Fyrsti dagur æfinga í Tel Aviv


Þá eru blaðamenn FÁSES mættir í blaðamannahöllina þar sem fyrstu æfingar fara fram í Tel Aviv. Að venju munum við segja frá því sem fyrir augu ber.

Fréttin var uppfærð eftir því sem leið á daginn og myndir frá æfingunum settar inn.

Kýpur

Tamta frá Kýpur á fyrstu æfingu í Tel Aviv 4. maí 2019. Mynd: Andres Putting

Klæðnaður Tömtu er greinilega innblásinn af Hatara, en hún er klædd í pleðurjakka, klofhá stígvél með ógnarháum pinnahælum og með leðurólar og gaddakristalla á undirbuxunum. Atriðið minnir á Madonnu eða Micheal Jackson á tónleikum (reyndar aðeins færri á sviðinu en þau hefðu haft). Í miðju atriðinu svipta dansararnir hana klæðunum og undir er hún í efnislitlum silfurlitum sundbol með kristöllum. Eins og við var að búast er lagið einkar umhverfisvænt og mikil endurvinnsla á sviðinu, jafnvel svo að hluti atriðisins er spilaður ítrekað aftur (á loop). Í blaðamannahöllinni er hljóðið stillt af ásettu ráði mjög lágt svo ekki var hægt að greina hver frammistaða Tömtu var í söngnum.

Tékkland

Lake Malavi frá Tékklandi á fyrstu æfingu í Tel Aviv 4. maí 2019. Mynd: Andres Putting

Svartfellingar eiga að vera númer tvö á svið, en fengu að skipta við Tékka um æfingatíma í dag. Sagan segir að það hafi verið vegna þess að Svartfellingarnir hafi komið til Ísrael í morgun því þau fengu ekki lengra frí úr skólanum. Blaðamenn fögnuðu ógurlega við fyrstu línur lagsins “Can you hear it?”, þar sem loksins heyrðist hljóð í blaðamannahöllinni. Albert Černý forsöngvari er klæddur í gallabuxur og gula peysu og lítur meira út fyrir að vera á leiðinni í ensku tíma í Fjölbrautarskólanum við Ármúla en að keppa í Eurovision. Með honum á sviðinu eru bassaleikarinn Jeroným Šubrt og trommuleikarinn Antonín Hrabal sem eru ekki mjög áberandi og leyfa Alberti að njóta athyglinnar. Atriðið er mjög í takt við tónlistarmyndbandið og notast við ramma sem eru klipptir saman á skjánum og gæti vel sómað sér sem auglýsing fyrir tæknifyrirtæki. Í lokin birtist á LED skjánum fyrir aftan sviðið orðið vinur á mörgum af tungumálum Evrópu.

Finnland

Darude og Sebastian Rejman á fyrstu æfingu í Tel Aviv 4. maí 2019. Mynd: Andres Putting

Raftónlistarmaðurinn Darude og söngvarinn Sebastian Rejman hafa breytt sviðsetningu lagsins Look Away töluvert frá því sem við sáum í finnsku undankeppninni UMK. Kassanum með LED skjánum sem sýndi náttúrumyndir og loftslagsbreytingar hefur verið kasta fyrir lítinn ísjaka (sem er ágætt því það eru engir ísjakar í Finnlandi) sem dansarinn dansar á. Darude stendur bak við DJ borðið í einu horni sviðsins meðan Sebastian gerir víðreist um sviðið og notar m.a. landganginn milli áhorfenda. Það verður að segjast eins og er að sviðsetning veldur nokkrum vonbrigðum og ekki bætir frammistaða söngvarans við þá upplifun.

Pólland

Pólland á fyrstu æfingu í Tel Aviv 4. maí 2019. Mynd: Andres Putting

Þjóðlagakvartettinn Tulia á í einhverjum vandræðum með inneyrun í fyrsta rennsli. Stúlkurnar eru í forkunnafögrum búningum með regnbogafánapilsi og með tilkomumikið gyllt hárskraut eða jafnvel kórónu á höfðinu. Í byrjun lagsins standa þeir á ostabakka sem snýst og veltum við fyrir okkur hvort það gæti ekki valda svima hjá flytjendum. Pólverjar eru greinilega að vinna með sömu litapallettu og Tékkar, sem er í raun guli, rauði og blái rúmenski fáninn. Kvartettinn stendur kyrr allan tímann meðan á flutningi á sviði, fyrir utan smávegis samklapp í lokin, og ljóst að Tulia stúlkur þurfa að leika aðeins meira við myndavélina til að ná athygli 200 milljón áhorfenda.

Slóvenía

Slóvenía á fyrstu æfingu í Tel Aviv 4. maí 2019. Mynd Andres Putting

Atriðið þeirra Zala Kralj & Gašper Šantl er næstum alveg eins og það leit út í slóvensku undankeppninni. Þau eru bæði hvítklædd og hún er í rúllukragabol (ekki beint hentugasti klæðnaðurinn hér fyrir botni miðjarðarhafs). Gašper spilar á gítarinn og hljóðgervil og þau standa og horfa í störukeppni í augu hvors annars (spurning hver mun sigra þetta störueinvígi). Í blaðamannahöllinni er þeim Zala og Gašper líkt við franska parið í Madame Monsieur frá því í fyrra. Sviðið er stjörnum prýtt og seiðandi laglínan tónar vel við atriðið sem er mínimalískt og kemur laginu vel á framfæri. Lagið er frábærlega flutt af hinni seiðandi söngkonu Zala sem dáleiðir áhorfendur með slóvenskum tónum.

Svartfjallaland

Svartfjallaland á fyrstu æfingu í Tel Aviv 4. maí 2019

Ja… hvar á að byrja. Atriðið er allt það sem við áttum von á – og meira til. Blaðamenn eru farnir að spá laginu 20. sæti í fyrri undankeppninni. D-mol hafa skilið nótnaborðið eftir heima og eru klædd í hvít jakkaföt og dragtir (hvítur fatnaður er náttúrulega ávísun á velgengni í Eurovision – það vantar bara fiðluna). Myndatakan kom ekki alveg nógu vel út eins og að myndatökumennirnir væru ekki alltaf á réttum stað. Í rennsli númer tvö á æfingunni kom sviðsstjórinn inn á til að leiða þau í gegnum atriðið sem blaðamönnum þótti mjög sérstakt. Þau eru sex í slag á sviðinu um athyglina sem verður til þess að atriðið fellur flatt og ekki er lagið að hjálpa til.

Ungverjaland

Joci Pápai á fyrstu æfingu í Tel Aviv 4. maí 2019. Mynd: Andres Putting

Joci Pápai er mættur aftur í Eurovision nú með lag um föður sinn. Joci er klæddur í rúllukragabol og kvartbuxur og berrassaður á tánum. Í upphafi atriðisins birtist mynd af föður hans í bakgrunni og svo fleiri forfeðrum. Joci er einn á sviðinu allan tímann og sviðið minnir á heitt rennandi hraun undir fótunum á honum sem er í mótsögn við að hann er á tánum á sviðinu. Á bakvið hann þegar líður á lagið birtist gyllt tré sem minnir mjög á tréð hennar Jamölu frá 2016. Í millikaflanum (na na na kaflinn) eru mikil víðskot úr salnum og í lok lagsins fellur gullfoss (golden shower) niður bakvið Joci. Mjög öruggur flutningur eins og Joci er von og vísa.

Hvíta Rússland

Fyrsta æfing Hvíta-Rússlands 4. maí 2019. Mynd: Andres Putting

Hin 16 ára Zena er fulltrúi Hvít-Rússa í ár. Sviðsetning Like it svipar til þess sem við sáum í undankeppni Hvíta-Rússlands. Zena er klædd í þröngan magabol og hvít há stígvel og það verður að segjast eins og er að hún klárar sönginn nokkuð vel miðað við ungan aldur. Hún er með tvö karlkyns dansara með sér á sviðinu og í lok lagsins bætast tvær bakraddasöngkonur við sviðið. Það er mikið um dans á sviðinu en þetta virkar allt saman svolítið stíft og eitthvað vantar upp á sviðssjarmann sem var svo áberandi í flutningi hins ungverska Joci. Því miður bæta reyksprengjurnar ekki sjarmaskortinn hjá Zenu.

Serbía

Nevana á fyrstu æfingu í Tel Aviv 4. maí 2019. Mynd: Andres Putting

Nevena Božović tók fyrstu æfingu með trompi fyrir Serbíu með lagið Kruna. Sviðsetningin er mjög svipuð því sem við sáum í Beovizija heima í Serbíu. Hún er búin að skipta um kjól en er ennþá með hálsmenið sem líklega er hannað af sama hönnuði og gerði kórónuna hennar Kate Miller-Heidke frá Ástralíu (er Nevana kannski að syngja um kórónuna hennar Kate?). Það er greinilegt að það eru sama teymi sem stendur að baki keppninnar hér í Tel Aviv eins og í Stokkhólmi árið 2016 því að myndir í bakgrunni minna mikið á siguratriði Jamölu frá 2016.