Söknuður hjá Belgum


Fótboltamaðurinn Jérémie Makiese er keppandi Belga í Eurovision í ár. Hann er ekki aðeins afbragðsgóður markvörður sem er á samningi hjá fótboltaliðinu Excelcior Virton í belgísku 1. deildinni heldur vann hann einnig The Voice Belgique 2021. Jérémie vakti strax athygli í fyrstu umferð keppninnar fyrir frábæran flutning á laginu Jealous sem varð til þess BJ Scott varð mentor hans í keppninni en hún var einnig mentor Loïc Nottet þegar hann tók þátt í Voice Belgique. BJ Scott samdi líka með Loïc Eurovisionlagið Rythm Inside sem lenti í 4. sæti árið 2015 sem var besti árangur Belga í Eurovision síðan þeir lentu í 2. sæti árið 2003 með Sanomi.

Það eru því gerðar miklar væntingar til þessa unga Belga enda hefur hann sýnt og sannað að hann er hörkugóður söngvari. Jérémie er fæddur og uppalinn í Antwerp og eru foreldrar hans báðir ættaðir frá Kongó. Hann talar reiprennandi bæði flæmsku og frönsku þó að í þetta sinn sé hann valinn af RTBF sem er ríkisstöð frönskumælandi hluta Belgíu. Eins og kunnugt er skipta ríkisstöðvar flæmsku- og frönskumælandi hluta Belgíu því með sér að velja keppanda í Eurovision annað hvert ár. Undantekning var þó á í fyrra þar sem VRT, flæmskumælandi ríkisstöðin, fékk að velja keppanda annað árið í röð þar sem Eurovision féll niður árið 2020 eins og við Íslendingar vitum alltof vel.

Foreldrar Jérémie lögðu mikla áherslu á söng í uppeldi hans og söng Jérémie í kór frá unga aldri auk þess að læra söng þegar hann varð eldri. Hann hafði þó líka mikinn áhuga á fótbolta sem faðir hans var víst ekki mjög hrifinn af en drengurinn endaði á að skrá sig í fótboltalið upp á eigin spýtur í trássi við föður sinn þegar hann var orðinn 13 ára gamall. Eftir velgengnina í The Voice tók Jérémie sér hlé frá háskólanámi í jarðfræði enda nóg að gera að vera bæði atvinnumaður í fótbolta og söng.

Lagið sem Jérémie flytur heitir Miss You og er samið í samvinnu við franska lagahöfunda sem hafa meðal annars samið lög fyrir Eurovision keppendurna Celine Dion, Amir og Anggun. Það er því kannski ekki að ástæðulausu að Belgar gera miklar væntingar til síns manns í ár.