FÁSES.is fékk senda grein frá Pálma Jóhannessyni um eftirminnilegt atvik úr Eurovisionsögu Íslands.
Eurovisionkeppnin, sem fór fram í Haag 19. apríl 1980, er mér ógleymanleg. Ekki af því að þá náði Johnny Logan fyrsta sætinu fyrir Íra með laginu „What’s Another Year“, né út af íslenska atriðinu, enda tóku Íslendingar fyrst þátt í keppninni sex árum síðar. Keppnin er mér svo eftirminnileg vegna afreks sem tengdist henni og starfinu sem ég gegndi þá.
Frá 1978-1987 var ég yfirþýðandi á Sjónvarpinu. Hlutverk yfirþýðanda var að ráða þýðendur að öllu erlendu efni Sjónvarpsins og fylgjast með þýðingunum. Fastur kjarni í þýðendahópnum voru 10-15 manns, afar skemmtilegt og fjölhæft fólk sem vann mörg afrek, við erfiðar aðstæður, þótt ekki færi hátt. Mesta afrekið þau ár sem ég vann þar var þó þýðingin á Eurovisionþættinum frá hollenska sjónvarpinu.
Þá, eins og nú, fór keppnin þannig fram að einn eða tveir kynnar buðu gott kvöld á móðurmáli sínu, kynntu síðan á ensku og frönsku fyrirkomulag keppninnar og síðan keppendur og lögin sem þeir fluttu. Handrit fylgdu aldrei þáttunum, en oftast listi með nöfnum þátttakenda og heiti laganna. Þýðendur fengu upptöku af þættinum á hljóðsnældu og þýddu „eftir eyranu“, sem kom sjaldnast að sök því upptökurnar voru skýrar og orðfærið ekki flókið. Það nægði að þýðandinn skildi vel ensku.
Í Sjónvarpinu var sú vinnuregla að setja efni ekki á dagskrá fyrr en filman eða myndbandið væru komin í hús. Oft var þó brugðið út af þessu og alltaf þegar um Eurovision var að ræða því glansinn fór vitanlega af keppninni því lengra sem leið frá því að hún var haldin. Beinar útsendingar hingað komu ekki til fyrr en síðar.
Keppnin laugardaginn 19. apríl í Haag var sett á dagskrá Sjónvarpsins laugardaginn viku síðar, 26. apríl. Með því var að sjálfsögðu teflt á tæpasta vað og ekkert mátti út af bera með flutning á myndefninu. Flugsamgöngur voru tregari í þá daga, ekkert beint flug frá Hollandi og hollenska sjónvarpið sendi myndbandið ekki af stað fyrr en á mánudag eða þriðjudag.
Myndbandið átti að koma til Keflavíkurflugvallar föstudagskvöldið fyrir útsendingu. Bílstjóri Sjónvarpsins fór sérstaka ferð þetta kvöld út á völl að sækja það og ég hafði beðið innanhússmann, Björn Baldursson, ritstjóra sjónvarpsdagskrárinnar, að sjá um þýðinguna. Hann var að sjálfsögðu öllum hnútum kunnugur á Sjónvarpinu, í góðu sambandi við tæknimennina og gat bjargað sér í öllum uppákomum.
Einhvern tíma að nálgast hálftólf þetta föstudagskvöld hringdi Björn svo til mín og sagði að illt væri í efni. Allar kynningar væru meiri að vöxtum en venjulega en það sem verra væri, hver þátttökuþjóð kynnti framlagið á sínu máli. Ekki nóg með að þarna væru töluð fáheyrð mál eins og gríska og tyrkneska, heldur kynntu Írar sitt lag á gelísku en ekki ensku. Til að toppa það þá tæki Marokkó þátt í keppninni í fyrsta skipti og þar talaði kynnirinn vitaskuld arabísku.
Tækjamennirnir voru að tækniskoða myndbandið og tóku það um leið upp á hljóðsnældu og ég bað Björn að hinkra við eftir upptökunni meðan ég athugaði hvað væri til ráða.
Þrír kostir voru í stöðunni og allir slæmir. Að sýna keppnina ótextaða með öllu sem myndi valda upphlaupi meðal áhorfenda. Að sýna keppnina textaða á þeim 4-5 málum sem Björn gat þýtt úr og reyna að finna einhverja sem gætu þá um nóttina tekist á við sem flest af hinum málunum og sýna þá sumt textað, annað ótextað en það hefði verið dálítið aulalegt. Þriðji kosturinn væri að fresta sýningu keppninnar um viku, sýna uppfyllingarefni á laugardagskvöldið en fá þá viku lengri tíma til að finna nokkra þýðendur sem hver gæti tekið eitt til tvö af hinum fjarlægari tungumálum. Þetta voru kostirnir sem yrði að leggja fyrir dagskrárstjóra og framkvæmdastjóra Sjónvarpsins þetta kvöld eða nótt.
Einn af þeim sem höfðu þýtt myndir fyrir sjónvarpið var Jón Gunnarsson, lektor í almennum málvísindum við Háskóla Íslands, feikilegur tungumálagarpur og sérstakur sómamaður. Einhver hafði sagt mér að hann kynni öll Evrópumálin með tölu. Því trúði ég ekki nema mátulega þótt Jón hefði reyndar þýtt myndir úr grísku, ungversku og slavneskum málum. Næsti liður á undan Eurovisionkeppninni þetta kvöld var einmitt dagskrá á sænsku og grísku sem Jón hafði þegar þýtt.
Það styttist í miðnætti þegar ég hringdi til Jóns, með hálfum huga. Hann svaraði í símann, afskaplega alúðlegur að vanda. Ég bar upp erindið, hvort hann hefði tök á að þýða kynningar í Eurovision þá um nóttina, eftir eyranu, úr milli tíu og tuttugu Evrópumálum, og skila þýðingunni um kaffileytið næsta dag. Hann var reiðubúinn til þess. Ég sagði Jóni að á upptökunni væri töluð gelíska… Jújú, hann kvaðst mundu ráða við það. Ég bætti við að raunar væri líka dálítið ávarp á arabísku og yrði þá bara að hafa það þótt sá kafli færi ótextaður út. Jón sagði þá, af mikilli hægð: „Ég fór á námskeið í arabísku í Svíþjóð fyrir nokkru og á alveg að klára mig af því.“ Ég hef sjaldan slitið símtali glaðari í bragði. Ég hringdi í Björn Baldursson og bað hann að senda hljóðsnælduna með leigubíl til Jóns.
Næsta dag, um hádegisbilið, ef ég man rétt, kom eiginkona Jóns, Margrét Jónsdóttir málfræðingur, með handritið í sjónvarpshúsið. Hún sagði mér að hún hefði borið bleksterkt kaffi og meðlæti í Jón alla nóttina, til að hann sofnaði ekki út af við þýðinguna sem hefði sóst allvel. Þegar kom að gelíska kaflanum hefði hann orðið að standa upp frá ritvélinni til að glugga í orðabók.
Textaritari á Sjónvarpinu sló þýðingu Jóns á pappírsrúllu, sem var notuð í útsendingum fyrir daga tölvunnar. Síðdegis, þegar Jón hafði náð að sofa fáeina klukkutíma, kom hann inn eftir í sjónvarpshúsið á Laugavegi í textaæfingu. Á textaæfingum bar þýðandi skjátextana saman við myndina og æfði sig í að birta þá á réttri sekúndu. Allir textar voru sendir handvirkt út á þessum árum. Þýðandinn var á staðnum á kvöldin og ýtti á takka til að láta textana birtast og hverfa í beinni útsendingu.
Sýningin á Eurovision þetta laugardagskvöld 26. apríl 1980 gekk snurðulaust og engan gat grunað hvað hafði gengið á og hvílíkt þrekvirki hafði verið unnið þarna um nóttina. Að vísu sá Jón í útsendingunni að hann hafði misheyrt heitið á dönsku hljómsveitinni Bamses venner og skrifaði Vamses venner, og þótti mjög miður!
Nítján þjóðir tóku þátt í Eurovision árið 1980. Mér telst svo til að Jón hafi þýtt úr fimmtán tungumálum, og ég endurtek, enn og aftur, eftir eyranu, sem er ólíkt taf- og vandasamara en þegar menn hafa handrit fyrir framan sig. Tungumálin voru þessi, í stafrófsröð: Arabíska, danska, enska, finnska, franska, gelíska, gríska, flæmska/hollenska, ítalska, norska, portúgalska, spænska, sænska, tyrkneska og þýska.
Jón safnaði tungumálum eins og aðrir frímerkjum og áður en lauk munu hafa verið í safninu nálægt fimmtíu mál sem hann las og talaði. Um það hef ég áreiðanlegar heimildir.
Að síðustu læt ég fylgja eina sögu af arabískunámi Jóns í Svíþjóð. Það leið að lokum námskeiðsins og prófin á næstu grösum þegar kennarinn bankaði upp á hjá honum og spurði hvort hann gæti gengið með sér í góða veðrinu og spjallað svolítið. Það var auðsótt mál. Þeir gengu góða stund um skógarstígana, ræddu á arabísku um málfræði og alla heima og geima. Þegar gönguferðinni lauk og hvor hélt til síns heima kvaddi kennarinn hann með þessum orðum: „Þú ert hér með búinn að ljúka prófinu.“ Jón þurfti víst ekki að kvarta undan einkunninni.
Jón var fæddur 1940 og lést 2013, hér má finna minningargreinar um hann í Morgunblaðinu.