Eurovision aðdáendur fagna alltaf listamönnum sem snúa aftur í Eurovision og San Marínó búar hafa fattað það. Á hverju ári er spennandi að sjá hvort að Valentina Monetta (2012, 2013, 2014 og 2017) verði valinn fulltrúi San Marínó. Í vetur tilkynnti ríkissjónvarp San Marínó að hin stórskemmtilega en jafnframt einkennilega forkeppni 1in360 yrði ekki haldin aftur eins og í fyrra heldur yrði lagið valið innbyrðis. Fljótlega fóru Gróu sögurnar af stað (já, við elskum Júró-Gróu), og Rodrigo Alves (hinn mennski Ken) var orðaður við að vera fulltrúi smálandsins í Eurovision. Í janúar var það svo tilkynnt að góðkunningi Eurovision Ahmet Serhat Hacıpaşalıoğlu, betur þekktur sem Serhat, yrði fulltrúi San Marínó í Eurovision með lagið Say Na Na Na.
Serhat er reyndar ekki frá San Marínó, heldur Tyrki. Hann er vel þekktur í heimalandinu Tyrklandi þar sem hann var lengi framleiðandi og þáttarstjórnandi í sjónvarpi og ýmsum öðrum viðburðum. Ekki nóg með að vera hokinn af reynslu í skemmtanabransanum þá er hann menntaður tannlæknir. Serhat var fulltrúi San Marínó í Eurovision í Stokkhólmi árið 2016 með lagið I Didn’t Know, en komst því miður ekki í úrslit þá. Lagið fékk þó uppreist æru tveimur árum síðar þegar það náði 25. sæti á danslagalista Billboard í Bandaríkjunum í endurútgáfu Serhats ásamt söngkonunni Mörthu Wash. Þó að Say Na Na Na sé á ensku þá geta tungumálaunnendur glaðst yfir því að heyra Serhat telja upp á þrjá á tyrknesku Bir, İki, Üç (lesist býr, ýkí, uch – ch eins og í Chandler).
San Marínó tók fyrst þátt í Eurovision árið 2008 en hefur einungis einu sinni komist í úrslit í þau níu skipti sem landið hefur sent lag til þátttöku. Það var lagið Maybe sem Valentina Monetta flutti árið 2014 og endaði í 24. sæti eða þriðja neðst. Ætli Serhat nái að toppa árangur Valentinu frá 2014? Eða allavega komast í úrslit? Vonandi!