Fyrsti dagur blaðamannafunda í Tel Aviv


Það er þétt dagskrá hjá keppendum í Tel Aviv. Við komuna í Tel Aviv Expo þar sem keppnin er haldin er byrjað á að fara í gegnum öryggisleit. Þegar inn er komið er farið í 30 mínútna langa inneyra æfingu áður en farið er á stóra sviðið og fyrsta rennslið tekið. Svo fá keppendur 20 mínútur í áhorfsherberginu þar sem þau fá að sjá hvernig atriðið kemur út á skjánum til að geta komið með tillögur að breytingum og betrumbótum á atriðinu og í kjölfarið er farið yfir sminkið. Að loknu öllu þessu ferli hitta listamennirnir samfélagsmiðla Eurovision og í kjölfarið hefjast svo hinir viðfrægu blaðamannafundir í blaðamannahöllinni. Að sjálfsögðu verða blaðamenn FÁSES viðstaddir blaðamannafundina og munum við birta hápunktana frá þeim í þessari færslu sem verður uppfærð eftir því sem fundunum fram vindur.

Tamta frá Kýpur

Tömtu leið vel á sviðinu og henni fannst sviðið stærra en hún átti von á. Hún á von á því að næsta æfing muni ganga betur. Tamta tók þátt í grísku undankeppninni árið 2007 með laginu With Love. Síðan hún tók þátt í keppninni þá hefur mikið gerst hjá Tömtu og hún segist þurfa að skrifa heila bók til að lýsa öllu sem hefur gerst síðan þá. Hún þakkaði Kýpverjum fyrir traustið sem sér hafi verið sýnt með því að velja sig sem fulltrúa þeirra í Eurovision í ár. Tamta var spurð út í fötin sem hún var í á æfingunni sem hún segir að hafi verið sérhönnuð á sig og það séu fötin sem hún ætli að vera í. Tamta nýtur þess vel að vera í samstarfi við alþjóðlega teymið sem hún vinnur með núna sem kemur að stórum hluta frá Svíþjóð. Tamta hefur tekið þátt í mörgum raunveruleikaþáttum og hún þakkar móður sinni fyrir að hafa skráð sig í margar keppnir sem barn. Hún Tamta samsvarar sér vel við slagorði keppninnar í ár Dare to Dream og segir frá því hvernig hún hafi ákveðið að flytja frá Georgíu til Grikklands með lítið barn og taka þátt í Idolinu þar og orðið stórstjarna eins og hana hafði dreymt um.

Tamta áður en hún steig á svið á fyrstu æfingu 4. maí 2019. Mynd Thomas Hanses

Lake Malawi frá Tékklandi

Þegar söngvarinn Albert var 15 og 16 ára gamall sendu foreldrar hans hann til Englands til að læra ensku og þess vegna talar Albert með breskum hreim. Tónlistarmyndbandið við lagið á að lýsa keðjunni friend of a friend of a friend. Aðspurður segir Albert að lagið fjalli ekki um neinn sérstakann vin heldur meira um almennt um þessa keðju. Á einum stað í laginu kemur kvenrödd inn og spyr I am only a friend en hún stendur ekki á sviðinu heldur er baksviðs. Albert er undir miklum áhrifum frá Chris Martin og ímyndar sér Eurovision reynsluna sem að hann sé að upplifa tvo daga í lífi Chris Martins. Bandið Lake Malawi spila um 60 gigg á ári og hafa m.a. hitað upp fyrir tónlistarmanninn MIKA. Albert segir það mikilvægt að koma fram opinberlega á tónleikum því að til að geta lifað af tónlistinni þurfi í dag að selja miða á tónleika. Það er ekki hægt að lifa af plötusölu einni. Þeir vonast til þess að þátttaka í Eurovision muni hjálpa þeim að koma sér á framfæri svo þeir geti í framtíðinni komið fram á fleiri stöðum í heiminum.

Lake Malawi bíða eftir að komast á svið á fyrstu æfingu 4. maí 2019. Mynd Thomas Hanses

Darude & Sebastian frá Finnlandi

Fréttarritarar FÁSES voru samferða finnsku sendinefndinni frá Helsinki seint í gærkveldi. Blaðamannafundurinn byrjar einmitt á því að Darude og Sebastian minnast á að þeir séu nokkuð þreyttir eftir ferðalagið, mótttökuna á flugvellinum í kjölfarið og síðan eftir að hafa vaknað snemma í morgun til að mæta í höllina. Að þeirra sögn er sviðið stórt og fallegt. Þeir lifi fyrir áhorfendurna, lifni við þegar þeir mæti í höllina og það má skilja á þeim að þetta sé skrýtið að æfa svona fyrir tómum sal. Darude fannst mikill heiður að vera beðinn að vera fulltrúi Finnlands í Eurovision og það hentaði vel að taka þátt með hliðsjón af dagskrá hans þetta árið. Stór hluti blaðamannafundarins fer í brandara Sebastians sem söng m.a. Look away í óperustíl. Darude og Sebastian eru báðir feður tveggja barna og ræða m.a. um hversu erfitt er að vera frá fjölskyldunni í tvær vikur á meðan Eurovision stendur.

Tulia frá Póllandi.

Á blaðamannafundinum með pólska stúlknakvartettinum Tulia kom m.a. fram að bandið heitir ekki Tulia eftir einni úr hljómsveitinni sem heitir sama nafni heldur var nafnið eingöngu valið vegna fagurfræðilegra ástæðna. Þær leggja áherslu á þjóðlagatilvísunina í sínum lögum og finnst mikilvægt að halda pólskri menningu á lofti, hvort sem það er með ábreiðum, eins og Nothing else matter með Metallica eða Depech mode ábreiðan sem gerði þær frægar í Póllandi. Söngtæknin í Fire of Love heitir “Light voice singing” og er hærri söngrödd. Þessi stíll kemur frá verkafólki sem vann á ökrunum í Austur Evrópu. Ef þú vildir að það heyrðist í þér þurftir þú að öskra en síðar þróaðist röddin í þennan háan tón. Þessari tækni fylgir mikill hávaði og þess vegna er þetta stundum kallað öskursöngur. Myndbandið við Fire of Love hefur vakið athygli en innblástur þess kemur frá kvikmyndinni Cold War og er um mismunandi tegundir ástar. Eftir Eurovision eru Tulia uppteknar við tónleikahald og síðan eiga þær von á að taka upp aðra plötu sína fljótlega. Stelpurnar í Tulia segja að mikil vinna hafi farið í að taka upp póstkortið fyrir Eurovision en þær æfðu í samtals 20 klst. með ísraelskum dönsurum til að taka upp þetta nokkurra sekúndna myndbrot.

Mynd: Thomas Hanses

Zala og Gašper frá Slóveníu

Þeim finnst eins og þau eigi ekki heima hér því þau eru vön að flytja efnið sitt fyrir færri áhorfendur. Aðalmarkmið þeirra er að skapa góða orku á sviðinu og vera í sinni eigin búbblu. Sviðsetningin er ekki aðalatriðið en þau játa því samt að Eurovision sé stórt tækifæri fyrir þau. James Blake og The Nationals eru m.a. nefnd sem áhrifavaldar fyrir Zölu og Gašper. Þau eru alvöru nútímapar sem kynntist í gegnum Instragram árið 2016 og það er gaman að fylgjast með parinu á blaðamannafundinum því þau klára setningar fyrir hvort annað. Zala og Gašper segjast vera intróvertar og það hafi tekið tíma að venjast athyglinni sem fylgir Eurovision.

Zala Kralj & Gašper Šantl fyrir fyrsta rennsli 4. maí 2019. Mynd: Thomas Hanses

D-Mol frá Svartfjallalandi

D-mol fannst sviðið æðislegt en eru þess fullviss að næsta æfing muni ganga betur en þessi í dag. Þau eru stór hópur og segja að þau séu eins og fjölskylda. Þau kynntust í Söngskóla sem var stofnaður af Danijel Alibabić sem var hluti af bandinu No Name sem keppti fyrir Serbíu og Svartfjallaland árið 2005. Þau ætla að standa sig eins vel og þau geta og sama hvernig fer ætla þau að snúa aftur heim sem hetjur. Þau eru mjög ung og segja að allir samnemendur þeirra séu mjög spenntir yfir þátttöku þeirra. Upplifun þeirra í Eurovision er eins og draumur að verða að veruleika eins og slagorð keppninnar Dare To Dream. Krakkarnir sem voru með þeim í myndbandinu eru öll samnemendur þeirra í söngskólanum heima í Svartfjallalandi.

D-Moll frá Svartfjallalandi gera sig klár fyrir fyrsta rennsli 4. maí 2019. Mynd Thomas Hanses

Joci Pápai frá Ungverjalandi

Joci Pápai (ekki lengur berfættur – komin í töflur!) er ánægður með að vera kominn til Tel Aviv því mikill undirbúningur hefur farið í atriðið. Ungverska sendinefndin var mjög forvitin að sjá hvernig grafíski bakgrunnurinn myndi koma út á stóru sviði en að okkar mati tókst þeim vel upp. Joci segir að hann reyni að taka Eurovision með afslappaðri hætti nú en 2017 en honum finnst um leið merkilegt að vera komin í Ísrael þar sem hann er mjög trúaður. Það er erfitt að gera upp á milli framlags hans 2017 og í ár að sögn Joci og hann gerir ekki tilraun til þess. Aðalmarkmiðið með Origo 2017 var að kynna menningu Rómafólks en nú er áherslan á sýna hreina tilfinningu lagsins. Hann á í sérstöku sambandi við föður sinni sem hefur staðið við hlið Joci þrátt fyrir að hann hafi verið uppreisnargjarn. Joci fer á kostum á blaðamannafundinum og tekur bæði Eurovisionlögin sín hér í Expóhöllinni.

Joci Pápai gerir sig og lið sitt klárt fyrir fyrsta rennsli 4. maí 2019. Mynd Thomas Hanses

Hvíta-Rússland

Zena var ánægð með atriðið og hvernig fyrsta æfingin gekk hjá sér í dag. Hún er 16 ára gömul og er yngsti keppandinn í Eurovision í ár. Hún er mjög upp með sér að vera að keppa í Eurovision og hún veltir fyrir sér fyrst hún er bara 16 ára gömul að keppa í Eurovision hvað hún megi vænta í framtíðinni. Zena keppti í Junior Eurovision í fyrra og hefur verið kynnir í sömu keppni. Munurinn er mikill á milli Eurovision og Junior Eurovision, Eurovision er miklu meira fullorðins og prófessional að hennar mati. Henni finnst skemmtilegra að syngja í Eurovision en að vera kynnir því það er það sem hana langar að gera. Fötin sem hún var klædd í á æfingunni í dag eru ekki fötin sem hún ætlar að vera í á undankeppninni þann 14. maí. Zenu líkar vel við sig í Tel Aviv arkítektúrinn, veðráttan og mest af öllu fólkið sem er alltaf brosandi hér. Hún er áhrifavaldur og er með 100.000 fylgjendur á Instagram og 50.000 fylgjendur á Youtube. Allt efnið sem hún setur inn á samfélagsmiðla gerir hún sjálf og reynir að vera í góðu sambandi við aðdáendur sína og svara öllum skilaboðum sem hún fær.

Zena frá Hvíta-Rússlandi gerir sig klára fyrir fyrsta rennsli. Mynd: Thomas Hanses

Nevena Božović frá Serbíu

Hinni 24 ára gamalli Nevenu fannst fyrsta æfingin ganga mjög vel. Þetta er í þriðja sinn sem hún stígur á Eurovisionsviðið en nú er það sérstakur heiður þar sem hún samdi lag og texta lagsins Kruna. Lagið er samið til unnusta hennar, nú eiginmanns. Nevena er greinilega stoltur Eurovisionfari og gerir sér lítið fyrir og tekur framlag hennar frá 2013, Ljubav je svuda. Nevena tók líka þátt í Junior Eurovision 2007 og segir ekki vera mikinn mun á því að taka þátt í yngri eða eldri deildinni því það sé alltaf heiður að vera fulltrúi Serbíu. Nevena er grænmetisæta og þá hentar vel að vera stödd í höfuðborg grænmetisæta, Tel Aviv. Nevena er spurð út í póstkortið sem tekið var upp í Ísrael fyrir nokkrum vikum og er stoppuð í miðjum lýsingum af fulltrúa sendinefndarinnar þar sem það er harðbannað að kjafta frá innihaldi þeirra! Hún bætir mistökin upp með því að syngja framlag Serbíu í ár og Molitva frá 2007 við góðar undirtektir hér í blaðamannahöllinni. Gaman er að geta þess að í bakraddateymi Nevenu er reynt fólk, m.a. bakraddir Željko Joksimović 2012 og Mladen Lukić sem keppti sem hluti af Balkanika í fyrra.

Mynd: Thomas Hanses