Tungumálahlaðborð 2020


Síðan 1999 hefur Eurovision-þjóðunum staðið til boða að syngja á hvaða tungumáli sem er. Í kjölfarið náði enskan yfirhöndinni hjá textahöfundum laganna þar sem meirihluti laga síðan þá hafa verið á ensku. En það eru alltaf einhverjar þjóðir sem kjósa að syngja á öðru tungumáli en ensku, hvort sem það er móðurmál viðkomandi lands eða eitthvað allt annað.

Á lagalista ársins í ár má finna níu lög sem eru sungin alfarið á öðru tungumáli en ensku, eitt lag sem er tvítyngt og tvö lög sem eru sungin mestmegnis á ensku en bjóða upp á nokkur orð eða setningar á öðrum tungumálum.

Kíkjum á þau 12 tungumál sem dekka hlaðborð ársins 2020.

Hvítrússneska

Þetta er einungis í annað skiptið sem hvítrússneska heyrist í Eurovision, en fyrsta skiptið var í framlagi Hvít-Rússa árið 2017, en Hvíta-Rússland hóf þátttöku árið 2004.

Hvítrússneska er af austur-slavneskum uppruna og er opinbert tungumál í Hvíta-Rússlandi, en er einnig talað í Rússlandi, Litháen, Lettlandi, Úkraínu, Póllandi og Tékklandi.

 

Slóvenska

Þetta er í þriðja árið í röð sem Slóvenar syngja á móðurmáli sínu. Lagið í ár verður því ellefta lag Slóvena sem flutt er alfarið eða að hluta til á slóvensku síðan 1999. Slóvenía hóf þátttöku árið 1993 og hafði sungið á slóvensku fram að breytingum tungumálareglunnar og er þetta því sextánda skiptið sem framlag Slóvena er á móðurmálinu.

Slóvenska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir ætt slavneskra tungumála. Líkist það serbnesku, króatísku og bosnísku, en tilheyrir þó sinni eigin undirættkvísl. Slóvenska er opinbert tungumál Slóveníu ásamt því að vera talað á Ítalíu, Austurríki, Ungverjalandi og Króatíu en talið er að um 2,5 milljónir einstaklinga hafa það að móðurmáli.

 

Króatíska

Meirihluti framlaga Króata frá 1999 hafa verið sungin alfarið eða að hluta til á króatísku, en sex framlög hafa verið á ensku og eitt á ensku og ítölsku. Er þetta þó í fyrsta skiptið síðan 2013 sem framlag Króata er alfarið sungið á króatísku.

Króatíska er indó-evrópsk mál sem tilheyrir slavnesku ættkvíslinni, nánar tiltekið hinni serbó-króatísku. Talið er að um 5,6 milljónir tali króatísku að móðurmáli en fyrir utan Króatíu er hún einnig töluð í nágrannalöndunum Bosníu-Hersegóvínu, Serbíu, Svartfjallalandi og Rúmeníu.

 

Úkraínska

Framlag Úkraínu í ár hefði verið það fyrsta í sögu Eurovision sem sungið hefði verið alfarið á úkraínsku. Tungumálið hefur þó heyrst áður á Eurovision-sviðinu, í framlögum Úkraínu árin 2004, 2005 og 2007. Einnig var partur af rússneska framlaginu árið 2009, sem var á heimavelli það ár, á úkraínsku.

Úkraínska er indó-evrópsk tungumál sem tilheyrir slavnesku ættkvíslinni, nánar tiltekið þeirri austur-slavnesku. Tungumálið er opinbert tungumál í Úkraínu ásamt því að vera talað í mörgum löndum í austurhluta Evrópu, þar á meðal Hvíta-Rússlandi, Rúmeníu, Moldóvu, Ungverjalandi og Serbíu. Talið er að um 40 milljónir tali tungumálið.

 

Serbneska

Serbar hófu þátttöku í Eurovision árið 2007 og voru öll framlög þeirra á móðurmálinu frá því ári til ársins 2013. Næstu þrjú framlög þeirra voru á ensku, en framlag þeirra í fyrra var að stærstum hluta á serbnesku. Þetta er því annað árið í röð sem serbneska framlagið er sungið á serbnesku.

Serbneska er af indó-evrópskum uppruna, tilheyrir ætt slavneskra tungumála og er náskyld bosnísku, króatísku og svartfellsku. Serbneska er opinbert tungumál í Serbíu ásamt því að vera eitt af þremur opinberum tungumálum í Bosníu-Hersegóvínu og eitt af tveimur í Kosovo. Um 12 milljónir einstaklinga tala serbnesku að móðurmáli, en fyrir utan þau lönd sem hafa það að opinberu tungumáli er serbneska einnig töluð í Svartfjallalandi, Króatíu og Makedóníu.

 

Portúgal

Portúgalir eru mjög duglegir að breiða út boðskap sinn í Eurovision á móðurmálinu portúgölsku en framlög þeirra hafa ávallt verið alfarið á portúgölsku fyrir utan þrjú þeirra sem innihéldu búta á ensku. Í ár er engin undantekning þar sem framlag þeirra er sungið á móðurmálinu.

Portúgalska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættkvíslinni. Er tungumálið því náskylt frönsku, spænsku og ítölsku. Þrátt fyrir að Portúgal sé ekki gríðarstórt land þá tala um 220 milljónir einstaklinga portúgölsku að móðurmáli, en hún er einnig opinbert tungumál í Brasilíu, Grænhöfðaeyjum, Mósambík, Gíneu-Bissaú, Angóla og Saó Tomé & Prinsípe. Einnig er tungumálið talað í Austur-Tímor, Miðbaugs-Gíneu og á Makaó. Þakka má útbreiðslunni hinum afkastamiklu landkönnuðum Portúgala ásamt þeirri staðreynd að Portúgal var eitt sinn helsta nýlenduveldi heims.

Franska

Franska heyrist í tvennum framlögum í ár, því svissneska og því franska.
Svisslendingar hafa fjögur opinber tungumál og hafa sungið á þeim öllum í Eurovision. Franskan hefur þó oftast orðið fyrir valinu, meira að segja ef þau sem sungin hafa verið eftir 1999 eru tekin með. Enskan hefur þó haft yfirhöndina síðustu ár og er þetta í fyrsta skiptið síðan 2010 sem framlag þeirra er ekki á ensku, en það ár var það á frönsku.
Frakkar hafa nánast alltaf sungið sitt framlag alfarið eða að hluta til á frönsku. Þeir komust þó nálægt því að flytja eitt framlag sitt eingöngu á ensku, en lag þeirra árið 2008 var að mestu á ensku en innihélt þó nokkrar línur á móðurmálinu. Í ár er framlag þeirra það eina tvítyngda á hlaðborðinu, en það er nánast til helminga á ensku og frönsku.

Franska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættkvíslinni. Hennar nánustu ættingjar eru meðal annars spænska og ítalska. Franska er ansi útbreitt tungumál en hún er opinbert tungumál í 29 löndum í fimm heimsálfum og talið er að á milli 75 til 80 milljónir einstaklinga tali frönsku að móðurmáli. Bara í Evrópu er franska opinbert tungumál í Frakklandi, Belgíu, Sviss, Mónakó og Lúxemborg.

Ítalska

Ítalir eiga ennþá eftir að senda framlag sem alfarið er sungið á ensku, en þrjú framlög þeirra síðan 1999 hafa verið sungin á bæði ítölsku og ensku, ásamt því að heyra mátti arabísku í framlagi þeirra í fyrra. Hafa verður þó í huga að þeir voru ekki með frá 1997 til 2011. Í ár er framlag þeir alfarið á ítölsku.

Ítalska er af indó-evrópskum uppruna, nánar tiltekið af rómönsku ættkvíslinni. Meðal hennar næstu nágranna eru spænska og franska. Ásamt því að vera opinbert tungumál Ítalíu er hún það einnig í San Marínó. Sviss og Vatíkaninu. Einnig er tungumálið móðurmál flestra þeirra sem búa á Istría-skaganum, en Ítalía, Króatía og Slóvenía deila honum á milli sín. Talið er að um 90 milljónir einstaklinga hafi ítölsku að móðurmáli sínu.

Spænska

Spánverjar hafa oftast sungið á spænsku, en nokkur framlög þeirra síðan 1999 hafa verið á bæði spænsku og ensku. Aðeins eitt framlag þeirra hefur verið sungið alfarið á ensku, en það var árið 2016. Í ár er framlag þeirra eingöngu á móðurmálinu.
Spænska heyrist líka í framlagi Rússa í ár, en talið er upp að fimm á spænsku í laginu ásamt því að titill lagsins er á spænsku.

Spænska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættinni, ásamt frönsku, ítölsku og portúgölsku. Spænska er eitt útbreiddasta tungumál í heimi en það er opinbert tungumál um 20 landa en meirihluti þeirra sem tala spænsku að móðurmáli koma frá Suður- og Mið-Ameríku. Tungumálið er talið vera annað mest talaða móðurmál heims, á eftir mandarísku. Á milli 470 og 500 milljónir einstaklinga tala spænsku að móðurmáli.

Amharíska, arabíska, hebreska

Þetta eru augljóslega þrjú ólík tungumál, en þau fá sameiginlega umfjöllun þar sem þau öll hljóma í sama laginu. Ísraelska framlagið er það eina sem inniheldur textabrot á fjórum tungumálum, sem er þó langt því frá að vera met í Eurovision-sögunni. Stærstur hluti lagsins er á ensku, en hin þrjú koma fyrir í textanum.

Titill lagsins er á amharísku, sem er af semískum uppruna og er talað í Eþíópíu en söngkona lagsins á einmitt ættir sínar að rekja þangað. Er þetta í fyrsta skiptið sem tungumálið heyrist í framlagi í Eurovision, en því miður fær það ekki að hljóma á Eurovision-sviðinu þar sem keppninni hefur verið aflýst í ár. Arabíska hefur heyrst nokkrum sinnum áður, þar á meðal í framlagi Ísraela 2009 og eina framlagi Marókkó í keppninni frá árinu 1980. Hebreska er opinbert tungumál Ísraels og hefur stærstur hluti ísraelsku framlaganna verið sungin alfarið eða að hluta til á hebresku. Þetta er þó í fyrsta skiptið síðan 2014 sem tungumálið heyrist í framlagi þeirra Ísraela.