Annar dagur æfinga í Tel Aviv


Þá eru fréttaritarar FÁSES.is búnir að koma sér fyrir í blaðamannahöllinni hér á öðrum degi. Það er ekki laust við að spennu sé farið að gæta í mannskapnum enda æfir Hatari kl. 13.40 á ísraelskum tíma en fyrst eru á dagskrá Belgía, Georgía og Ástralía.

Færslan verður uppfærð eftir því sem æfingum vindur fram í Expó höllinni.

Eliot frá Belgíu

Eliot frá Belgíu á fyrstu æfingu í Tel Aviv 5. maí 2019. Mynd: Thomas Hanses/Eurovision.tv

Eliot mætir á sviðið í einhvers konar þykkum  kimono jakka sem hreint út sagt lítur út eins og spennitreyja, aftur erum keppendur komnir á Hataravagninn. Á sviðinu með Eliot eru tveir trommarar sem spila á þrjár trommur. Að því leyti minnir atriðið á Írland 2013 og Ungverjaland 2016.  Á bolum trommaranna er V-fingramerkið og því ljóst að Eliot kemur í friði þó hann vilji berjast fyrir þig. Á sviðinu er eingöngu mjög einföld grafík sem verður eilítið leiðigjarnt. Eliot gengur ekkert of vel raddlega séð en verður betri eftir því sem rennslunum fjölgar.

Oto frá Georgíu

Oto frá Georgíu á æfingu í dag. Mynd: Thomas Hanses

Oto er í byrjun lagsins einn á sviðinu og grafíkin á sviðinu gæti haft yfirskriftina “Inspired by Iceland” eða komið beint úr Game of Thrones. Hann gengur eftir hengibrú sem birtist á sviðsgólfinu. Oto er mjög alvarlegur á svip og hræðir næstum úr manni líftóruna. Hann er greinilega búinn að æfa atriðið vel og nær hverjum tóni. Í lok lagsins kemur fimm manna karlakórinn fram á sviðið og grafíkin breytist í eldgos, hraun rennur og við fáum heilan helling af reyksprengjum. Í blálokin sýnir bakgrunnsgrafíkin tvær hendur að takast í hendur. Það má eflaust segja ýmislegt um gæði lagsins Keep on going en hér hafa menn greinilega unnið heimavinnuna sína hvað sviðsetninguna varðar.

Kate Miller-Heidke frá Ástralíu

Ástralía á æfingu í dag. Mynd: Thomas Hanses.

Það fer kliður um blaðamannahöllina þegar Kate birtist á sviðinu fyrir æfinguna í hvítum síðkjól með kórónu í anda Frelsisstyttunnar á höfðinu. Sitthvoru megin við hana eru svartklæddir dansarar. Þær eru allar á sveiflandi stöngum eins og við sáum í undankeppninni í Ástralíu. Með þessu fylgja tilkomumikil skjáhrif en það er eins þrenningin standi á hnetti. Myndatökumennirnir eiga greinilega í einhverjum vandræðum með að stjórna myndatöku þegar þrenningin sveiflast svona á stöngunum til hliðar. Það er því augljóst að þetta atriði hefur kostað sitt í framleiðslu. Lagið heitir Zero Gravity og að því leyti er þetta vel heppnað atriði því maður fær á tilfinninguna að þær hafi ekkert jafnvægi. Söngurinn hjá Kate gæti verið betri en engu að síður er mikið klappað í blaðamannahöllinni eftir fyrsta rennslið hennar í Expóhöllinni.

Hatari frá Ísland

Ísland á fyrstu æfingunni í Expo höllinni. Mynd: Thomas Hanses

Hatari er mættur til Tel Aviv og þvílík spenna í loftinu! Við byrjum á að sjá íslenska fánann í loftinu fyrir ofan sviðið og síðan er keyrt í þrjú rennsli. Sviðsetning er töluvert breytt frá því sem áhorfendur sáu í Söngvakeppninni. Á sviðinu er stór hnöttur í laginu eins og Svikamyllulógóið. Þar ofan á stendur trommugimpið Einar en hann er ekki lengur með langa kylfu að berja drumbur heldur hefur henni verið skipt út fyrir svipur (sem einhverjir lýstu sem klappstýrupompoms). Dansararnir Ástrós, Andrean og Sólbjört fá meiri skjátíma og er það vel. Það er ljóst að Hatara hefur tekist vel upp í fjáröfluninni því nóg er af reyk, eld og flugeldum á sviðinu. Í bakgrunni sjáum við keðjur, eld, mynd af Matthíasi í bronsstyttulíki og gaddakúlur. Í lokin koma þau öll sex fremst á sviðið eins og við sáum í Söngvakeppninni heima. Það er mál manna hér í blaðamannahöllinni að sum skotin hafi verið of löng og myndatakan of “mjúk” – það hafi sumsé vantað þessi sjokkáhrif sem voru svo afgerandi. Einhverjir stinga upp á íslenska framlagið ætti að vera með blóðslettur sem skjáhrif (on screen effect). Eins og við var að búast eru einhverjir sem sakna mjaðmahreyfinga Klemensar. Raddir voru góðar en einhverjir voru hræddir um að Klemens myndi eiga í erfiðleikum með lokatónana í stressinu sem fylgir flutningi í undankeppni Eurovision.

Victor Crone frá Eistlandi

Eistland á fyrstu æfingu sinni. Mynd: Andres Putting

Margir hafa klórað sér í kollinum yfir röðun laga í síðari hluta fyrri undankeppninni; Georgía, Ástralía, Ísland, Eistland og Portúgal. Öskuratriði sem öll standa út úr nema Eistland sem er fórnað á altari Eurovision minninganna mitt á milli Íslands og Portúgals. Victor vann símakosningu Eesti Laul en var einungis í 7. sæti af 10 hjá dómefndinni. Victor stendur einn á sviðinu með gítar en síðan er skipt á bakröddina sem fáir hér í Expóhöllinni botna í. Eistneski hópurinn á í erfiðleikum á æfingunni, hljóð virðist vera í ólagi og Victor stendur fyrir framan grænan skjá megnið af æfingatímanum. Þar á ofan á Victor í erfiðleikum með sönginn. Í síðasta rennslinu, sem er í raun hans annað rennslið, verður ekki komist hjá því að taka eftir að Victor er orðinn nokkuð pirraður. Hann klárar samt rennslið og Victor snýr baki í áhorfendur á milli þess sem hann hann snýr sér sjálfur í hringi (“turn it all around” eins og segir í laginu). Í bakgrunni eru ský en enginn stormur eins og kannski var búist við í takt við heiti lagsins.

Conan Osiris

Portúgal á fyrstu æfingu sinni í Expó. Mynd: Thomas Hanses

Eitt einkennilegasta atriði Eurovision er næst á svið en það vakti athygli Eurovision aðdáenda fyrir skrýtinn dans, búninga, gylltar skeiðar í andliti og gylltar klær, furðulegar nærmyndir strigaskór og ég veit ekki hvað og hvað. Nú eru Conan og fallegi dansarinn João Reis Moreira farnir úr hvítu kögurbúningunum og komnir í fallega græna satínbúninga. Andlitsskrautið og gylltu klærnar eru á braut en Conan er kominn með gervi skegg (kannski pínu Conchita fílingur í því). En óttist ekki kæru lesendur FÁSES, goðsagnakenndu strigaskórnir eru hér enn en eru nú svartir en ekki gráir. Sviðsetningin minnir á portúgölsku undankeppnina með tröppunum sem þeir fara upp og niður á. Æfingin hjá Portúgölunum heppnast vel en að okkar mati mætti fækka víðskotunum og fjölga nærmyndunum af þessu goðsagnakennda dúói.

Katerina frá Grikklandi

Frá fyrstu æfingu Grikkland. Mynd: Thomas Hanses.

Því miður misstu fréttaritarar FÁSES.is af æfingu Grikklands í dag þar sem fyrsti blaðamannafundur Íslands fór fram á sama tíma. Það er mál manna hér í blaðamannahöllinni að Katerina hafi skilað söngnum vel en nokkrar áhyggjurraddir heyrðust um söng Katerina eftir Eurovision hátíðina í Amsterdam. Það var svolítið mikið að gerast á gríska sviðinu í dag og kannski væri best fyrir þau að einblína á eitthvað eitt.

Serhat frá San Marínó

Fyrsta æfing Serhats í dag. Mynd: Thomas Hanses.

Ahhh maðurinn sem allir Eurovision aðdáendur elska: Serhat! Atriðið hans er í ætt við myndbandið, litríkt og létt. Serhat er klæddur í sigurhvítt sem og fimm bakraddasöngvarar hans. Tveir þeirra halda þar að auki á ljósaskreyttum gjallahornum. Í bakgrunni er leikið með liti og línur úr texta lagsins. Í hluta atriðisins er Serhat staddur í ramma svo hann er kannski að reyna stela sér fari með þessari instragram tísku sem er í gangi núna, sbr. tékkneska framlagið. Serhat er ekki sterkasti söngvarinn en bætir það svo sannarlega upp með sviðsjarmanum.