Dobro veče Opatija! Króatíska þjóðin kaus Damir Kedzo og “Divlji Vjetre” til sigurs í Dora 2020.


Það er búið að vera fremur dapurt yfir gengi Króatíu undanfarin ár. Seinast mörðu þeir það upp úr undankeppninni þegar tvískipti persónuleikinn Jacques Houdek fór í dúett við sjálfan sig í Kænugarði 2017. Hann gerði svo sem ekki gott mót eftir að í aðalkeppnina var komið. Króatar eru búnir að vera með í Eurovision sem sjálfstætt ríki síðan 1993 og hafa hæst komist í 4. sætið, en það gerðu þeir bæði árið 1996, þegar söngkonan Maja Blagdan gargaði sig þangað í Osló, og svo aftur árið 1999, þegar Doris Dragovic söng aðdáunaróð til Mariu Magdalenu, sælla minninga. Hinsvegar hefur fyrsta sætið látið bíða eftir sér, þó tæknilega megi segja að Króatar hafi unnið keppnina 1989, þegar hljómsveitin Riva tók fyrsta sætið fyrir hönd þáverandi Júgóslavíu, en sveitin sú átti rætur sínar að rekja eingöngu og alfarið til Zagreb-hrepps.

Sú breyting varð á Dora í ár, að í stað þess að halda úrslitakvöldið í höfuðborginni Zagreb, tók króatíska sjónvarpið nettan Noreg á þetta og fór lokakeppnin fram í Opatija, sem er fallegur strandbær um 170 km norðan af Zagreb. Þegar leið á æsispennandi stigagjöf kvöldsins var nokkuð ljóst að króatíska þjóðin var hrifnust af þeim Damir Kedzo og Miu Negovetic. Er stig dómnefndar höfðu verið talin var Mia í efsta sæti með 16 en Damir fylgdi fast á eftir með 15 stig. Hann hafði síðan betur en Mia í símakosningunni og samanlagt voru þau jöfn að stigum eftir að talningu lauk. Þar sem Damir hafði unnið símakosninguna var hann krýndur sigurvegari Dora 2020. Hann mun því mæta stoltur til Rotterdam með ballöðuna “Divlji Vjetre” eða Villtir Vindar, einsog það myndi útleggjast á ástkæra ylhýra.

Það var ekki alveg dramafrítt þetta árið í Dora 2020 þó svo dramað væri fremur lítið á júrómælikvarða. Það fór tilhlökkunarbylgja um aðdáendur þegar heyrðist að fyrrum Júrótröllið Goran Karan ætlaði að vera með lag og flutning í keppninni. Hann keppti eftirminnilega í Stokkhólmi árið 2000 með hið gullfallega lag “Kada zazpu andeli” og uppskar 9. sætið í kjölfarið. Þegar á hólminn var komið, dró hann sig úr keppni og reyndist ástæðan vera sú að lagið hans “My legacy is love” hafði verið gefið út aðeins á undan áætlun. Því urðu aðdáendur af því tækifæri að berja goðið aftur augum, allavega í tengslum við Eurovision og þótti ansi mörgum það miður…(ha? Nei, ég er EKKI að grenja! ÞIÐ eruð að grenja!) Bönnvítans klaufaskapur var það nú samt að brenna svona af í dauðafæri. Fussumsvei.

Damir Kedzo er fæddur í bænum Omisalj árið 1987 og er því rétt að skríða í 33ja aldursárið þegar þetta er skrifað. Hann hefur lengst af sérhæft sig í popptónlist og átt góðu gengi að fagna í heimalandinu. Hann kom fyrst fyrir sjónir almennings í hæfileikakeppninni Story Supernova Music Talents og heillaði þar mann og annan með útgeislun, hæfileikum og almennilegheitum, þrátt fyrir að hafa ekki unnið keppnina sjálfa. En boltinn var byrjaður að rúlla og samkvæmt wikipedia-síðu Damirs, gaf hann krefjandi nám sitt í kvensjúkdómalækningum (?!) upp á bátinn til að einbeita sér alfarið að tónlistinni. Damir sjálfur segir að það hafi nú ekki verið gefins að fara út í tónlist. Sem unglingur þurfti hann að gangast undir erfiða aðgerð á kjálka þar sem hann átti erfitt með framburð orða, beitingu raddar og jafnvel að nærast. Hann gat ekki talað í margar vikur eftir aðgerðina og óljóst var um tíma hvort að rödd hans kæmi aftur að fullu. En sem betur fer er Damir svona slavneskur nagli og náði sér fullkomlega þótt það tæki langan tíma. Og nú lætur hann áralangan draum rætast og keppir fyrir hönd þjóðar sinnar í Eurovision og nær vonandi að binda enda á þurrkatímabilið þar á bæ.