Fölnuð ást Asera til Tórínó


Þá er komið að því að FÁSES.is kynnir síðasta Eurovisionframlagið 2022 fyrir lesendum sínum. Aserbaídsjan er ein þeirra þjóða sem er alltaf með síðustu skipunum að tilkynna lag sitt fyrir Eurovision. Í ár verður það Nadir Rustamli sem keppir fyrir Aserar með lagið Fade To Black.

Hinum 22ja ára gamla Nadir hefur dreymt um að standa á Eurovisionsviðinu fyrir Aserbaídsjan síðan í æsku. Hann hefur stundað nám í tónlistarskóla og lært á píanó og í fyrra útskrifaðist hann með háskólagráðu í viðskiptafræði. Þremur vikum áður en Nadir var kynntur sem aserski flytjandinn í Eurovision vann hann aðra þáttaröðina af The Voice of Azerbaijan með 40% atkvæða almennings á bak við sig. Mentorinn hans í The Voice var svo enginn annar en Eldar Gasimov sem Eurovisionaðdáendur kannast að sjálfsögðu við sem sigurvegara Eurovision árið 2011 ásamt Nikki.

Lagið Fade To Black er kraftballaða af klassískara taginu þar sem hugsað hefur verið fyrir öllum smáatriðum. En það verður að viðurkennast að lagið er kannski pínu gamaldags í hinum nútímalega hipp og kúl Eurovision. Lagið fjallar um fölnandi ástarsamband og er eftir lagahöfunda sem venja komur sínar á Melodifestivalen og Eurovision.

Einhverjir hafa velt fyrir sér mögulegri frammistöðu Nadirs á sviðinu í Tórínó með þetta krefjandi lag en samkvæmt aserskum heimildum FÁSES.is er hann mjög sterkur live söngvari. Nadir sýndi það og sannaði í fyrirpartýinu í Madrid á dögunum þar sem hann negldi kraftballöðuna án þess að vera með inneyru – geri aðrir betur! Sviðsetning Fade To Black verður í höndum Mads Enggard en hann sá til þess að Mata Hara-ið hennar Efendi í fyrra væri matreitt í réttum hlutföllum af þjóðlegu Fuego og seiðandi sexí.

Aserbaídsjan hefur tekið þátt í Eurovision síðan 2008 og þau þurftu einungis að bíða í þrjú ár eftir fyrsta sigri sínum árið 2011. Aserar geta státað sig af því að hafa í sjö skipti lent í einu af topp tíu sætum Eurovision. Þeim hefur einnig gengið ljómandi vel að komast upp úr undankeppnunum síðan þeir byrjuðu að taka þátt. Það var aðeins í Lissabon 2018 sem þeim mistókst það þegar Aisel með lagið X My Heart varð í 11. sæti í undankeppninni sinni. Aserbaídsjan keppir í seinni undankeppni Eurovision þann 12. maí nk.