Euphoria 10 ára


Það má segja að Eurovisionkeppnin hafi farið á nýjar slóðir árið 2012, en þá var keppnin haldin í Baku í Azerbaijan, öðru nafni Langtíburtistan, 22., 24. og 26. maí. Þannig var lokakvöldið fyrir nákvæmlega 10 árum síðan. Keppnin var haldin í nýbyggðri Baku Crystal Hall og voru kynnar Leyla Aliyeva, Nargiz Birk-Petersen og Eldar Gasimov sem var hluti ástæðunnar fyrir því að keppnin var haldin í Azerbaijan. Hann var annar helmingur dúettsins Ell & Nikki sem vann keppnina ári áður með lagið Running Scared. Keppnin hófst einmitt á opnunaratriði og í lok þess tóku Ell og Nikki, eða Nigar Jamal, sigurlagið sitt.

Eitt af betri skemmtiatriðum sem hafa verið í Eurovision var á seinni forkeppninni þetta árið þegar sigurvergarar síðustu fimm ára tróðu upp. Það voru Maria Serifovic, Dima Bilan, Alexander Rybak, Lena, Ell og Nikki. Þau tóku lögin sín og Ell og Nikki tóku Waterloo. Mörgum fannst svo vel takast upp að gera ætti slíkt skemmtiatriði að hefð framvegis.

Engelbert Humperdinck keppti fyrir Bretland og var þá rúmlega 75 ára gamall og er elsti keppandi í aðalhlutverki á sviði í Eurovision hingað til. Tooji frá Noregi hafði komist uppúr undanriðlinum, en varð í síðasta sæti á lokakvöldinu, á sjálfan 25 ára afmælisdaginn sinn. Þarna urðu Norðmenn í síðasta sæti í keppninni í 11. sinn. Það er sjálfsögðu met sem þeim hefur samt ekki tekist að slá síðastliðin 10 ár (og ekki öðrum heldur). Tyrkir, sem tóku fyrst þátt árið 1975, voru með í þessari keppni en hafa ekki verið með síðan. Bryddað var upp á einni nýjung þetta árið, framleiðendur ákváðu í hvaða röð löndin gæfu stig eftir að dómnefndir höfðu gefið sín atkvæði og var þessu raðað þannig að stigagjöfin yrði mögulega spennandi. En þetta varð alls ekkert spennandi eins og aðdáendur vita líklega flestir.

Albanir náðu sínum besta árangri í Eurovision frá upphafi sem stendur enn. Rona Nishliu endaði í fimma sæti með lagið Suus. Gestgjafarnir sjálfir, Azerar urðu svo í fjórða sæti þegar Sabina Babayeva flutti lagið When The Music Dies.

Í þriðja sæti varð Željko Joksimović með lagið Nije ljubav stvar eða Ást er ekki hlutur. Lagið er eftir Željko sjálfan og hann var ekki að taka þátt í Eurovision í fyrsta sinn. Hann tók fyrst þátt árið 2004 og varð þá í öðru sæti með eigið lag, Lane Moje. Einnig er hann höfundur laganna Lejla, Oro og Adio sem öll náðu í úrslit. Þessar Balkanballöður Željkos eru í miklu uppáhaldi hjá mörgum. Željko var einnig kynnir á Eurovisionkeppninni í Belgrad árið 2008 ásamt núverandi eiginkonu sinni Jovönu Joksimović, áður Janković, en þau kynntust þarna og giftu sig einmitt árið 2012. Željko hélt upp á fimmtugsafmælið sitt í síðasta mánuði.

Rússar urðu í öðru sæti. Fyrir þá kepptu sex ömmur undir nafninu Buranowskije Babuschki með lagið Party for Everybody. Þetta atriði er með hæsta meðalaldur keppanda  á sviði í sögu Eurovision. Þær stöllur höfðu einnig reynt að komast í Eurovision árið 2010 en urðu þá í 3. sæti í keppninni í Rússlandi. En þetta árið höfðu þær unnið ekki minni stjörnur en Dima Bilan og Yuliu Volkova og fóru fyrir hönd Rússlands til Baku.

En eins og flestir vita fóru Svíar með sigur af hólmi í Eurovision árið 2012. Met var sett þegar Loreen fékk flestar tólfur í Eurovision fram til þessa, 18 stykki takk fyrir! Lagið heitir Euphoria ef einhver skildi ekki vera með það á hreinu. Lagið fékk 372 stig, þau næst flestu þar til þá. Hard Rock Hallelujah hafði fengið fleiri stig árið 2006. Euphoria kom út þann 26. febrúar 2012 og fljótlega eftir það var ekki bara farið að tala um lagið sem sigurvegara Melodisfestivalen, heldur einnig Eurovision. Lagið er eftir Thomas G:son og Peter Boström. G:son hefur verið iðinn við að semja lög fyrir Eurovision, Melodifestivalen og fleiri undankeppnir Eurovision. Lagafjöldinn er núna kominn í 99. Þar af hafa 14 farið alla leið á stóra Eurovisionsviðið en Euphoria er eina sigurlagið hans.  Loreen eða Lorine Zineb Nora Talhaoui fæddist í Svíþjóð árið 1983, en foreldrar hennar eru innflytjendur frá Marokkó. Hún hóf ferilinn þegar hún tók þátt í Idolkeppni árið 2004 og hefur starfað við sönginn síðan. Hún er einnig þekkt fyrir að vera talsmaður mannréttindamála. Euphoria er eitt frægasta og vinsælasta Eurovisionlag allra tíma. Lagið er uppáhálds Eurovisionlag margra. Lagið náði tífaldri platínusölu í Svíþjóð og náði í 1. sæti á vinsældarlista í 16 Evrópulöndum. Best að taka það fram að þótt stutt sé síðan þetta var þá voru streymisveitur ekki búnar að ná fótfestu á þessum tíma.