Páll Óskar Hjálmtýsson fæddist í Reykjavík 16. mars 1970. Hann fagnar því fimmtugsafmælinu sínu í dag, hvort sem maður trúir því eða ekki. Það má gera ráð fyrir að Palli hafi verði poppstjarna og diskódrottning alla sína ævi en þjóðin fór almennt að verða meðvituð um það á tíunda áratug síðustu aldar. Palli ætlaði að sjálfsögðu að halda veglega upp á afmælið með tónleikum í Háskólabíói, en vegna COVID-19 veirunnar hefur þeim verið frestað fram á haust. Talsvert hefur verið fjallað um afmælisbarnið í fjölmiðlum í aðdraganda afmælisins en í þessum pistli verður áherslan eðlilega á Palla og Eurovision.
RÚV hélt enga Söngvakeppni árið 1997 og bað Pál Óskar að semja og flytja framlag Íslands það árið. Hann tók það að sér með þeim skilyrðum að hann fengi algjört listrænt frelsi og RÚV samþykkti það. Palli fór því út til Dublin með lagið Minn hinsti dans eftir hann og Trausta Haraldsson. Eurovisionkeppnin þótti hafa staðnað á þessum tíma og ekki hafa fylgt nútímanum með þessum sömu löndin alltaf að vinna. Þema keppninnar var tækni, þannig að skipuleggjendur voru líka meðvitaðir um að breytinga væri þörf. Tekið skal fram að þetta er á bernskuárum internetsins.
Eitt af því sem var prófað í fyrsta sinn þarna var símakosning og voru fimm lönd sem nýttu sér hana. Árið eftir voru öll lönd með símakosningu. Ef Palli hefði verið á undan hinni austurrísku Bettinu Soriat í röðinni hefði hann verði fyrsti söngvarinn í Eurovision til að nota handfrjálsan hljóðnema í Eurovision en hann tók allavega þátt í þeirri byltingu. Við þetta má síðan bæta að fyrsta myndatakan úr lofti í Eurovision er við hinsta dansinn. Eins og margir muna var þetta atriði bylting í Eurovision yfir höfuð. Fleiri breytingar urðu einnig í kjölfarið, tungumálareglan var afnumin, sinfóníuhljómsveitin hætti og teknar voru upp forkeppnir. Palli endaði í 20. sæti og fékk stig frá 4 af 5 af þeim þjóðum sem voru með símakosningu. Hann sagði þetta eina af betri vikum lífs hans og hagaði sér eins og hann hefði unnið keppnina við heimkomu. Eftir þetta hefur oft verið talað um „að taka Pál Óskar á þetta“, það er þegar einbeitt er á hið jákvæða.
Árið eftir var Ísland ekki með í Eurovision en Palli kynnti keppnina beint frá Birmingham á Englandi. Og talandi um að hafa bylt keppninni, þá vann Dana International frá Ísrael með lagið Diva og ekki erfitt að sjá fyrir sér að Palli hafi rutt brautina fyrir hana. Hann hélt að sjálfsögðu með henni og fór ekki leynt með það í lýsingunni, sem var virkilega skemmtileg.
Palla hefur alltaf þótt vænt um Eurovision og er í raun mikill aðdáandi keppninnar. Hann hefur oft komið að Söngvakeppninni eftir þetta og auk þess hefur hann haldið Eurovisionböll reglulega frá árinu 2003. Hann hefur nokkrum sinnum verið kynnir á Söngvakeppninni. Fyrst árið 2008, en þá átti hann einmitt enska textann við lagið sem vann, This is my Life ásamt Peter Fenner. Palli var svo kynnir á keppninni næstu ár á eftir, 2009, 2011 og 2012. Hann var líka í opnunaratriði Söngvakeppninnar árið 2010 í Eurovisionsyrpu ásamt Friðriki Ómari, Regínu Ósk og Selmu Björns.
Árið 2016 voru liðin 30 ár frá því að Ísland tók fyrst þátt í Eurovision. Þá byrjaði Söngvakeppnin á stóru opnunaratriði þar sem flest lögin sem keppt höfðu fyrir Íslands hönd í Eurovision voru flutt. Páll Óskar tók að sjálfsögðu þátt í því með sinn hinsta dans. Sama ár gerði Palli lagið Við vinnum þetta fyrirfram sem fjallaði um Eurovisionþátttöku Íslands í gegnum árin. Lagið samdi hann í samstarfi við Little Boots og Sigga Sigtryggs.
Ristjórn FÁSES.is sendi Palla glimmerafmæliskveðjur í tilefni dagsins.