Derry stúlkan Brooke keppir fyrir hönd Íra


Írland, sigursælasta Eurovisionland sögunnar, hefur ekki riðið feitum hesti frá keppninni undanfarin ár og líklega náði niðurlægingin hámarki á síðasta ári þegar framlag þeirra lenti aðra keppnina í röð í neðsta sæti undanriðilsins. Írska Eurovision sendinefndin sá að svona gat þetta ekki gengið lengur og ákvað að breyta fyrirkomulaginu í ár. Þeir efndu því til undankeppni en Írar hafa ekki haft undankeppni fyrir Eurovision síðan 2016 þegar Molly Sterling vann með laginu Playing with Numbers. Hún reyndar komst heldur ekki upp úr sínum undanriðli í Eurovision en það er önnur saga.

Undankeppnin fyrir Eurovision í ár var haldin í þættinum The Late Late Show 4. febrúar. Keppendur voru sex, sumir höfðu áður tekið þátt í Eurovision eins og Brendan Murray árið 2017 með lagið Dying to Try og Janet Grogan sem var bakraddasöngkona hjá fyrrum Westlife strákabandsmeðliminum Nicky Byrne 2016 en Nicky Byrne var einmitt lagahöfundur í undankeppninni í ár. Hann samdi lagið One Night, One Kiss, One Promise sem Patrick O’Sullivan flutti en fyrirfram var hann einmitt annar tveggja sem taldir voru sigurstranglegastir. Hin sem álitin var mjög sigurstrangleg var Derry stúlkan Brooke Scullion frá Norður-Írlandi en í ár fengu Norður-Írar að taka þátt í símakosningunni.

Keppendurnir fluttu lögin sín í The Late Late Show og sigurvegarinn var ákveðinn með símakosningu sem gilti þriðjung atkvæða, alþjóðleg dómnefnd gilti annar þriðjung og þar áttum við Íslendingar fulltrúa þar sem ein úr dómnefndinni var Árný Fjóla úr Gagnamagninu. Að lokum var innanhúsdómnefnd valin af RTE og fengu þau einnig tækifæri til að segja álit sitt á flutningi hvers keppanda áður en þau gáfu þeim stig sem gilti þriðjung atkvæða. Alþjóðlega dómnefndin og þeir sem kusu í símakosningunni voru nokkuð samstíga og settu Brooke í efsta sæti en það varð nokkuð uppþot þegar innanhúsdómnefndin setti Brooke í næstneðsta sæti. Það fór þó svo að þegar öll stig voru lögð saman þá vann Brooke nokkkuð örugglega með lagið sitt That’s Rich en það fjallar um sambandsslit hennar við einhvern drulludela.

Það verður því Derry stúlkan Brooke sem verður fulltrúa Íra í Tórínó í ár. Lagið er nokkuð hresst og skemmtilegt, stílíseraður óður til “Chav” tískunnar sem Bretar hafa gert ódauðlega í raunveruleikaþáttunum Geordie Shore. Það verður áhugavert að sjá hvort sá stíll muni enn vera við lýði hjá Brooke í maí.