Það er ekkert að marka þessa veðbanka!


“Það er ekkert að marka þessa veðbanka. Okkur er nú alltaf spáð góðu gengi á hverju ári.”

Nú þegar Ísland trónir á toppi veðbankanna með hæstu vinningslíkur, sem íslenskt lag hefur nokkru sinni haft, er vinsælt meðal almennings að slengja fram yfirlýsingum eins og þeirri hér að ofan. Hvort þetta er einhver tilraun þjóðarsálarinnar til væntingastjórnunar skal ósagt látið en FÁSES lagðist í mikla rannsóknarvinnu við að kanna hvort slíkar yfirlýsingar ættu við einhver rök að styðjast. Svarið er einfalt. Nei. Nei, nei, nei! Og hvernig komumst við að þeirri niðurstöðu? Skoðum það aðeins nánar. (Hafa ber í huga að nokkuð erfitt er að grafa upp veðbankaheimildir langt aftur í tímann og því verður að einhverju leyti stuðst við minni greinarhöfundar sem er stjórnmálafræðingur með gott minni og óheilbrigðan áhuga á tölfræði og veðbankaspám.)

Í fyrra, fyrir úrslit Söngvakeppninnar, var Ísland nokkuð hátt skrifað og rokkaði á bilinu 10.-15. sæti í samanlögðum veðbankaspám. Strax eftir að ljóst varð að Hatari yrði okkar fulltrúi rukum við upp í 7. sæti, aðeins klukkutíma eftir keppnina. Dagana á eftir hækkuðum við upp í 4.-5. sæti og sigum svo aðeins niður fram að keppni. Undir það síðasta sátum við í 9. sæti með 2% vinningslíkur og enduðum í 10. sæti í keppninni. Nokkuð nákvæm spá. Um leið og hollenska lagið Arcade kom út virtust veðbankar líka vera sammála um að þar væri sigurlag á ferð. Og hvert erum við að fara í ár? Jú jú, Hollands! Veðbankar voru með 9 af 10 löndum á topp 10.

Árið 2018 var ekki okkar ár í Eurovision. Veðbankar voru á einu máli um það frá fyrsta degi. Við sátum kyrfilega tjóðruð við botninn með tölfræðina fullkomlega á móti okkur og veðbankarnir höfðu svo sannarlega rétt fyrir sér því við enduðum í neðsta sæti í okkar undankeppni með heil 15 stig, einmitt þar sem veðbankar höfðu reiknað með okkur. Og ef það var eitthvað sem veðbankar voru meira sammála um en ömurlegt gengi Íslands þá var það frábært gengi Ísraels. Netta sat lengst af í 1. sæti en féll stundum tímabundið niður í 2. eða 3. sætið eftir því sem nær dró keppni. Á lokasprettinum rauk Kýpur upp og stal 1. sætinu nánast korteri fyrir keppni. Af löndunum á topp 10 voru veðbankarnir þó aðeins með 5 lönd en spáin fyrir þessi 5 lönd (Ísrael, Kýpur, Þýskaland, Estland og Svíþjóð) var þó mjög nálægt raunverulegum úrslitum.

Færum okkur þá aftur til ársins 2017. Það var árið sem veðbankar voru gjörsamlega rauðglóandi í 2 mánuði fram að keppni. Og nei, það var ekki út af Íslandi. Ítalinn viðkunnanlegi, Francesco Gabbani, tók internetið með stormi, rakaði inn tugum milljóna í áhorfi á Youtube og Eurovision virtist stefna beina leið á fyrsta farrými til Ítalíu. Eða allt þar til Portúgal og Búlgaría kynntu sín lög. Francesco hélt þó toppsætinu alveg þar til stuttu fyrir keppni þegar Salvador Sobral tyllti sér á toppinn. Þegar veðbönkum var lokað á keppnisdegi var Búlgaría í fyrsta sæti samanlagt yfir stærstu veðbankana, hársbreidd á undan Portúgal en Ítalir og Belgar fylgdu á eftir þeim með talsvert lakari tölfræði. Veðbankar voru með 7 af 10 löndum á topp 10 og Ísland daðraði við botninn með innan við 1% líkur á sigri. Fyrir fyrri undankeppnina var Íslandi spáð 15. sæti og þar enduðum við einmitt, í 15. sæti með 60 stig, langt frá úrslitunum.

Og þá að árinu 2016. Í Stokkhólmi, skömmu eftir að tilkynnt var um þau 10 lönd sem komust í úrslit úr fyrri undankeppninni þann 10. maí, mátti sjá vonsvikna aðdáendur íslenska lagsins með svart kögur í eftirdragi. Veðbankar höfðu gert ráð fyrir að Ísland kæmist nokkuð örugglega í úrslit en þar brást þeim bogalistin. En ef við lítum á topp 10 þá voru þeir mjög nálægt raunverulegum úrslitum með 7 af 10 löndum. Og þótt Íslandi hefði verið spáð áfram upp úr undankeppninni þá var engin spá sem gaf til kynna að Ísland ætti möguleika á topp 10. Eins og svo oft áður voru sigurlíkur Íslands innan við 1%.

Árið 2015 stóð baráttan milli fjögurra sykursætra karlmanna, ítölsku þremenninganna í Il Volo og hins sænska Måns Zelmerlöw, ásamt Polinu Gagarinu frá Rússlandi. Veðbankar voru sammála um það. Þeir voru líka alveg sammála um að Ísland ætti litlar sem engar líkur á sigri og fyrir seinni undankeppnina var Íslandi naumlega spáð áfram með 9. sæti. En það sem merkilegast er, veðbankar voru nákvæmlega upp á hár sammála samanlögðum niðurstöðum kjósenda og dómnefnda um efstu 5 sætin; Svíþjóð, Rússland, Ítalíu, Belgíu og Ástralíu. Norðmönnum var spáð 8. sæti sem varð raunin og Lettlandi, Eistlandi, Ísrael og Serbíu var spáð 6.-10. sæti sem var líka raunin. Sem sagt, 10 af 10.

Við getum haldið svona áfram og mynstrið er mjög skýrt: spár veðbanka eru í mjög miklu samræmi við niðurstöður keppninnar. Það eru helst óvænt spútnik atriði sem geta skekkt myndina aðeins eins og þegar hinn viðkunnanlegi Michał Szpak frá Póllandi kom, sá og lenti í 3. sæti í símakosningunni 2016 eftir að hafa fengið heil 7 stig frá dómnefndunum. Fyrir þá sem ekki eru enn sannfærðir um forspárgildi veðbankanna má nefna eftirfarandi:

2014: Veðbankar spáðu Armeníu, Austurríki, Hollandi og Svíþjóð í efstu 4 sætin. Pollapönk komst nokkuð óvænt í úrslit, eitthvað sem veðbankar höfðu ekki séð fyrir (og Pollapönkarar ekki heldur ef marka má viðbrögðin).
2013: Veðbankar spáðu Dönum sigri og Rússum og Norðmönnum á topp 5.
2012: Veðbankar spáðu Svíum sigri og Rússum og Serbum á topp 4.

Íslandi hefur áður verið spáð sigri. Gleðibanka-heilkennið varð ekki til upp úr engu. 23. apríl árið 1986 birtist í fjölmiðlum spá breska útgáfufyrirtækisins EMI þar sem Gleðibankanum var spáð 1.-2. sæti. Svo öruggir voru forsvarsmenn EMI í spá sinni að þeir hikuðu ekki við að gera útgáfusamning upp á 250.000 eintök. Árið 1999 var Íslandi aftur spáð sigri, enda full ástæða til. Internetið var þá enn með bleyju en þó voru til frumstæðar heimasíður sem birtu spár í nokkrar vikur fyrir keppni. Ísland rokkaði milli 1. og 2. sætisins í harðri baráttu við Svíþjóð, Kýpur og Holland. Við vitum öll hvernig það ævintýri endaði. Árið 2005 komst Ísland næst á toppinn og aðdáendur viðþolslausir af spennu við að sjá Selmu aftur í keppninni. Eitthvað klikkaði í væntingastjórnun þjóðarinnar og spárnar brugðust heiftarlega. Selma endaði í 16. sæti í undankeppninni og aðdáendur voru miður sín. Breskur aðdáandi var svo niðurbrotinn yfir úrslitunum að hún lét prenta á stuttermabol Selma should have won Eurovision 2005 og hefur eftir það mætt samviskusamlega á Eurovision í þessum bol.

En hvað með árið 2009? Jóhönnu Guðrúnu var ekki spáð neinu sérstöku gengi samkvæmt veðbönkum. Ísland rokkaði á milli 12.-15. sætisins í spám þeirra og fátt virtist benda til glæstra afreka. Og þó… blaðamenn sem fylgdust með æfingum í Moskvu féllu í stafi fyrir Jóhönnu Guðrúnu og spáðu henni 1. sæti fyrir undankeppnina. Eftir undankeppnina rukum við að sjálfsögðu upp veðbankana en þetta ár var þó öllum ljóst frá upphafi að ekkert gæti rutt Noregi úr fyrsta sæti. Þegar leið á stigagjöfina varð líka ljóst að mesta spennan var um hver myndi “vinna” 2. sætið.

Til þess að skilja forspárgildi veðbanka þarf að átta sig á því út á hvað þeir ganga. Hugmyndin er einföld: maður leggur pening undir það lag sem maður heldur að sigri. Ef margir veðja á sama lagið lækkar stuðullinn svo að veðbankinn fari ekki á hausinn þegar þarf að greiða út vinningana. Ef við viljum hafa áhrif á spár veðbanka þá getum við það með því að sameinast um að leggja mikinn pening á eitt lag. Veruleikafirring ásamt traustum fjárfestum geta því vel dregið úr forspárgildinu. Reyndar hafa veðbankarnir alltaf einhverja innri áhættustýringu til þess að lágmarka eigið tap en þessi áhættustýring getur líka smitast af straumnum. Segjum sem svo að milljarðamæringur í Fjarskanistan semji lag og verði fulltrúi Fjarskanistan í Eurovision. Milljarðamæringurinn þjáist af mikilli veruleikafirringu og er sannfærður um að lagið sé það besta sem eyru mannkyns hafa fengið að njóta. Hann leggur því aleiguna undir að hann muni sigra í Eurovision. Við það lækkar stuðullinn á laginu hans svo um munar. Aðrir gætu smitast af þessu og lagt undir lagið hans í blindri trú á veðbankastuðulinn. En þegar Eurovision klárast endar lagið frá Fjarskanistan í neðsta sæti og veðbankinn þarf ekki að greiða út eina einustu krónu og aleiga milljarðamæringsins er nú í eigu veðbankans. Ef lag með mjög háan stuðul endar á að sigra nýtist fjármagnið frá hinum veruleikafirrta milljarðamæringi til að greiða út óvenju háa upphæð til þeirra sem veðjuðu á lagið með háa stuðulinn. Fjarskanistan hefur reyndar aldrei keppt í Eurovision en sambærileg dæmi hafa þó komið upp hjá veðbönkunum. Árið 2003 var tyrkneska lagið með stuðulinn 1/200. Eurovision-aðdáandi nokkur spurði þjóðþekktan Íslending, sem staddur var í Riga, á hvað hann ætti að veðja og Íslendingurinn valdi tyrkneska lagið sem sat á botninum. Umræddur Eurovision-aðdáandi kom út í góðum plús eftir úrslitin.

Eins og staðan er núna eru greinilega hlutfallslega mun fleiri sem hafa lagt pening undir Think About Things heldur en önnur lög og það skýrir það þá yfirburði sem Daði hefur í veðbönkum núna. Ef marka má tölfræðina eru mun meiri líkur nú en áður að keppnin verði á Íslandi 2021 og hvernig sem fer í Rotterdam þá er okkur óhætt að vera rígmontin með þessar jákvæðu viðtökur. Leyfum Gleðibanka-heilkenninu að lifa og njótum þess að vera á toppi veðbankanna. Það gerist nefnilega alls ekki alltaf.