FÁSES hitar upp fyrir Melodifestivalen

Melodifestivalen

Hvað þarftu bráðnauðsynlega að vita um Melodifestivalen og hvað þarftu alls ekki að vita en er rosalega gaman að vita?

Melodifestivalen er stundum kallað Melló eða Melfest.

Fjórar undankeppnir voru haldnar víðsvegar um landið, í Linköping, Gautaborg, Luleå og Malmö. Tvö lög fóru beint áfram í úrslit úr hverri undankeppni en tvö lög úr hverri undankeppni fengu annað tækifæri til að komast áfram í úrslitin í sérstökum Andra chansen þætti. Átta lög mættust þar í fjórum einvígum í Eskilstuna og fóru því fjögur lög þaðan áfram í úrslit. Ekki er öll von úti fyrir þau lög þó þau hafi ekki farið beint í úrslit, því lagið You, sem vann Melodifestivalen árið 2013 fór þessa krókaleið í úrslitin. Alls eru því 12 lög í úrslitum Melodifestivalen.

30.000 manns komast fyrir í Friends Arena í Stokkhólmi, þar sem úrslitin fara fram en til viðmiðunar komast einungis 16.000 manns fyrir í Globen, þar sem úrslit Eurovision fóru fram árið 2016. Melodifestivalen er svo vinsæl í Svíþjóð að meira áhorf er á allar undankeppnirnar og úrslit keppninnar heldur en á Eurovision sjálfa.

Kosið er í gegnum app og með símakosningu, sem gildir til helminga á móti alþjóðlegri dómnefnd. Ísland er í þriðja skipti hluti af alþjóðlegu dómnefndunum en auk Íslands eru það Ástralía, Armenía, Austurríki, Frakkland, Ísrael, Malta og sigurvegari Eurovision í fyrra, Holland.

Hægt er að kjósa allt að fimm sinnum ókeypis í gegnum appið. Í vinstra horni skjásins á meðan lag er flutt er hjarta en hjartsláttur þess gefur til kynna hversu oft lagið er kosið, þ.e. hægur hjartsláttur þýðir að ekki margir kjósa lagið með appinu en hraður hjartsláttur þýðir að margir eru að kjósa það.

Svíar gefa upp tvö símanúmer til að kjósa hvert lag. Hærra gjald er borgað fyrir annað símanúmerið en mismunurinn fer til góðgerðarmála.

Kynnar keppninnar verða í stóru hlutverki eins og venjulega en í ár eru það Lina Hedlund, David Sundin og Linnea Henriksson. Lina Hedlund er söngkona og hefur tekið þátt í Melodifestivalen bæði ein og með hinni geysivinsælu hljómsveit Alcazar. David er sjónvarpsmaður og grínisti og Linnea er söngkona og lagahöfundur sem tók þátt í Idol árið 2010. Við megum búast við glæsilegum atriðum frá þessu tríói.

Fyrstur til að stíga á stokk á laugardaginn er Victor Crone með lagið Troubled Waters. Hann söng lagið Storm fyrir Eistland í Eurovision í fyrra og lenti í 20. sæti í úrslitum. Hann bjó lengi í Nashville og samdi meðal annars lög með Diane Warren, Desmond Child og Eric Bazilian. Victor tók þátt í Melodifestivalen árið 2015, þar sem hann tapaði í einvígi við hina geysivinsælu Samir&Victor í öðru tækifæri. Lagið Troubled Waters þykir minna nokkuð á lag hans, Storm, frá í fyrra og lag James Bay, Hold back the River.

Annar á svið er Paul Rey, með lagið Talking in My Sleep sem er einn þeirra fjögurra sem fóru krókaleið í úrslitin. Hann vann einvígi gegn Malou Prytz, sem kom mörgum á óvart. Paul Rey gaf út plötuna Good As Hell í Bandaríkjunum árið 2015, sem varð til þess að Quincy Jones tók hann undir sinn verndarvæng. Sama ár hitaði hann upp fyrir Fifth Harmony á tónleikaferðalagi. Árið 2017 gaf hann svo út lagið California Dreaming með Arnan Cekin og Snoop Dogg.

The Mamas eru þriðju á svið og syngja lagið Move. Þær slógu í gegn sem bakraddasöngkonur fyrir John Lundvik í Melodifestivalen og Eurovision í fyrra. Þá söng Paris Renita með þeim en hún yfirgaf hópinn eftir þátttökuna í Eurovision. Nú er komið að þeim að vera í aðalhlutverki.

Fjórði er Mohombi með lagið Winners. Hann tók þátt í Melodifestivalen með lagið Hello í fyrra. Mohombi er einna þekktastur fyrir lögin Bumpy Ride og Coconut Tree, en Nicole Scherzinger söng í því síðarnefnda. Zumba-grúppíur Flosa formanns FÁSES eru einmitt ekki ókunnugar þessum lögum.

Mohombi tók þátt í Melodifestivalen árið 2005 með hljómsveit sinni Avalon, sem spilaði hip-hop með afrískum takti. Hann hefur unnið með Nelly, Akon og Pitbull og svo Stellu Mwangi, sem söng lagið Haba haba fyrir Noreg í Eurovision árið 2011. Hann vann til Grammy og Billboard-verðlauna fyrir plötu sína með Pitbull og var tilnefndur til fjölda annarra verðlauna. Hann er nýkominn frá Kongó, þangað sem hann á ættir sínar að rekja. Þar smitaðist hann af malaríu og er nú nýkominn aftur á fætur eftir veikindin.

Hanna Ferm er fimmta á svið og syngur lagið Brave. Hún komst í undanúrslit í hæfileikakeppninni Talang Sverige árið 2014 og lenti í öðru sæti í Idol-keppninni í Svíþjóð árið 2017. Hún snéri aftur í keppnina árið eftir til að syngja dúett með hinum íslensk-sænska Arnari Braga Bergssyni, sem var þá keppandi í Idol

Í fyrra tók Hanna svo fyrst þátt í Melodifestivalen með LIAMOO, þar sem þau lentu í þriðja sæti með lagið Hold You.

Þá er röðin komin að Méndez og Alvaro Estrella, sem syngja lagið Vamos Amigos. Méndez er af chileskum uppruna. Hann gekk í gengi og var smáglæpamaður áður en hann snéri við blaðinu og gerðist plötusnúður. Méndez hefur fengið verðlaun á latínsku MTV VMA og evrópsku MTV-verðlaununum. Hann náði öðru sæti í Melodifestivalen árið 2002, með laginu Adrenaline og komst í úrslit í Melodifestivalen árið 2018 með laginu Everyday. Alvaro Estrella er einnig af chileskum uppruna og er söngvari og dansari. Hann tók þátt í Melodifestivalen árið 2014, með laginu Bedroom en komst ekki upp úr undankeppninni sem hann tók þátt í. Méndez og Alvaro Estrella unnu Drängarna í einvígi í öðru tækifæri.

Dotter stígur svo á svið með laginu Bulletproof. Johanna Maria Jansson tók sér sviðsnafnið Dotter, því hún er vegan og lítur á sig sem dóttur móður jarðar. Hún er einn höfunda lagsins A million years sem Mariette söng í Melodifestivalen árið 2017 og tók sjálf þátt árið 2018 með laginu Cry en komst ekki upp úr undankeppninni. Þegar greinin er skrifuð er hún líklegust til að vinna Melodifestivalen samkvæmt veðbönkum.

Robin Bengtsson syngur lagið Take a chance. Hann er ekki einungis Íslandsvinur (sem trúlofaði sig á landinu), heldur FÁSES-vinur, því hann mætti og heilsaði upp á FÁSES-liða í forpartýi Söngvakeppninnar árið 2018. Í söngvakeppninni flutti hann lagið sem hann vann Melodifestivalen 2017 með, I can’t go on. Hann hafði lent í þriðja sæti í Idol árið 2008 og í öðru sæti í skandinavískri útgáfu sjónvarpsins Wipeout árið 2010. Árið 2016 lenti hann í fimmta sæti í Melodifestivalen með laginu Constellation Prize.

Lagið Shout it Out er flutt af Mariette. Hún tók þátt í Idol árið 2009 og fór í tónleikaferðalag árið 2014 með Ace Wilder, sem er aðdáendum Melodifestivalen að góðu kunn en hún hafði lent í öðru sæti í keppninni það ár. Mariette tók fyrst þátt í Melodifestivalen árið 2015, með laginu Don’t Stop Believing og lenti í þriðja sæti. Hún lenti í fjórða sæti árið 2017, með lagið A Million Years og í fimmta sæti árið 2018, með lagð For You.

Felix Sandman syngur lagið Boys With Emotions og er tíundi á svið. Hann vann Fridu Öhrn í einvígi í öðru tækifæri en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann kemur þá leið inn í úrslit Melodifestivalen. Árið 2018 fór hann þessa krókaleið með lagið Every Single Day sem varð geysivinsælt í Svíþjóð en hann tapaði naumlega fyrir vini sínum Benjamin Ingrosso í Melodifestivalen. Hann hafði áður tekið þátt í Melodifestivalen árið 2017, með strákabandinu FO&O, sem söng lagið Gotta Thing About You, sem lenti í 11. sæti í úrslitum. Felix hefur líka verið að hasla sér völl sem leikari og er hægt að sjá hann í norsku Netflix-þáttaröðinni Hjem til Jul og sænsku Netflix-seríunni Quicksand.

Anna Bergendahl syngur lagið Kingdom Come. Hún tók þátt í Idol árið 2008, sama ár og Robin Bengtsson. Hún vann Melodifestivalen árið 2010 og fór í Eurovision með lagið This is My Life. Hún lenti í 11. sæti í undankeppninni og var það í fyrsta skipti sem Svíar komust ekki í úrslit. Einungins munaði 5 stigum á laginu í 10. og 11. sæti. Hún snéri aftur í Melodifestivalen í fyrra með lagið Ashes to Ashes. Lagið Kingdom Come er mjög vinsælt meðal aðdáenda og er sem stendur í öðru sæti veðbanka.

Anis Don Demina stígur seinastur á stokk með stuðlagið Vem e som os, sem er eina lag úrslitanna á sænsku. Hann þurfti að fara krókaleið í úrslitin og vann Ellen Benediktsson og Simon Peyron í einvígi. Faðir hans, sem er írakskur, flúði Íraksflóastríðið til Rússlands, þar sem hann hitti hina hvítrússnesku móður Anis. Þau fóru til Svíþjóðar í brúðkaupsferð og ákváðu að setjast þar að. Anis spilaði á saxófón í hinu gríðarvinsæla lagi Samir & Victor, Shuffla í Melodifestivalen árið 2018 og kom einnig fram í lagi þeirra Put Your Hands Up för Sverige, sem var stuðningslag sænska karlalandsliðsins í fótbolta á HM 2018. Árið 2019 ákvað hann að spreyta sig sjálfur í Melodifestivalen, þar sem hann og Zeana sungu lagið Mina bränder en þau komust ekki upp úr undankeppninni.

Nokkur atriði vöktu gríðarmikla athygli í Melodifestivalen í ár. Harðir aðdáendur Melodifestivalen urðu brjálaðir þegar goðsögnin Nanne Grönvall komst ekki upp úr undankeppninni með lag sitt Carpool Karaoke. Nanne söng og flutti lag sitt Den Vilda með hljómsveit sinni One More Time í Eurovision árið 1996 en Eivör hefur sungið það sem jólalagið Dansaðu vindur. Nanne lenti í öðru sæti árið 2005 með lagið Håll om mig og hefur tekið þátt í Melodifestivalen 13 sinnum, sem söngkona og/eða lagahöfundur. Lagið Carpool Karaoke náði athygli James Corden, sem fjallaði um lagið í þætti sínum:

Söngkonan Malou Prytz tók þátt í annað skipti og þótti líkleg til að komast í úrslit en söngkonurnar Isa og Ace Wilder, sem hafa báðar tekið þátt í Melodifestivalen voru í bakröddum í lagi hennar og Ace var ein þeirra sem sá um sviðsetningu lagsins. Malou var ein þeirra sem tók Daða okkar upp á sína arma og hér fyrir neðan má sjá Malou dansa Daða-dansinn með dansaranum sínum.

Linda Bengtzing komst ekki áfram með lagið Alla mina sorger en hún var að taka þátt í Melodifestivalen í sjöunda skipti. Einna þekktust eru lögin hennar Alla flickor og Jäg ljuger så bra.

Thorsten Flinck átti að syngja lagið Miraklernas tid en var vikið úr keppni þegar í ljós kom að fyrir dómstólum var mál til meðferðar þar sem hann var ákærður fyrir hótanir og skemmdarverk. Söngvarinn Jan Johansson tók að sér að syngja lagið en hann er þekktastur fyrir að hafa sungið lagið Se på mig í Eurovision árið 1995. Jan hafði ekki langan tíma til að æfa lagið og komst ekki áfram.

Sacha Jean-Baptiste, sem er ein af þeim sem sér um alla kóreógrafíu í Melló í ár er með mjög flotta Eurovision-ferilsskrá. Hún var m.a. danshöfundur Loreen í Euphoria, Ivetu Mukuchyan í LoveWave, Eleni Foureira í Fuego og Luca Hänni í She got me.

Fjórir dansarar eru hluti af svokölluðum húsdönsurum Melodifestivalen. Þeir standa öllum listamönnum til boða sem keppa en einnig geta listamennirnir notað eigin dansara. Húsdansararnir taka svo einnig þátt í upphafsatriðum og skemmtiatriðum í keppninni. Edin Jusuframic gladdi marga aðdáendur með því að snúa aftur sem húsdansari og hefur nú jafnað met Thomas Benstem, því hann er húsdansari í fimmta skipti.

Til að kjósa með appinu þarf að gefa upp fæðingarárið sitt og skiptir SVT því atkvæðunum í sjö hópa eftir aldri. Hver hópur gefur svo atkvæði eftir Eurovision-stigakerfinu, 1,2,3,4,5,6,7,8,10 og 12 stig. Áttundi hópurinn var svo símakosningin sjálf, sem gaf líka atkvæði eftir Eurovision-stigakerfinu. Ástæðan fyrir því að SVT skiptir kosningunni upp eftir aldri í gegnum appið er sú að eldri kjósendur notuðu frekar símakosningu til að kjósa og þótti vægi yngri kjósenda þess vegna vera of mikið með appinu. SMS-kosningin var síðan aflögð eftir keppni ársins 2018, vegna lítillar notkunar.

Melodifestivalen verður sýnd annað kvöld kl. 19.45 á RÚV og munu Laufey Helga Guðmundsdóttir og Steinunn Björk Bragadóttir lýsa keppninni.