-2014 þegar þeir komust ekki í úrslit Eurovision. Betur hefur gengið eftir að Lettar hresstu upp á forkeppni sína sem hefur haldist með svipuðu sniði síðan sem Supernova.

Lettar hafa löngum verið óhræddir að velja óvenjuleg atriði í Eurovision. Við höfum fengið framlög um að baka gleðikökur og að borða meira salat sem þeir gerðu í fyrra. Það hefur oftar en ekki fallið misvel í Evrópubúa og Ástrali og mistókst þeim að komast upp úr undanriðlinum í fyrra. Það vantaði ekki fjölbreytnina í Supernova í ár og ljóst að erfitt val var fyrir höndum.

Duncan Laurence opnaði kvöldið með sigurlagi sínu Arcade fyrir Holland 2019. Einnig var lettneska söngkonan Elīza Legzdiņa með atriði með trommaranum úr hljómsveitinni Rudimental. Duncan frumflutti síðan nýtt lag í hléi sem heitir Electric nights sem þið sjáið hér að neðan.

Á meðal keppanda var Sanna Nielsen þeirra Letta, Markus Riva, en hann hefur hvorki meira né minna en keppt átta sinnum í forkeppni Letta. Hann komst næst því að vinna þegar hann lenti í öðru sæti 2015. Þá vann einmitt Amininata með lagið Love Injection sem lenti í 6. sæti í Eurovision. Þrátt fyrir silfur buxur, glimmer bol og dansara, varð hann að láta fjórða sætið duga. Kannski er titill lagsins í ár, “Forever”, að segja honum að hann gæti verið heila eilífð að vinna í því að vinna en við vonum að hann gefist ekki upp og nái einhvern tímann farseðlinum á Eurovision.

Samkvæmt veðbönkum (tekið af eurovisionworld.com) nokkrum tímum fyrir úrslit Supernoa átti baráttan að standa á milli þeirra Patrisha með laginu Hush og Sudden light með vögguvísuna Aijā.

Eins og sjá má af flutningi Patrisha var hún sterk sönglega og atriðið flott sett upp með einföldum dönsum. Margir aðdáendur spáðu henni sigri. 

Það dugði hinsvegar ekki til því Sudden Lights sigraði og verður fulltrúi Letta í ár. Þetta verður í fyrst sinn síðan 2014 sem við heyrum lettnesku í Eurovision. Sudden Lights tóku þátt 2018 í Supernova og lentu þá í öðru sæti. Hljómsveitarmeðlimir eru þeir Andrejs Reinis Zitmanis (söngvari), Kārlis Matīss Zitmanis (gítarleikari og í bakröddum), Kārlis Vārtiņš (bassaleikari og í bakröddum), og síðan en ekki síst trommuleikarinn í bandinu. Mārtiņš Matīss Zemītis. Hljómsveitin lýsir laginu sem vögguvísu fyrir hinn yfirþyrmandi heim. Lagið sameinar bæði kvíða, læti og harmóníska vögguvísu sem þarf til að takast á við streituna sem við göngum í gegnum. “Aijā” þýðir á lettnesku “vagga,”. Við óskum Lettum til hamingju með framlag sitt og það verður forvitnilegt að sjá hvort Sudden Lights takist að svæfa okkur í anda Óla lokbrá.