Rock n´ Roll Kids og Riverdance 25 ára


Fyrir 25 árum í dag, eða 30. apríl 1994, fór fram stórmerkileg Eurovisionkeppni í Point Theatre í Dublin á Írlandi, sem er sá staður þar sem keppnin hefur oftast farið fram. Aldrei hafa bæst eins margar nýjar þjóðir við í keppnina milli ára, hvorki fleiri né færri en sjö; Eistland, Ungverjaland, Litháen, Slóvakía, Rúmenía, Rússland og Pólland. Alls voru löndin 25 sem tóku þátt 1994. Þessar frumraunir nýju þjóðanna gengu misvel. Litháar enduðu í neðsta sæti með núll stig, en Edyta Gorniak varð í öðru sæti fyrir Pólland með lagið To nie ja.  Það lag er einnig lag númer 700 í Eurovision. Ekki verður heldur hjá því komist að minnast á okkar konu, Sigríði Beinteinsdóttur sem flutti lagið Nætur og lenti í 12. sæti. Stórkostleg frammistaða hjá Siggu og sjaldan hefur önnur eins útgeislun sést í Eurovision!

Í fyrsta skiptið í stigagjöfinni fengum við að sjá kynnanna á skjá. Það var mikil tæknibylting og strax þá voru bakgrunnar vel valdir. Það var Sigríður Arnardóttir eða Sirrý sem fékk þann heiður að vera fyrsti stigakynnir Íslands með þessum hætti. Hún er síðust í þessu broti af stigagjöfinni.

Í þessari keppni er líka eitt allra vinsælasta skemmtiatriðið í Eurovisionsögunni, Riverdance. Riverdance er leiksýning þar sem blandað er saman írskri þjóðlagatónlist og dansi. Bill Whelan samdi tónlistina, framleiðandi var Moya Doherty og John McColgan leikstýrði. Michael Flatley og Jean Butler fóru fyrir dönsurunum, en aðrir í stórum hlutverkum voru meðal annars Colin Dunne, Breandán de Gallaí og Joanne Doyle. Leiksýningin var svo frumsýnd í febrúar 1995 og hafa yfir 25 milljónir áhorfenda séð hana.

Það sögulega varðandi þessa keppni snýst ekki síst um sigurvegarana. Írar unnu þarna þriðja árið í röð og er þetta í eina skiptið sem það hefur gerst. Sigurlagið heitir Rock n´ Roll Kids. Þeir voru fyrstu sigurvegarnir sem nýttu sér ekki sinfoníuhljómveitina í þá 38 ára sögu Eurovision. Lagið var flutt af Paul Harrington á píanó og Charlie McGettingan á gítar.  Atriði með tveimur karlmönnum hafði heldur aldrei unnið áður þá. Í spjalli við Paul og Harry sem var tekið upp árið 2017 tala þeir félagar um að þetta hafi líklega verið þrjár mögnuðustu mínútur lífs þeirra, meðal annars vegna þess að forsætisráðherrann sjálfur, Mary Robinson, var í salnum og svo viðbrögð áhorfenda sem voru mjög sterk og fagnaðarlætin mikil.

Lagið er eftir Brendan Graham sem samdi líka The Voice sem vann tveimur árum síðar. Einnig samdi hann lagið You Raise Me Up sem Josh Groban gerði vinsælt árið 2003.  Þegar Brendan samdi Rock n´ Roll Kids var hann strax í upphafi ákveðinn í að semja einfalt og fallegt lag, laust við allar flugeldasýningar.