Óvæntur sigurvegari í Melodifestivalen 2020


Í gær var 60. útgáfan af Melodifestivalen haldin í Friends Arena í Stokkhólmi frammi fyrir um það bil 30 þúsund áhorfendum og 3,5 milljónum sjónvarpsáhorfenda. Þetta er svo sannarlega hápunkturinn í sjónvarpsdagskrá Svíanna því þeir eru trylltir í Mellóið sitt – meira að segja meira heldur en í Eurovision! Aðdragandi að þessari úrslitakeppni í gær var nokkur eins og einnig var rakið í undirbúningsfærslu á FÁSES.is. Svíar eru að sjálfsögðu þekktir fyrir að fara alla leið í þessum júróvisjón-efnum. Undankeppnirnar fyrir úrslitin voru alls fjórar ásamt einum andra chansen þætti, þar sem nokkur útvalin lög fengu annað tækifæri til að komast í úrslitakeppni. Þau voru því 28 lögin sem tóku þátt í Melodifestivalen í ár en 12 lög kepptu í úrslitunum um að vera Eurovision framlag Svíþjóðar 2020.

Kosningin í úrslitum Melló samanstendur af 50% dómarakosningu og 50% símakosningu. Í símakosningunni er hægt að kjósa bæði í gegnum símaapp og með því að hringja. Hægt er að velja um tvö simanúmer til að greiða atkvæði en hærra gjald fylgir öðru númerinu, en það skýrist af því að mismunurinn gengur til góðgerðamála og í ár rann það til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Til að kjósa með appinu þarf að gefa upp fæðingarárið sitt og skiptir SVT því atkvæðunum í sjö hópa eftir aldri. Áttundi hópurinn var svo símakosningin sjálf, sem gaf líka atkvæði eftir Eurovision-stigakerfinu. Alþjóðlegu dómnefndirnar voru síðan einnig átta og fimm dómnefndarmeðlimir í hverri. Ísland var í þriðja skipti hluti af alþjóðlegu dómnefndunum en auk Íslands voru það Ástralía, Armenía, Austurríki, Frakkland, Ísrael, Malta og sigurvegari Eurovision í fyrra, Holland. Reynt er að tryggja landfræðilega dreifingu dómnefnda til að líkja sem mest eftir dómnefndum Eurovision keppninnar sjálfrar.

Kynnarnir Linnea, David og Lina fóru á kostum. Mynd: Stijn Smulders.

Úrslit Melodifestivalen í ár voru heldur betur stjörnum prýdd. Allir nema einn keppenda höfðu áður stigið á Melló-sviðið, og meira að segja tveir þeirra verið fulltrúar Svía, árin 2010 og 2017. Nýliðinn í hópnum var Paul Rey með lagið Talking in my sleep. Eftir þétta og áfallalausa keyrslu í gegnum tólf úrslitalög var komið að því að tilkynna stig alþjóðlegu dómnefndarinnar. Dómnefndirnar höfðu fylgst með dómararennsli í Friends Arena á föstudagskvöld og greitt atkvæði. Leiðbeiningar til dómnefndarmeðlima voru einfaldar: Þær eiga einfaldlega að velja það atriði sem þau telja að fái bestu mögulegu niðurstöðu í Eurovision. Selma okkar Björnsdóttir kynntir stig íslensku dómnefndarinnar og í efstu þremur sætum hjá henni voru The Mamas, Anna Bergendahl og Dotter á toppnum. Það hlýtur að hafa glatt marga sjónvarpsáhorfendur að sjá Getty Kaspers sem kynnti stig hollensku dómnefndarinnar. Hún vann að sjálfsögðu Eurovision 1975 með Teach In og laginu Ding-A-Dong.

Svona leit staðan út eftir að alþjóðlegu dómnefndirnar höfðu gefið sín stig. Dotter með Bulletproof og The Mamas með Move voru hnífjöfn með 65 stig hvor. Þar sem Dotter fékk fleiri tíur frá dómnefndunum var hún sett efst en hún og The Mamas höfðu fengið jafnmargar tólfur.

Eftir að Babben Larsen, sænsk leikkona og grínisti, hafði tekið sænska útgáfu af Too Late For Love var komið að því að kynna hvernig atkvæði almennings höfðu fallið. Þau voru kynnt í öfugri röð eins og í Eurovision, þannig að það lag sem fékk fæst atkvæði dómnefnda fékk fyrst stig úr kosningu almennings. Eftir æsispennandi símakosningu var ljóst að The Mamas höfðu unnið Melodifestivalen 2020 með einu stigi á Dotter. Þetta verða að telja óvænt úrslit enda höfðu veðbankar spáð Dotter eða Önnu Bergendahl sigri. Framlag Svíþjóðar í Eurovision 2020 verður því Move. Svona leit lokastigataflan út og eru stig almennings merkt bleik:

Sigur The Mamas markar að mörgu leyti tímamót. Engin hefur unnið Melodifestivalen með svo litlum mun, einu stigi, síðan 1987. Svíar senda kvenkyns fulltrúa í Eurovision ár en það hefur ekki gerst síðan Sanna Nielsen vann Melodifestivalen 2014. The Mamas er enn fremur fyrsta sænska hljómsveitin til að keppa í Eurovision síðan The Ark keppti árið 2007 í Helsinki. Ein mammanna, Ashley Haynes, verður líka fyrsti sænski júró-þátttakandinn sem ekki hefur sænskan ríkisborgararétt. John Lundvik var svo ferlega hrærður eftir sigur The Mamas í gær þegar hann afhenti þeim verðlaunagripinn Söngfuglinn enda ber hann ábyrgð á að hafa myndað þennan litla kór fyrir atriðið sitt í fyrra, Too Late For Love.