Hvíta-Rússland fyrir dögun


Hvít-Rússneska sjónvarpið fékk send 95 lög til þátttöku í undankeppnina fyrir Eurovision 2020. 49 var boðið í prufu þar sem sérfræðingadómnefnd valdi 12 til að keppa til úrslita í sjónvarpi. Sigurvegarinn var valinn með atkvæðum sérfræðingadómnefndar til helmings við atkvæði almennings. Meðal sérfræðinganna voru Dmitry Koldun, sem lenti í sjötta sæti með lagið Work Your Magic árið 2007, (sem er enn besti árangur Hvít-Rússa), Zena, sem keppti í fyrra með lagið Like it og Kýpverjinn Alex Panayi, sem söng og samdi lagið Sti fotia árið 1995 og Nomiza árið 2000. Alex þessi hefur einnig verið bakrödd í fjölmörgum lögum, eins og gríska sigurlaginu frá árinu 2005, My number one og verið raddþjálfari fjölmargra atriða í keppninni, þar á meðal þriggja atriða í Eurovision árið 2018.

Dúettinn VAL lenti í öðru sæti hjá dómnefnd og hjá almenningi en það dugði til sigurs þegar atkvæðin voru lögð saman, því stigahæsta lag dómnefndarinnar lenti í fimmta sæti hjá almenningi og stigahæsta lag almennings lenti í því fimmta hjá dómnefnd, sem raðaði þeim í öðru og þriðja sæti á eftir VAL.

Parið Valeria Gribusova og Vlad Pashkevich mynda dúettinn VAL og hefðu sungið lagið Da vidna í Eurovision 2020. Þau sömdu lagið ásamt textahöfundinum Mikita Najdzionaŭ. Lagið hefði verið sungið á hvít-rússnesku en Da vidna þýðir „Fyrir dögun”.

Valeria hefur eins og margir aðrir keppendur í Eurovision verið iðin við að taka þátt í söngvakeppnum og var t.d. í liði Jamölu í úkraínska The Voice árið 2017. Vlad útsetti lag Hvíta-Rússlands árið 2017, Story of my life. Val og Vlad kynntust þegar sameiginleg vinkona þeirra bauð þeim að taka þátt í grínatriði í hvít-rússnesku undankeppninni árið 2016. Þau komust hins vegar ekki í hvít-rússnesku úrslitin með lagið One, Two, Three, Five. Þau virðast því ekki vera betri að telja en Rússarnir í ár, þó VAL nái að telja upp að þremur áður en þau ruglast.

Hvít-Rússar tóku fyrst þátt í keppninni árið 2004, árið sem fyrsta undankeppnin var haldin og þeim hefur gengið brösuglega að komast upp í úrslitakeppnina. Sagt er að forseti Hvíta-Rússlands, Alexander Lukashenko hafi verið svo óánægður með hversu illa gekk að eftir Eurovision árið 2009 hafi hann séð til þess að önnur hvít-rússnesk ríkissjónvarpsstöð fengi að sjá um keppnina heldur en fram að því. Hvíta-Rússland hefur þó einungis sex sinnum komist áfram í úrslit af 16 tilraunum.