Júró-Gróa vol II


Júró-Gróa er búin að vera pínulítið lítil í sér síðustu daga þar sem fylgst er með hverju fótspori hennar. En þá þýðir ekki annað en að herða sig með einni mímósu í morgunsárið og vaða í stóra úttekt úr gleðibankanum slúðurbankanum.

Gróa nýtti frídaginn í síðustu viku til að spóka sig um á ströndinni hér í Tel Aviv. Kella rakst á hinn rússneska Sergey á strandbarnum og tók einn drykk með honum. Að sjálfsögðu fylgdu með heillaráð Gróu sem bað Sergey aðeins um að tóna niður dramatíkina á Eurovision sviðinu. Á röltinu rakst Gróa einnig á Tom og Alexöndru frá Noregi á rafmagnshlaupahljóli, sem eru algeng hér í borg. Hinn hollenski Duncan Lawrence hafði það einnig notalegt í sólbaði á ströndinni en maður minn maðurinn hlýtur að nota sólarvörn nr. 50 svo fölur var hann!

Gróa hefur aðeins klórað sér í kollinum yfir öllum sendinefndunum sem hafa samband við fréttaritara FÁSES.is að fyrra bragði til að óska eftir viðtölum við flytjendur. Það hlýtur bara að vera að öll athyglin er fara til Hatara svo hinar sendinefndirnar neyðast til að beita örvæntingarfullum atriðum til að tryggja stöðu sína í keppninni.

Glæsileg móttaka í boði Ástrala.

Í ástralska sendiráðsboðinu í lok síðustu viku, þar sem Gróa var að sjálfsögðu á gestalista, var ekki einungis boðið upp á frábærar veitingar og opinn bar heldur þvílíkan stjörnufans að Gróa hefur bara sjaldan séð annað eins (eða þá að allir líta út eins og stjörnum í augum Gróu eftir nokkra gráa á barnum). John Lundvik frá Svíþjóð var hress á kantinum (kom á óvart hvað hann er lágvaxinn!). Darude og Sebastian frá Finnlandi héngu að sjálfsögðu á barnum og þar slóst hin danska Leonora í hópinn. Victor keppandi Eista (en hann er samt Svíi) naut töluverðrar athygli sem við botnum lítið í.

Gróa hefur notað dagana til að útbúa heilsubótargjafir til flytjenda sem eru að glíma við slappleika. Gróa er sko konan á bak við tjöldin! Mahmood frá Ítalíu var veikur fyrri hluta vikunnar og er bara á fullu að taka cold-flu. Honum veitir því ekkert af fjallagrasahálstöflunum, rabbabaramixtúru og jöklaaugnmaska. Portúgalski dansarinn er búinn að vera glíma við hnémeiðsli en Gróa sendi honum pensím til að liðka fyrir “death droppinu” sem hann tekur í atriðinu.

Júró-Gróa er smá afbrýðissöm út í suma blaðamenn hér í höllinni sem fengu “exclusive” gjöf hér í Tel Aviv frá rússensku sendinefndinni: Herrailm sem heitir Putin. Gróa veltir fyrir sér hvernig hann lykti…

Jon Ola Sand fylgdi íslensku sendinefndinni persónulega inn í höllina fyrir 2. æfingu Hatara hér í Expóhöllinni. Gróa veltir fyrir sér hvort hér spili inn heimsókn Jon Ola til Íslands á Söngvakeppnina í mars eða hvort Jon Ola sé líka í BDSM klúbbnum.

Meðal Íslendinga er skeggrætt hver verði stigakynnir Íslendinga í úrslitunum á laugardaginn. Júró-Gróa hefur stungið upp á Boga Ágústssyni í Hatara-búning en það hefur fallið í grýttan jarðveg!