Austurrískur teknógeislabaugur á leið til Ítalíu


FÁSES er í óðaönn að undirbúa ferðalagið til Tórínó en við gefum okkur þó ennþá tíma til að kynna framlög ársins 2022. Nú skellum við okkur aðeins upp í hina ægifögru Alpa og skoðum hvað vinir okkar í Austurríki ætla að leggja fram í Pálínuboðið sem er Eurovision.

Þann 11. mars sl., tilkynnti austurríska ríkissjónvarpið ORF að þeir hefðu fengið plötusnúðinn LUM!X og söngkonuna Piu Mariu til að freista þess að koma Austurríkismönnum aftur í aðalkeppnina með teknótranssmellinum “Halo” sem er strangheiðarlegt afturhvarf til 10. áratugarins og hefur einnig þá sérstöðu að vera eitt af fáum þvottekta danslögum ársins. En hverjir eru þessir krakkar og hvernig enduðu þau í Eurovision?

LUM!X heitir réttu nafni Lucas Michalmayr og er vel þekktur plötusnúður og lagahöfundur í heimalandinu þrátt fyrir að vera aðeins tvítugur. Eigum við að ræða eitthvað að hann var að fæðast um það leyti sem Marie N vann í Tallin!? Hvað tíminn flýgur. En allavega… Lucas hefur verið nokkuð lengi að þó ungur sé og var einungis 15 ára þegar hann gaf út sitt fyrsta lag sem náði vinsældum í teknóheiminum víðsvegar um Evrópu. Hann hefur einnig unnið með mýgrút af frægum og vinsælum flytjendum og upptökustjórum. “Halo” semur hann sjálfur í samstarfi við þrjá aðra lagahöfunda, þ.á m. Gabry Ponte, en sá er hvað frægastur hér á norðurhvelinu fyrir að hafa verið annar helmingur teknódúósins Eiffel 65 sem gaf út smellinn “Blue dabadi” hér um árið. Massagæi þar á ferð. Og Lucas verður eflaust ekki í vandræðum með ítölskuna þar sem hann er hálfur Ítali og með ríkisborgararétt í báðum löndum og hefur unnið jöfnum höndum í Austurríki og Ítalíu allan sinn feril.

Pia Maria er sönn háfjallamær en hún er fædd og uppalin í Týról. Ef við viljum halda áfram með aldurskomplexana, þá er Pia jafngömul flutningi Birgittu á “Open Your Heart” í Riga. Ái! Pia Maria hefur ekki starfað lengi við söng en hún hefur þó verið að skrifa sína eigin tónlist frá 16 ára aldri. Pía er líka menntaður förðunarfræðingur og starfar við það dagsdaglega í ríkisleikhúsi Týról í Innsbruck. Það hefur verið smá vesen hjá elsku stelpunni í fyrirpartýum Eurovisionvertíðarinnar og hefur hún verið gagnrýnd (nokkuð harðlega) fyrir að ráða ekki við háu nótur lagsins og fyrir að vera bara léleg live. Austurríska sjónvarpið stökk að sjálfsögðu sinni konu til varnar og í ljós kom að Pia fékk COVID snemma á útmánuðum og hefur verið að glíma við ansi svæsin eftirköst vegna þess. Það hefur nú verið ráðin raddþjálfi til að hjálpa henni að koma sér aftur af stað, svo við skulum bara aðeins slaka á og leyfa henni að njóta vafans. Það er nefnilega ekkert víst að þetta klikki í maí!

Elsku hjartans gullmolanum honum Vincent Bueno tókst því miður ekki að fleyta þjóð sinni alla leið í aðalkeppnina í Rotterdam í fyrra. Vonandi munu það ekki verða örlög LUM!X og Piu Mariu, því eins og Hemmi Gunn spurði svo réttilega hérna forðum daga: “Dansa, hvað er betra en að dansa?” og svarið er, fátt. Það er fátt betra en tryllast á dansgólfinu við eitt stykki transslagara frá landi jóðlaranna og Vínarsinfóníunnar. Við óskum Austurríki góðs gengis!