Bretland sendir geimferðalanginn Sam Ryder til Tórínó


Bretar eru orðnir alveg mökkleiðir á ömurlegu gengi sínu í Eurovision undanfarin ár, og fengu alveg upp í kok í fyrra þegar þeir höfðu nákvæmlega ekki neitt upp úr krafsinu eftir símakosninguna… aftur. BBC fór í mikla naflaskoðun í framhaldinu og nú er bara aldrei að vita nema þeir hafi loksins fundið langþráð gullfræ. Það fræ er í formi TikTok-stjörnunnar og látúnsbarkans Sam Ryder, en hann ætlar að freista þess að rífa þjóð sína upp úr rústum keppninnar í fyrra, með laginu “Spaceman”, sem BBC kynnti til leiks þann 10. mars. Orðrómurinn varðandi Sam hafði að vísu verið nokkuð hávær í júróheiminum fram að því og það ríkti ákveðin tilhlökkun meðal aðdáenda, enda Sam einstaklega viðkunnalegur og vinsæll drengur. Lagið semur hann sjálfur ásamt Amy Wadge og Max Wolfgang og er kraftballaða í anda Elton John.

Sam Ryder er fæddur í bresku borginni Essex árið 1989 og hefur starfað við tónlist síðan 2009. Hann byrjaði sinn feril með rokksveitinni The Morning After en sú sveit er vel þekkt meðal þeirra sem hlusta á metalcore. Sveitin gaf út tvær plötur við góðan orðstír og var það ekki síst ótrúlegri rödd Sam að þakka. Raddsvið hans er af einhverjum öðrum heimi, sem hentaði ágætlega í þungarokksheiminum, þar sem ekki dugir að hvísla. En Sam langaði til að færa út kvíarnar og prófa nýja hluti og setti því upp sína eigin Youtube-rás og Instagramsíðu árið 2016. Þar lék hann sér að því að taka ýmisskonar ábreiður, sér og öðrum til skemmtunar.

Þrátt fyrir ágætis umferð á síðurnar hans fór boltinn ekki að rúlla fyrir alvöru fyrr en 2019 þegar Sam tók acoustic ábreiðu af hinu ægivinsæla teknótranssmelli “Set Me Free”, sem hljómsveitin N-Trance tryllti gjörsamlega heiminn með árið 1992. Sveitin varð alveg heilluð af meðferð Sam á laginu og hrósaði honum í hástert. Það varð til þess að hann ákvað að gefa lagið út sem smáskífu sem mæltist nokkuð vel fyrir. Stuttu síðar ákvað svo Sam að prófa nýjasta æðið á samfélagsmiðlum og setti upp TikTok-reikning þar sem hann var duglegur að syngja hin og þessi lög fyrir fylgjendur sína. Skemmst er frá því að segja að fólk var algjörlega að kaupa ALLT það sem Sam Ryder var að selja og þegar þessi orð eru skrifuð er hann með yfir 12 milljónir fylgjenda á TikTok og yfir 3 milljónir á Instagram, og sú tala á bara eftir að hækka.

Eins og áður sagði eru Bretar bara nokkuð bjartsýnir í ár og mega reyndar vera það. Lagið hefur rokið upp í veðbönkum undanfarnar vikur, ekki síst vegna þess að Sam hefur ekki slegið eina feilnótu í fyrirpartýum Eurovisionvertíðarinnar víðsvegar um Evrópu. Hann hefur líka algjörlega heillað aðdáendur og blaðamenn upp úr skónum með geislandi persónuleika, mikilli útgeislun og dásamlegum húmor. Hann er vissulega geimferðalangur, en verður hann einnig næsti sigurvegari Eurovision? Hver veit? Við getum allavega vel unnt Bretum þess að ganga nú svona einu sinni vel í keppninni. Sam Ryder er tilbúinn í slaginn og við erum tilbúin fyrir Sam Ryder. Jolly good bara.