Ítalía sigraði á Júró-Stiklum FÁSES

Hatara-páskaegg og Eurovision-verðlaunagripurinn

Júró-Stiklur FÁSES voru haldnar í Bíó-Paradís þann 12. apríl sl. og á Café Amour á Akureyri þann 9. apríl sl. í sjötta skipti í sögu félagsins. Eins og flestir vita er hér um að ræða fjölskylduvænan viðburð á vegum félagsins þar sem stiklað er á stóru yfir stiklur úr Eurovision framlögum ársins í ár. Stiklurnar voru með örlítið breyttu sniði þar sem í fyrsta skipti var enginn kynnir heldur hefðbundin Eurovision-kynningarpóstkort þar sem Sunna Mímisdóttir leysti Gísla Martein Baldursson af í þularklefa. Eins og síðustu ár var rafræn kosning og tóku félagsmenn FÁSES á Norðurlandi nú þátt í kosningunni í fyrsta skipti. Um það bil 60 manns mættu í Bíó-Paradís og skemmtu sér með okkur yfir poppi og kóki.

Að mati FÁSES-liða munu Ítalir fá 12 stig úr íslensku símakosningunni í ár. Niðurstöðurnar voru nokkurn veginn í takt við íslensku stigagjöfina í OGAE Big Poll, sömu löndin voru á topp 10 en með ögn breyttri röð.

Samanlögð niðurstaða

Nokkur munur var á niðurstöðum milli kjördæma en samkvæmt aðdáendum norðan heiða fá Svisslendingar 12 stig og Eistar 10 stig.

Eistar komust hins vegar ekki á topp 10 fyrir sunnan en Grikkir náðu 7. sætinu sem veitti þeim 8. sætið í samanlögðum úrslitum.

FÁSES fór í samstarf við bakhjarl Hatara, SodaDream, og var happdrætti þar sem hægt var að vinna Hatara-páskaegg ásamt Eurovision-spili, prótein-stykkjum frá FitnessSport og ómetanlegum Eurovision-varningi. Börnin gátu fengið mynd af sér með Eurovision-verðlaunagripinn og staðgengill Einars Hrafns Stefánssonar trommu-gimps ávarpaði mannskapinn.

Fyrir þá sem ekki komust á Stiklurnar, örvæntið eigi! Það er hægt að horfa á þær á hinu almáttuga interneti hér fyrir neðan!

Fyrri hluti

Seinni hluti

Myndir: Ástríður Margrét Eymundsdóttir