Daði Freyr þrítugur


Daði Freyr Pétursson fæddist í Reykjavík fyrir nákvæmlega 30 árum eða þann 30. júní 1992. Sem barn bjó hann lengi í Danmörku en svo flutti fjölskyldan til Íslands og settist að á Suðurlandi. Daði lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 2012 og BA-námi í tónlistarstjórnun og hljóðvinnslu við dBs Music Berlin árið 2017. Daði er í dag búsettur í Berlín ásamt eiginkonu sinni, Árnýju Fjólu Ásmundsdóttur og dætrum þeirra tveimur.

Árið 2017 setti Daði saman syntapopphljómsveitina Gagnamagið og sendu þau lag inn í Söngvakeppni Sjónvarpsins það árið sem heitir Hvað með það eða Is This Love upp á enskuna. Lagið sló í gegn og endaði á að fara í einvígi um sigurinn. Þar töpuðu þau fyrir laginu Paper sem Svala Björgvinsdóttir söng. Daði hafði ekki verið þekktur tónlistarmaður áður en hann tók þátt í Söngvakeppninni, en það breyttist heldur betur eftir þetta.

Daði og Gagnamagnið snéru svo aftur í Söngvakeppnina árið 2020. Þá með lagið Think About Things sem fékk nafnið Gagnamagnið á íslensku. Lagið sigraði Söngvakeppnina eftir einvígi við hljómsveitina Dimmu sem flutti lagið Almyrkvi. Allir vita svo hvað gerðist næst, Eurovision 2020 var aflýst. Think About Things sló samt rækilega í gegn og varð mjög vinsælt um allan heim. Áhorfið á myndbandið á Twitter var mjög mikið, sérstaklega eftir að bandaríski stórleikarinnar Russell Crowe deildi frétt um lagið á miðlinum. Daði skoraði á fólk að gera eigin dans við lagið og fjölmargir um allan heim urðu við því, meðal annars stórstjörnur eins og Jennifer Garner og San Antonio Spurs. Myndbandið við lagið hefur fengið meira en 40 milljón áhorf á YouTube og laginu hefur verið streymt meira en 115 milljón sinnum á Spotify. Margir telja – og er þá alls ekki bara átt við Íslendinga –  að lagið hefði sigrað Eurovisionkeppnina 2020.

Það varð samkomulag milli Daða og RÚV að Daði gerði annað lag sem færi í Eurovision 2021 fyrir Íslands hönd. Daði og Gagnamagnið fóru til Rotterdam í Hollandi með lagið 10 Years. Bæði lögin eru eftir Daða sjálfan. Veiran skæða setti enn og aftur strik í reikninginn og okkar fólk fékk ekki að flytja lagið í beinni útsendingu á sviðinu, heldur var sýnd upptaka meðan þau voru í sóttkví eða einangrun inni á hótelherbergi. Lagið endaði í fjórða sæti sem telst auðvitað mjög góður árangur miðað við að lagið var ekki flutt á sviðinu í beinni útsendingu. Lagið er eitt af tveimur í sögu keppninnar sem þannig er fyrir komið, það átti einnig við um ástralska lagið þetta árið, lagið Technicolour sem Montaigne söng. Það vill svo skemmtilega til að Daði og Montaigne, einu Eurovisonþátttakendurnir sem hafa ekki flutt lagið sitt í beinni útsendingu, voru að gefa út lag saman. Það heitir make me feel so…  og má hlusta á það hér. Skemmtilegt samstarf! 10 Years náði hlutfallslega fjórða besta árangri Íslands í Eurovision frá upphafi og er stigahæsta íslenska lagið í dag. Lagið varð einnig mjög vinsælt og hefur til dæmis verið streymt meira en 32 milljón sinnum á Spotify.

 

FÁSES.is óskar Daða Frey innilega til hamingju með daginn!