Ítalskur unaðshrollur til Tórínó


Festival di Sanremo var haldin í 72. sinn í liðinni vikunni. Það er ítölsk söngvakeppni og oft hefur sigurvegari hennar keppt fyrir hönd Ítalíu í Eurovision en það er þó alls ekki alltaf raunin. Keppnin var fyrst haldin í lok janúar árið 1951 og hefur verið haldin árlega síðan og er því ein elsta söngvakeppni og sjónvarpsþáttur í heimi. Eins og flestum er eflaust kunngt fóru Ítalir með sigur af hólmi í keppninni síðastlið vor þegar hljómsveitin Måneskin flutti lagið Zitti e buoni.

Festival di Sanremo er stór og mikil keppni og var haldin fimm kvöld í röð, 1. – 5. febrúar síðastliðinn. Alls kepptu 25 lög í keppninni. Sanremo Festival er þó ekki þessi hefðbundna söngvakeppni sem margir Eurovisionaðdáendur þekkja því hún snýst um svo miklu meira en bara þau lög sem keppa um fyrsta sætið. Ítalir líta á Sanremo sem vettvang til að sýna það besta sem Ítalía hefur upp á að bjóða og alls konar leikarar, grínistar og jafnvel fótboltamenn, koma fram.

Fyrsta kvöldið voru fyrstu tólf lögin flutt og hin þrettán kvöldið eftir. Frammistaða keppenda þessi kvöld er metin af fjölmiðladómnefnd. Þriðja kvöldið fluttu allir flytjendur lögin sín aftur og þá er frammistaðan þeirra metin af almenningi þar sem símakosning hefur 50% vægi og lýðfræðileg dómnefnd sem samanstendur af nokkur hundruð Ítölum (e. demoscopic jury) hefur 50% vægi. Keppendur máttu velja sér ábreiðu til að flytja fjórða kvöldið og þá þeir máttu hafa gestasöngvara með sér ef þeir kusu það, sem meirihlutinn gerði. Frammistaða keppenda var þetta kvöld metin af fjölmiðladómnefnd, lýðfræðilegu dómnefndinni og símakosningu, hvert með þriðjungsvægi. Allar kosningarnar voru síðan sameinaðar í röð keppenda sem birt var á föstudagskvöld. Síðasta kvöldið sem var á laugardagskvöld var svo úrslitakvöldið. Þá fluttu flytjendur lögin sín í þriðja sinn og þrjú efstu kepptu svo í lokin til úrslita. Símakosning var notuð til að ákveða hvaða lög yrðu efstu þrjú en úrslitin voru síðan ráðin af símakosningu, lýðfræðilegu dómnefndinni og fjölmiðladómnefndinni, hvert með þriðjungsvægi.

Sjónvarpsmaðurinn Amadeus var aðalkynnirinn og var hann með fimm aðra kynna með sér. Eins og áður segir var kosningafyrirkomulagið nokkuð flókið og eins kvöldin sjálf en útsendingin stóð í allt að fimm klukkutíma hvert kvöld. Margir gestir létu einnig sjá sig. Þar á meðal voru þekktar Eurovisionstjörnur, Ermal Meta, Margo Menoni og að sjálfsögðu Måneskin með söngvarann Damiano David fremstan í flokki. Hljómsveitin kom fram fyrsta kvöldið, flutti sigurlagið sitt frá 2021 og einnig lagið Coraline af mikilli innlifun en sú frammistaða skildi ekki eftir eitt þurrt auga í salnum. Måneskin hefur átt mikilli velgengni að fagna eftir sigurinn í Eurovision og hafa vinsældirnar verið miklar beggja vegna Atlantshafsins þar sem þau hafa spilað mörgum tónleikum og komið fram í sjónvarpi. Einnig hafa þau unnið til margra tónlistarverðlauna. Loks nýttu Ítalirnir keppnina til að tilkynna hverjir myndu kynna Eurovision 2022 en það hlutverk verður í höndum Laura Pausini, Alessandro Cattelan og Mika.

Það voru líka þekktar Eurovisionstjörnur meðal keppanda. Má þar nefna Gianni Morandi sem keppti 1970, Emmu Marone sem keppti í Eurovision 2014, Fabrizio Moro sem keppti 2018 og Mahmood sem keppti árið 2019. Moro fékk einmitt sérstök verðlaun fyrir fallegasta textann í keppninni í ár.

Þrjú efstu lögin á lokakvöldinu kepptu svo að lokum um titilinn. Í þriðja sæti endaði Gianni Morandi, en hann söng lagið Apri Tutte le porte. Hann hafði eins og komið hefur fram keppt í Eurovision árið 1970 með lagið Occhi di ragazza. Hann hefur svo keppt nokkrum sinnum í Sanremo eftir það, vann meðal annars keppnina árið 1987 þótt hann hafi ekki farið í Eurovision þá. Þá söng hann lagið Si puó dare di piú með Enrico Ruggeri og Umberto Tozzi, en Umberto fór í Eurovision það árið með lagið Gente di Maare. Morandi er í dag rúmlega 77 ára og enn á fullu í tónlist.

Elisa Toffoli komst einnig í úrslit með lagið O forse sei tu.  Hún vann Sanremo árið 2001 en það lag endaði ekki í Eurovision þar sem Ítalía tók ekki þátt í keppninni á þessum tíma. Hún á einnig farsælan tónlistarferil að baki og hefur unnið til fjölda verðlauna. Hún varð í öðru sæti í keppninni í ár.

Þriðja lagið sem komst í úrslit var lagið Brividi sem Mahmood og Blanco fluttu. Það fór svo að það sigraði, fékk meðal annars yfir helming atkvæða úr símakosningu í úrslitunum. Lagið sömdu þeir félagar ásamt Michaelangelo. Mahmood, sem verður þrítugur í haust, tók eftirminnilega þátt í Eurovision fyrir þremur árum með lagið Soldi og varð í öðru sæti. Soldi hefur notið gífurlegra vinsælda og hefur til dæmis verið streymt á Spotify nærri 200 milljón sinnum. Blanco er hins vegar rétt að hefja ferilinn enda ungur að árum. Hann verður 19 ára í vikunni. Hann gaf út fyrsta lagið sitt í júní árið 2020. Brividi er samtal milli tveggja elskenda og neistar á milli Mahmood og Blanco í flutningnum og hefur það ekki síst hrifið marga. Erfitt getur verið að þýða orð þegar vantar uppá ítölskukunnáttuna, en greinarhöfundur kýs að þýða brividi sem unaðshrollur hér. Bent hefur verið á sigur Brividi í Sanremo gæti þýtt byltingu í baráttu hinsegin fólks á Ítalíu en landið skorar einungis 22% á Regnbogakorti Evrópu m.a. vegna þess að ekki er lagalega óheimilt að mismuna hinsegin fólki þar í landi og hjónabönd samkynhneigðra ekki leyfð.

Engu lagi hefur verið streymt oftar á Spotify á Ítalíu daginn sem það kom út en Brividi gerði. Ítalir eru núna efstir í spám veðbanka yfir mögulega sigurvegara í Eurovision í maí. Það eiga vissulega mörg lög eftir að koma fram og margt að breytast. En Ítölum hefur vissulega gengið mjög vel og reyndar best í Eurovision síðan þeir fóru að vera með eftir langt hlé árið 2011. Af þeim tíu lögum sem þeir hafa sent síðan þá hafa átta endað á topp tíu. Þeir unnu í fyrra eins og áður hefur komið fram og hafa á þessum tíma bæði unnið símakosningu og dómnefndaratkvæðin þar fyrir utan. Eurovisionkeppnin í ár verður verður svo haldin ekki svo langt frá Sanremo eða í Tórínó í maí.