Andrea hringsólar til Tórínó með “Circles” fyrir Norður Makedóníu.


Seinasta vika var gjörsamlega brútal í Júrólandi, og við erum nýbúin að ná okkur niður eftir fimm daga veislu frá Ítalíu. Og vegna þess hve Sanremo tók mikið pláss í lífi okkar, þá duttu aðrar forkeppnir svolítið upp fyrir og biðjumst við velvirðingar á því. Ein af þessum keppnum var send út beint frá Skopje seinasta föstudag, þar sem söngkonan Andrea varð hlutskörpust með lagið “Circles” og mun því trilla sér til Tórínó í maí.

Za Evrosong er glæný af nálinni og nýjasta viðbótin í hóp forkeppna fyrir Eurovision. Makedónska sjónvarpið MRT tilkynnti í október, að þeir myndu hleypa af stokkunum alveg spes forkeppni að þessu sinni, en áður hafa framlög landsins verið annaðhvort valin innbyrðis eða flutt í Skopje Fest. Það var því mikið um dýrðir seinasta föstudag, þegar sex keppendur börðust um miðann til Ítalíu.

Það var ekkert verið að finna upp hjólið í uppsetningu kosningar, en úrslitin réðust af 50% vægi dómnefndar og 50% vægi símakosningar. En keppnin var æsispennandi og í lokin stóð valið á milli Andreu annarsvegar og hinsvegar söngvarans Viktors, sem flutti lagið “Superman”. Andrea vann dómnefndarkosninguna með glæsibrag, en sú dómnefnd var alþjóðleg og samanstóð af dómurum frá Möltu, Ísrael, Georgíu, Armeníu og auðvitað Íslandi, en þar var Felix Bergsson okkar maður í brúnni. Viktor var hinsvegar ástmögur landa sinna og vann símakosninguna, og því voru lögin tvö hnífjöfn að lokum. En þar sem Andrea hafði fengið fleiri stig frá dómnefnd, var hún útnefndur sigurvegari kvöldsins og þar af leiðandi fulltrúi Makedóna (takk, Bjarni Fel) í Tórínó.

North Macedonia selects Andrea for Turin 🇲🇰 - Eurovision Song Contest

Andrea heitir fullu nafni Andrea Koevska og er fædd á Valentínusardag árið 2000. Það eru ekki miklar upplýsingar um þessa ungu og hæfileikaríku söngkonu á intervefnum, en svo mikið er hægt að sjá að Andrea var, eins og svo margir aðrir, uppgötvuð þegar hún hlóð inn myndböndum af sjálfri sér að syngja á Youtube. Þar fangaði hún athygli lagahöfundarins og upptökustjórans Aleksandar Masevski, sem heillaðist algjörlega af rödd hennar og bauð henni í samstarf. Ávöxtur þess samstarfs er svo lagið “Circles” sem þau semja saman og er áferðafalleg poppballaða þar sem má greina sterk áhrif frá bæði Billie Eilish og Dua Lipa. Lagið fjallar að sjálfsögðu um ástina og þá hringavitleysu sem hún getur orðið.

Norður Makedónía hefur ekki alltaf gengið sem best í keppninni, en hafa þó alveg komist áfram endrum og sinnum og lent þá nokkurn veginn fyrir miðju. Tamara Todevska flaug hátt í Tel Aviv og landaði besta árangri Makedóníu hingað til, en smjörbollinn Vasil brotlenti því miður í fyrra. Vonandi mun Andrea eiga góðan leik í Tórínó og koma þessari geðþekku Balkanþjóð aftur í aðalkeppnina.