Armenía sendir kántrískotið Snap til Tórínó


Í ár sendir Armenía söngkonuna og lagahöfundinn Rosu Linn í Eurovision. Þetta er endurkoma hjá Armenum eftir hlé, þeir ætluðu að taka þátt í keppninni 2021 en drógu sig úr henni í kjölfar þeirra krísu sem varð í landinu eftir Nagorno-Karabakh stríðið. Í stað þess að halda opna undankeppni gripu Armenar til þess ráðs að láta dómnefnd ákveða flytjandann og var Rosa Linn fyrir valinu með lagið Snap.

Rosa Linn er 21 árs söngkona, lagahöfundur og útgefandi. Hún er fædd og uppalin í Vanadzor og segist vera smábæjarstelpa með stórt hjarta. Hún aðhyllist 80’s og 90’s lagasmíð og er að eigin sögn mjög spennt fyrir að taka þátt í Eurovision.

Lagið Snap er samið af Allie Crystal, Courtney Harrell, Jeremy Dusolet, Larzz Principato, Rosa Linn og Tamar Kaprelian. Þann síðastnefnda ættu einhverjir að kannast við því hann flutti lag Armeníu árið 2015,  Face The Shadow, ásamt fleirum undir nafninu Genealogy. Lagið Snap er kántrískotið og fjallar um raddirnar í hausnum og allt það neikvæða sem er í umhverfinu okkar og hvaða áhrif það getur haft á okkur.

Armenía hefur tekið þátt þrettán sinnum í Eurovision frá árinu 2006 með nokkuð góðum árangri. Í sjö skipti af þrettán hefur Armenía verið í einu af efstu tíu sætunum. Besti árangurinn er tvisvar sinnum fjórða sætið, árið 2008 með lagið Qele, Qele, og 2014 með lagið Not Alone. Armenar hafa komist upp úr undankeppnunum tíu sinnum.  Armenía hefur aldrei fengið núll stig og aldrei verið í síðasta sæti í keppninni. Armenum hefur gengið betur að krækja í sigursæti í Eurovision unga fólksins (Junior Eurovision) en hana hafa þeir unnið tvisvar sinnum, síðast árið 2021, og þeir hafa aldrei endað neðar en 9. sæti í þeirri keppni.