Villt æska og sameiningaróður frá Írlandi til Liverpool


Obbosí. Nú þarf ritstjórn FÁSES að girða sig í brók, því hér kemur loksins pistillinn um framlag írskra frænda okkar … nokkuð á eftir áætlun. Við biðjumst velvirðingar á töfunum og vindum okkur að efninu. Forval Íra, Eurosong 2023, var að vanda smellt inn í þáttinn The Late Late Show þann 3. febrúar síðastliðinn og kepptu sex lög um farmiðann yfir til Liverpool. Það var hljómsveitin Wild Youth sem stóð uppi sem sigurvegari í lok kvöldsins og munu flytja lagið “We Are One” í maí.

Hinir happasælu Írar hafa nú ekki verið mjög happasælir undanfarin ár en þeir hafa ekki daðrað við topp tíu í stóru keppninni síðan 2011, ef þeir hafa komist áfram á annað borð. Írskir aðdáendur eru orðnir langþreyttir á ömurlegu gengi og eru sérstaklega óánægðir með lufsugang RTÉ, írsku sjónvarpsstöðvarinnar, í þessum efnum, en annaðhvort hafa flytjendur verið valdir innbyrðis eða eitthvað smá forval verið haldið í The Late Late Show sem einhver neðanmálsgrein. Sú var auðvitað raunin í ár og að vanda eru írskir aðdáendur fussandi og sveiandi, hver út í sínu horni. En nóg um það.

Eins og áður sagði kepptu sex lög á þetta ágæta föstudagskvöld. Það vakti mikla athygli í aðdraganda keppninnar að gamli pönkmelurinn Johnny Rotten úr Sex Pistols var á meðal keppenda. Hann kom fram ásamt hljómsveit sinni Public Image Ltd. sem hann stofnaði eftir að hann hætti í Sex Pistols og auðvitað ráku margir upp stór augu þegar gæinn sem kyrjaði “Anarchy in the UK” og “God Save the Queen” forðum daga og var meira að segja bannaður á BBC, var allt í einu orðinn svona ægilega mjúkur að reyna að komast í Eurovision. En Johnny hefur greinilega linast allsvakalega með árunum og sagði lagið vera tileinkað heittelskaðri eiginkonu sinni Noru, sem þjáist af Alzheimer-sjúkdómnum og það fjalli um eftirminnilegt frí sem hjónin fóru til Hawaii. Æi, nú falla nokkur tár.

Áfram með smjörið. Við erum ekkert að fara djúpt í stigakerfið en Írar höfðu sama háttinn á og flestar aðrar þjóðir, þ.e. helmingsvægi dómnefndar á móti almenningi og fyrir keppni var það söngkonan CONNOLLY sem þótti hvað líklegust til að snapa miðann yfir pollinn. Sú er fædd og uppalin í Galway sýslu og því sannarlega írskari en allt sem írskt er, enda er hreimurinn svo þykkur að undirrituð átti fullt í fangi með að skilja það sem CONNOLLY var að segja í kynningarstiklunni á undan laginu. Ég er handviss um að hún var bara peppuð fyrir verkefninu framundan.

En þetta er oft svo óútreiknanlegt og svo bregðast krosstré sem önnur tré, því þegar uppi var staðið voru það strákarnir í Wild Youth sem stóðu eftir með pálmann í höndunum og munu því fljúga írska fánanum með stolti í Liverpool. Þessi indírokksveit er skipuð fimm ofurhressum drengjum frá Dublin sem segjast vera að upplifa drauminn. “Að vera bestu vinir og fá að upplifa svona risastórt dæmi eins og Eurovision saman er það besta sem til er” sagði Conor O´Donohoe sem er hljómborðsleikarinn og einn af höfundum “We are One”. Lagið semur hann ásamt Ed Porter og Jörgen Elofson og segir lagið innblásið af upprunalegu hugmyndinni á bakvið Eurovision. Að sameina fólk í friði og vináttu. Vonandi verður það raunin fyrir þessa vinalegu Íra, sem munu keppa á fyrra undanúrslitakvöldinu þann 9.maí. Við í FÁSES segjum bara: Go n-éirí leat, Eiréann!