Sameinuð Evrópa í ekta sveiflu og svarthvítum blús


Í dag á ein dásamleg Eurovisonkeppni 30 ára afmæli. Keppnin var haldin í Vatroslav Lisinski Concert Hall í Zagreb sem þá var í Júgóslavíu, nú Króatíu, þann 5. maí 1990. Þetta var 35. Eurovisionkeppnin og sú fyrsta sem var haldin austan tjalds. Kynnar voru Oliver Mlakar og Helga Vlahovic. Oliver var síðar kynnir á Dora, króatísku söngkvakeppninni árið 1999. Helga heldur því fram að heill milljarður sé að horfa og er það hæsta tala sem undirrituð hefur nokkurn tímann séð eða heyrt varðandi áhorf á Eurovision. Það myndi þá þýða einn af hverjum fimm jarðarbúum á þessum tíma. Næst hæsta talan er 450 milljónir svo þennan milljarð ber að taka með fyrirvara. Þarna var loksins búið að setja þá reglu að keppendur yrðu að vera að minnsta kosti 16 ára gamlir. Eurovisionlag númer 600 í Eurovision er í þessari keppni, lagið Ha Sempre Alguem. Það var söngkonan Nucha frá Portúgal sem flutti.

Mikið gekk á í Evrópu á þessum tíma. Berlínarmúrinn var nýfallinn og Júgóslavía sjálf var að liðast í sundur. Rúmu ári síðar lýstu Króatía og Slóvenía yfir sjálfstæði. Það er því kannski engin tilviljun að 7 af 22 lögum sem kepptu fjölluðu um Berlínarmúrinn, frið, frelsi og/eða sameiningu. Má þar meðal annars nefna hið norska Brandenburger Tor og hið austurríska Keine Mauern Mehr. Aldrei áður hafa hlutfallslega fleiri lög fjallað frið og sameiningu. Hugmyndin um sameiningu og frið í Evrópu sem var kveikjan að Eurovision var enn til staðar.

Keppnin byrjaði kannski ekki mjög vel. Spænski dúettinn  Azúcar Moreno var fyrstur á svið og það voru vandræði með hljóðið og undirspilið. En viðbrögð gítarleikarans eru samt svo skemmtileg að þetta varð eitt það eftiminnilega við keppnina. Azúcar Moreno, sem þýðir púðursykur, skipuðu systurnar Toñi  og Encarna Salazar. Þær voru afar vinsælar á þessum tíma, bæði í Evrópu og Norður- og Suður Ameríku. En hér er lagið þeirra, Bandido sem varð í 5. sæti. Hér að neðan má sjá bæði töku eitt og tvö.

Það kom að því í fimmtu tilraun að við Íslendingar sönnuðum tilverurétt okkar í keppninni svo vitnað sé í útvarpsviðtal við Grétar Örvarsson frá þessum tíma. Við sendum lagið Eitt lag enn með Stjórninni með Sigríði Beinteinsdóttur og Grétari í aðalhlutverki. Við fengum hvorki meira né minna en 124 stig og fjórða sætið að launum! Ísland fékk í fyrsta sinn 12 stig þarna, bæði frá Bretum og Portúgölum. Viðbrögð Arthús Björgvins Bollasonar sem var þulur Sjónvarpsins, þegar við fáum okkar fyrstu tólfu frá Bretum, eru líka stórkostleg. Hann átti alls ekki von á þessu! Rauði kjóllinn hennar Siggu hefur líka vakið mikla athygli og eflaust höfum við fengið einhver stig út á hann. Sigga ætlaði að vera í buxum en á síðustu stundu fannst kjóllinn í Parísartískunni. Sigga og Grétar kepptu svo aftur árið 1992 með lagið Nei eða já sem hluti af Heart 2 Heart hópnum. Tveimur árum síðar var Sigga mætt í þriðja sinn á Eurovisonsviðið með lagið Nætur. Þau hafa svo bæði verið í bakröddum, Sigga 2006 og Grétar 2008. Einnig hafa þau margoft komið að Söngvakeppninni fyrir utan þetta, sungið, samið, dansað og dæmt. Vakin er sérstök athygli á endinum, þegar Grétar sveiflar Siggu í burtu og allir hneigja sig jafnt og það tvisvar. Flottasta hneiging Eurovisionsögunnar!

Tvö lög urðu jöfn í öðru sæti með 132 stig. Annars vegar var þar á ferðinni hinn írski Liam Reilly með lagið Somewhere in Europe. Hann hafði tekið þátt í Söngvakeppninni í Írlandi tveimur árum áður með lagið Lifeline en var þá ekki valinn sem fulltrúi landsins. Árið eftir, 1991 keppti hann aftur sem lagahöfundur írska lagsins Could It Be That I’m in Love sem Kim Jackson söng.

Hitt lagið sem varð í öðru sæti var White and Black Blues sem Joëlle Ursull flutti. Joëlle er ættuð frá Gvadelúpeyjum í Karabíska hafinu. Þarna sjáum við olíutunnur í fyrsta sinn á Eurovisionsviðinu. Lagið varð afar vinsælt í Frakklandi og er í miklu uppáhaldi hjá mörgum.

Sigurlagið kom frá Ítalíu. Þar var Toto Cutugno sem söng og samdi einmitt eitt af lögunum um sameinaða Evrópu, Insieme 1992. Toto var að verða 47 ára þegar hann vann Eurovision og þá elsti sigurvegarinn. Hann var nokkrum mánuðum eldri en André Claveau þegar hann sigraði fyrir Frakkland árið 1958. Toto hélt því að vera elsti sigurvegarinn í 10 ár eða þar til Jørgen Olsen bætti um betur. Toto eða Salvatore Cutugno eins og hann heitir, hefur verið í tónlist síðan árið 1976. Hann á til dæmis lögin Donna Donna Mia og Innamorati sem við þekkjum vel í öðrum útgáfum. Hér má líka sjá upptöku frá árinu 2014 þar sem hann syngur með Il Volo sem kepptu fyrir Ítalíu ári síðar og unnu líka –  það er símakosninguna.

Eftir að sigurinn var ljós var að sjálfsögðu opnuð kampavínsflaska og skvettist innihaldið yfir Toto. Þá kom í ljós að hann var með skol í hárinu sem lak niður á hvíta jakkann. Hann var kominn í annan svartan jakka utanyfir þegar tók við verðlaununum og flutti lagið aftur. Toto var svo kynnir á Eurovisionkeppninni 1991 í Róm ásamt hinum ítalska sigurvegaranum, Gigliolu Cinquetti.

Það brutust út mikil fagnaðarlæti á Íslandi þegar keppni lauk. Bæði var þetta mikill léttir og svo ástæða til að fagna þessum frábæra árangri. Undirrituð minnist þess að hafa dansað niður götuna heima hjá sér eftir keppni. Svo mikil var ánægjan með árangur Íslands og eins Ítalíu í þessari keppni.