Moldóva sendir góðkunningja Eurovision til Tórínó


Þjóðlagapönkbandið Zdob și Zdub mun heiðra okkur Eurovisionaðdáendur með nærveru sinni í þriðja skiptið. Lagið Trenulețul (lestin) var valið úr hópi 29 laga í sérstökum áheyrnaprufum sem haldnar voru í TRM Studio í Chișinău 29. janúar sl. Lagið var valið af sérstakri dómnefnd skipaðri vel völdum moldóvskum Eurovision stjörnum; Geta Burlacu (Eurovision 2008), Vali Boghean, Cristina Scarlat (Eurovision 2014), Victoria Cuşnir, and Aliona Moon (Eurovision 2013). Moldóvar voru reyndar búnir að tilkynna að þeir ætluðu að halda undankeppni fyrir Eurovision 5. mars nk. en eitthvað fór það fyrir lítið, henni var aflýst vegna COVID og skellt var í áheyrnarprufurnar með stuttum fyrirvara.

Áheyrnarprufurnar voru áhugaverðar fyrir margra hluta sakir og reyndu ef til vill eilítið á þolrif Eurovisionaðdáandans. Einn keppenda var t.d. þessi læknir á níræðisaldri og síðan var þarna ungur maður með miklar yfirlýsingar um að hafa sofið hjá fyrrverandi kærustu einhvers. Eitt lagið hljómaði bara eins og rafmagnssuð en það var víst dregið til baka fyrir keppni. Sænsku tvíburasysturnar sem margir Eurovisionaðdáendur kannast við, Ylva og Linda Person, eru höfundar þriggja laga í keppninni. Athygli vakti að lagið sem lenti í öðru sæti, Silent Battlefield, er eftir Íslendinginn Þórhall Halldórsson og Nikos Sofis. Þórhallur þessi hefur komið við sögu Söngvakeppninnar en hann var annar höfunda Ekkó árið 2020 sem Nína Dagbjört Helgadóttir flutti.

Lagið Trenulețul vann áheyrnarprufurnar með yfirburðum. Lagið er afrakstur samvinnu Zdob și Zdub og Frații Advahov; tveggja bræðra sem starfa við þjóðlagatónlist. Þar sem bandið sjálft telur sex manns er ljóst að með tveimur samstarfsmönnum til viðbótar að einhver þeirra verður að sitja heima þar sem eingöngu sex mega vera á sviðinu í Tórínó. Gefið hefur verið út myndband með laginu sem hefur fengið yfir gríðargóðar viðtökur, með yfir 2 milljónir áhorfa.

Bandið varð ódauðlegt í Eurovisionheiminum með þátttöku sinni 2005 þegar þeir lentu í sjötta sæti. Við gerum fastlega ráð fyrir að því að ekki sé til það júróbarn sem kannast ekki við ömmuna á trommunni. Þess má geta að fyrir Eurovision 2005 varð einn meðlimur Zdob și Zdub eftir heima til að rýma fyrir ömmunni á sviðinu.

Zdob și Zdub tók þátt öðru sinni í Eurovision árið 2011 og lentu þá í 12. sæti með laginu So lucky. Framlagið er eftirminnilegt m.a. fyrir þær sakir að bandið skartaði gríðarháum turnhöttum á sviðinu í Düsseldorf. Moldóvar vilja greinilega tryggja sér góðan árangur í Eurovision og veðja því í þriðja skiptið á reyndu hljómsveitina frá Chișinău sem starfar hefur frá 1994.

Moldóva hefur tekið þátt í Eurovision síðan 2005 og hafa náð í aðalkeppnina alls ellefu sinnum. Árið 2017 lentu Sunstroke Project í þriðja sæti í keppninni en það er þeirra besti árangur hingað til.

 

Johannes Müllerlei, sérstakur áhugamaður um Moldóvsku forkeppnina, fær bestu þakkir fyrir aðstoð við skrif þessa pistils.