Fyrsti blaðamannafundur Systra: “Við sjáum ykkur, við elskum ykkur og það er von”


Systur luku við sína fyrstu æfingu á sviðinu í Pala Olimpico fyrr í dag og gekk allt svoleiðis glimrandi vel hjá þeim. Eins og venjan hefur verið, er blaðamannafundur fljótlega eftir æfingu og að sjálfsögðu var FÁSES.is mætt á svæðið (að vísu í nokkur þúsund kílómetra fjarlægð, en það stendur til bóta) og fylgdist með hvað fram fór.

Þær eru harðánægðar eftir æfinguna og mega líka vera það, því allt gekk upp. Sviðsetningin er einföld en afskaplega falleg og hentar laginu vel. Einnig hrósa þær starfsfólki keppninnar í hástert og segjast hafa fundið fyrir einstaklega mikilli hlýju síðan þær mættu til Ítalíu.

Meðal annars var spurt um merkingu textans og hvað það þýddi fyrir systurnar að syngja lagið á móðurmálinu. Beta sagði það mjög mikilvægt fyrir þær að geta leyft fleirum að heyra íslenskuna, enda ekki margir á jarðkringlunni sem tala íslensku. LayLow útskýrði merkingu textans en hann fjallar að sjálfsögðu um vistabandið, sem á öldum áður var einfaldlega bara hvítt þrælahald á Íslandi, þar sem vonin um betri tíð kæmi oft með hækkandi sól.

Þar sem að mörg atriði í gegnum tíðina hafa treyst á sjóðheit dansspor voru systurnar auðvitað spurðar um af hverju þær dansi ekki með laginu. Svarið var einfalt. “Við sögðum strax nei við dansi. Við myndum pottþétt klúðra því.” Sigga lét reyndar óvart F-orðið flakka, en það er bara íslenska leiðin og gestgjafinn ekkert að kippa sér upp við það.

Systur styðja leynt og ljóst réttindabaráttu LGBTQ+ fólks og voru spurðar hvaða skilaboð þær vildu senda því fólki sem búsett er í löndum sem eru andvíg þeirri baráttu. “Foreldrar eiga að elska börnin sín skilyrðislaust, sama hver þau eru. Við þurfum að vernda þessi börn og gefa þeim pláss, því þau gera heiminn að betri stað. Og það er í okkar verkahring að greiða götu þeirra” svaraði Sigga. Elín bætti við: “Við sjáum ykkur, við elskum ykkur og það er von þarna úti.” Falleg skilaboð og nauðsynleg, enda gáfu systurnar grænt ljós á að allir sem vildu, mættu hafa samband við þær, þó ekki væri nema til að tala.

Margar skemmtilegar og mismunandi spurningar fylgdu í kjölfarið og t.a.m. voru þær spurðar um hvaða lag úr keppni ársins þær myndu helst vilja gera ábreiðu af. Sögðu þær einróma að MARO og Saudade, saudade væri algjörlega þeirra allra uppáhalds í ár, en nefndu einnig gríska lagið. Eyþór fékk einnig að láta ljós sitt skína, en hann grínaðist með að ef þær myndu klúðra málunum, gæti hann einfaldlega labbað í burtu, því engin tæki eftir honum hvort sem er.

Skemmtilegur og fræðandi blaðamannafundur var það og fleiri munu fylgja í kjölfarið. Systurnar luku fundinum með því að taka part úr “Með hækkandi sól” og það er ekki annað að sjá en að þær hafi svolítið sjarmerað mann og annan upp úr skónum með hlýlegri og frjálslegri framkomu sinni og vonandi að það muni skila þeim verðskulduðu sæti í úrslitunum.

RAI hefur nú birt upptöku af blaðamannafundi Systra sem má nálgast á vef þeirra.