Serbneskur fellibylur skellur á Hollandi


Áfram höldum við að fara yfir framlögin í Eurovision 2020, hvernig sem hlutirnir fara, og nú er komið að mekka Balkanballöðunnar, Serbíu.

Serbar slógu met Úkraínu yfir sigra í Eurovision í sem fæstum tilraunum, en þeir komu, sáu og sigruðu sælla minninga árið 2007, þegar þeir tóku þátt í fyrsta skipti sem sjálfstæð þjóð. Marija Serifovic söng sig inn í hjörtu Evrópubúa nú og um alla eilífð með laginu “Molitva“, sem er orðið eitt af ástsælustu og vinsælustu sigurlögum seinni tíma. Og síðan þá hafa Serbar verið nokkuð öflugir í keppninni og hafa oftar en ekki verið með í aðalkeppninni, þrátt fyrir eitt og eitt feilskot inn á milli.

Í fyrra var það söngkonan Nevena (og hægri fótleggur hennar) sem komu Serbum í aðalkeppnina, en Nevena var einmitt hluti stúlknatríósins Moje 3, sem mistókst að koma Serbíu í aðalkeppnina 2013, en urðu þess í stað uppáhald fjölmargra aðdáenda, sem virtust alveg vera að kaupa hugmyndina um seinni tíma Spice Girls útgáfu á serbnesku. Og nú ætla Serbar aftur að veðja á kvennatríó, því sveitin Hurricane og lagið “Hasta la Vista”, ætla að freista þess að landa öðrum serbneskum sigri. Lagið er nokkurskonar dans/teknó með rokkívafi og textinn fjallar um hina sterku konu sem finnur kjarkinn til að segja bless við ömurlegt samband og gæja sem kann ekki að meta hana. Fílum alltaf svoleiðis!

Það poppaði nú upp kunnulegt andlit þegar Hurricane steig á svið í úrslitum Beovizija 2020 sem fram fóru í Belgrad þann 28 febrúar síðastliðinn en forsöngkona sveitarinnar er Sanja nokkur Vucic. Sú fór alveg á límingunum í Stokkhólmi 2016, í túlkun sinni á “Goodbye” (Shelter), sem skilaði að vísu Serbum upp í aðalkeppnina, en náði einungis í 18. sætið þegar þangað var komið. Sanja ætlar svo sannarlega að gera betur núna og sér til halds og trausts hefur hún þær Ivönu Nicolic og Kseniju Knezevic en saman mynda þær tríóið Hurricane sem hefur verið starfandi síðan 2017.

Tólf lög kepptu til úrslita í Beovizija 2020 og það var nokkuð ljóst frá upphafi að Hurricane og “Hasta la Vista” voru að fara að gjörsigra keppnina. Þær unnu bæði dómnefndarkosninguna og símakosninguna og nokkuð ljóst að serbneska þjóðin var algjörlega á þeirra bandi. Á sviðinu voru stúlkurnar með tvo dansara sér til aðstoðar, en nýlega var tilkynnt að dansararnir fengju ekki að fara með til Rotterdam, en þess í stað færu tveir bakraddasöngvarar með. Annar þeirra ætti nú að vera nokkuð kunnulegur, en þar er á ferðinni, þriðja árið í röð, söngvarinn Mladen Lukic, sem leiddi hina dásamlegu sveit Balkanaika í Lissabon, og var einnig í bakröddum fyrir Nevenu í fyrra.

Það er því serbneskur kvenfellibylur með taktfast danslag um sjálfstyrkingu, sem mætir (vonandi) til Rotterdam og stígur á svið í seinni undanúrslitunum þann 14. maí næstkomandi. Hvala Srbija.