Sigga Beinteins 60 ára


Sigríður Beinteinsdóttir eða Sigga Beinteins eins og hún er yfirleitt kölluð, fæddist í Reykjavík 26. júlí 1962 og fagnar því sextugsafmæli sínu í dag. Sigga er ein af okkar skærustu Eurovisionstjörnum og hér verður farið yfir feril hennar í Söngvakeppninni og Eurovision í tilefni dagsins.

Sigga sást fyrst í Söngvakeppninni árið 1987 þegar hún söng bakraddir í laginu Norðurljós ásamt Berglindi Björk Jónasdóttur og Sverri Guðjónssyni. Eyjólfur Kristjánsson söng lagið, en það er eftir Gunnar Þórðarson og textinn eftir Ólaf Hauk Símonarson.

Þremur árum síðar eða árið 1990 tók Sigga aftur þátt í Söngvakeppninni. Þá ásamt hljómsveitinni Stjórninni þar sem hún og Grétar Örvarsson sáu um sönginn. Þar flutti hljómsveitin tvö lög, Ef ekki er til nein ást eftir Jóhann G. Jóhannsson og Eitt lag enn eftir Hörð G. Ólafsson með texta eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson. Það fór svo að Eitt lag enn sigraði keppnina og fór Sigga ásamt öðrum meðlimum Stjórnarinnar til Zagreb sem var í þá Júgósalvíu, nú Króatíu, til að keppa í stóru keppninni. Aðrir meðlimir Stjórnarinnar sem voru á sviðinu með henni voru Grétar Örvarsson, Jón Elvar Hafsteinsson, Þorsteinn Gunnarsson, Einar Bragi Bragason og Eiður Arnarsson. Flutningur þeirra á laginu var stórkostlegur og urðu þau í 4. sæti með 124 stig. Ísland var að keppa í Eurovision í fjórða sinn þarna og var þetta þá okkar lang lang besti árangur! Nú eru liðin 32 ár síðan þetta var og aðeins eitt lag, All Out of Luck með Selmu Björnsdóttur hefur náð hlutfallslega betri árangri (fengin stig/möguleg stig) fyrir Ísland. Rauði kjóllinn sem Sigga var í er líka eftirminnilegur. Hann fannst á síðustu stundu í Parísartískunni, en Sigga hafði hugsað sér að vera í buxum eins og í Söngvakeppninni. Kjóllinn er í dag til sýnis á Eurovisionsafninu á Húsavík.

Ári síðar sat Sigga í dómnefnd sem tók þátt í að velja framlag Íslands í Söngvakeppninni. Árið þar á eftir, 1992 eða fyrir 30 árum, var Sigga mætt aftur í Söngvakeppnina. Að þessu sinni ásamt hóp sem kallaði sig Heart 2 Heart, en aðrir meðlimir voru Sigrún Eva Ármannsdóttir sem sá um sönginn með Siggu, Grétar Örvarsson, Friðrik Karlsson, Halldór Gunnlaugur Hauksson og Jóhann Ásmundsson. Lagið sem þau fluttu heitir Nei eða Já og aftur var sigur í höfn. Nei eða Já er eftir Grétar og Friðrik og textann samdi annar Eurovisionfari, Stefán Hilmarsson. Að þessu sinni var stóra Eurovisionkeppnin haldin í Malmö í Svíþjóð og endaði okkar fólk í 7. sæti sem er í dag fimmti besti árangur Íslands í Eurovision.

Tveimur árum síðar, árið 1994 var Sigga beðin um að taka að sér flutning á laginu Nætur sem var þá búið að velja sem framlag okkar í Söngvakeppninni. Lagið er eftir Friðrik Karlsson og textinn eftir Stefán Hilmarsson. Lagið endaði í 12. sæti í stóru keppninni sem að þessu sinni var haldin í Dublin á Írlandi.

Árið 2006 var Sigga svo í bakröddum hjá Sylvíu Nótt þegar hún flutti lagið Congratulations sem er eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson. FÁSES.is færir Siggu innilegar afmælisóskir.